Bloggfærslur mánaðarins, október 2010

Fjárleit á Álftanesi

BergurBergur skrifar:

Ásamt öðrum, keyri ég á hverjum degi framhjá nokkuð djúpri holu á miðju Álftanesi á leið til vinnu. Mörg okkar keyra eða ganga hjá holunni þegar við förum í sund, í apótek, til læknis, í matvörubúð, á bílaþvottastöð eða bara til að sækja hvers kyns þjónustu sem almennum þjóðfélagsþegnum dytti í hug að sækja í þéttbýli í vestrænu samfélagi. Sum okkar hjóla meira að segja framhjá henni um helgar þegar okkur langar í sjoppu til að ná okkur í ís og DVD. Nú er ég jarðvegsfræðingur og hef svo sem ekkert út á skurði og holur að setja enda má margt læra með að rýna í jarðvegssnið á Íslandi en í tilefni þess að ég er búinn að fara nokkur hundruð  sinnum framhjá þessari holu hlýt ég að spyrja: Hvernig ætlar bæjarstjórn að stoppa í 100 milljón króna gatið sem myndast í bæjarsjóði þegar það þarf að endurgreiða Samkaup fyrir lóðargjöldin af matvörubúðinni sem aldrei varð? Hvar ætlar sama stjórn að finna 100  milljónir til að endurgreiða Búmönnum vegna kostnaðar við arkitektavinnu og skipulagsvinnu frá 2007 vegna þjónustuhúss og raðhúsa Búmanna, sem var draumur einn og munu þar líka finnast þeir milljónatugir sem þarf til að greiða þrotabúi Ris vegna riftunar samninga. Hvernig kemur það út varðandi eiginfjárstöðu bæjarsjóðs að skila 400 milljónum í skuldabréfum sem Búmenn höfðu samþykkt vegna byggingaréttar á miðsvæðinu og verður ekki bæjarsjóður af tugum og hundruðum milljóna í gatnagerðagjöldum sem þessir fjárfestar hefðu borgað. Á sama tíma hefur bæjarsjóður fjárfest í hönnun og gatnagerð fyrir u.þ.b. 200 milljónir sem öll er unnin fyrir gíg. Eins verður ekki hægt að taka við framlagi frá Framkvæmdasjóði aldraðara fyrir u.þ.b. 150 milljónir sem lög kveða á um þegar sveitarfélög byggja þjónustuhús fyrir eldri borgara. Eru þetta ekki endurgreiðslur og skaðabætur og ónýt fjárfesting fyrir 1000 -1100 milljónir sem bæjarsjóður verður af við riftun samninga. Berum það saman við þá 1.200 milljón króna skuldbindingu sem bæjarsjóður átti að greiða í leigu fyrir Þjónustuhúsið á 50 ára tímabil, en gat notað það áfram án leigugreiðslna að þeim tíma liðnum eins og stefnt var að í upphafi? Reiknar bæjarstjórnin með einhverjum sérstökum tekjum til að greiða fyrrnefndar milljónirnar í stað þeirra glötuðu fasteignagjalda sem gert var ráð fyrir að yrðu innheimt af starfsemi í þessum húsum. Spyr sá sem ekki veit en ég geri ráð fyrir að margir velti þessum sömu spurningum fyrir sér.  

Ps. Kannski eru milljónirnar 1000 í „Money-heaven“, það má e.t.v. ná í þær þar.


Og hvað svo, Álftnesingar? – Val á ‘lausn’

 

Kristinn

 Kristinn skrifar:

Ár er síðan bæjarstjórnin á Álftanesi óskaði eftir að Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga skoðaði rekstur bæjarfélagsins. Ekki er ætlunin að fjölyrða um þá atburðarás hér, heldur velta vöngum yfir spurningum eins og: Hvar stöndum við Álftnesingar og hvert er stefnt? Ekki sakar að skoða málin og við hæfi nú þegar tími afgerandi ákvarðana varðandi framtíð byggðarlagsins á nesinu eru á næsta leiti.

1. Samningur um fjárhaldsstjórn:

Vegna rekstrarvanda sveitarsjóðs hefur Sveitarfélagið  Álftanes verið í gjörgæslu fjárhaldsstjórnar, skipaðri af ráðherra, frá síðustu áramótum. Tillögur eftirlitsnefndarinnar eru hafðar að leiðarljósi og samkvæmt þeim hefur verið einblínt á niðurskurð í rekstri og unnið að ‘lausn' vandans með tillögu um sameiningu við stærra sveitarfélag. Í samningi við fjárhaldsstjórnina er kveðið á um að Álftnesingar skuli hafa frumkvæði að samningaviðræðum við annað sveitarfélag og hnýtt aftan í ákvæðið - "t.d. Garðabæ". Hér í framhaldinu verða skoðaðir kostirog gallar við þá ‘lausn'.

Skoðanakönnun í mars 2010 sýndi að fjöldi Álftnesinga áleit góðan kost að sameinast Garðbæingum. Litlu færri Álftnesingar töldu álitlegastan kost sameiningar vera Reykjavík, en af einhverjum ástæðum ákvað bæjarstjórnin þann 26. ágúst s.l. að hafna tillögu Reykvíkinga um viðræður og að aðeins skyldi rætt við Garðbæinga. Ákvörðunin hefur ekki verið rökstudd og aðeins sagt að farið sé eftir gildandi reglum og aðeins skuli unnið að samningagerð við eitt sveitarfélag, á hverjum tíma. Hins vegar eru engar reglur sem hefðu hindrað þann möguleika að byrja fyrst á að þreifa fyrir sér og kanna hvar mestur vilji er til að samþykkja framtíðarsýn Álftnesinga. Enn er lag og ekki þurfa bæjarstjórnendur að velkjast í vafa um hvað er við hæfi að setja fram sem óskir Álftnesinga í sameiningarviðræðum, til viðbótar við það augljósa stefnumál að sameinast stærra og burðugra sveitarfélagi. Vandaðar samantektir frá þremur íbúaþingum lágu fyrir og framkvæmdir hafnar við uppbyggingu á nærþjónusta á nesinu. Þess utan liggur fyrir samþykkt langtíma stefna varðandi landnýtingu og náttúruvernd. Ljóst er að aðeins skorti viljann til að kanna hvar mestur skilningur er fyrir þeim framtíðaráformum sem íbúar Álftaness höfðu formað og samþykkt. Það er ljóst af því að bæjarstjórn vísaði frá boði Reykvíkinga um viðræður og tilkynnti á sama bæjarstjórnarfundinum að skipa nefnd sem skyldi vinna að sameiningu við Garðabæ. Þetta sýnir þetta að umrædd ákvörðun bæjarstjórnar er byggð á einhverjum öðrumforsendum en mati á hvar hagsmunum Álftnesinga verði best borgið, forsendum sem ekki hafa verið kynntar. Einu svörin sem gefin hafa verið fyrir einsýnni stefnu bæjarstjórnar eru, að tekið sé mið af nefndri skoðanakönnun í mars. Rökin eru léttvæg, jafnvel þó einhver hafi talið að mest lægi á að leysa vanda sveitarsjóðs sem allra fyrst. Svo er minnst á ótiltekna hagræðingu af sameiningu sveitarfélaga, almennt.

Umhugsunarvert er að bæði ráðuneyti sveitarfélaga, meðan Kristján Möller sat í ráðherrastóli, og Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitafélaga, hafa sett fram þá skoðun að bæjarfélagið á Álftanesi og Garðabær ættu að sameinast. Eins og hjá meirihluta bæjarstjórnar á Álftanesi skorti rökstuðninginn hjá þessum aðilum, og aðeins sagt að vænta megi ótiltekinnar hagræðingar af sameiningu. Erfitt er að skilja af hverju ekki er þá lagt til að höfuðborgarsvæðið allt sameinist, sem væri upplagt góður kostur því um er að ræða eitt samhangandi þjónustu og atvinnusvæði. Sameining alls svæðisins myndi leysa margan vanda, ekki síst þá hryllingsmynd sem birtist í ósamræmdu skipulagi og hnökrum varðandi samvinnu um góðar almenningssamgöngur, vatnsveitu o.fl. Það að styrkja og stækka einingu eins og Garðabæ innan svæðisins, einingu sem ekki vill stefna að sameiningu alls svæðisins í náinni framtíð, er í þessu ljósi vanhugsað skref og augljóslega ekki til að auka líkurnar á sameiningu alls höfuðborgarsvæðisins.

2. Kostir og gallar hugsanlegra lausna með sameiningu

Ekki er úr vegi að Álftnesingar velti því fyrir sér í hverju ótiltekin hagræðing í rekstri sameinaðra sveitarfélaga geti fólgist. Við skulum því skoða hvaða máli það skiptir ef sameining yrði samþykkt við Garðabæ og hvað gæti orðið öðru vísi ef sameining við Reykjavík ætti sér stað.

Á Álftanesi er rekinn grunnskóli, leikskóli, íþróttahús (með sundlaug), tónlistaskóli, bókasafn, áhaldahús, frístundastarf, vinnuskóli fyrir unglinga á sumrin og bæjarskrifstofa með margvíslegri ónefndri þjónustu við íbúana. Þess utan er fjöldi samninga við nágrannasveitarfélögin um ýmsa þjónustu (s.s. heilsugæslu,löggæslu, orkuveitu, fráveitu, almenningssamgöngur o.fl.) og svo hefur sveitarfélagið stutt vel við bakið á fjölbreyttri félagsstarfsemi í byggðinni.

Skoðum fyrst hvaða breytingar eru líklegar ef Garðabær ætti í hlut. Í fyrsta umgangi gefum við okkur að rekstur grunnskólans sé lögboðinn og ekki verði vikist undan þeirri þjónustuskyldu sem uppfylla þarf, óháð hvaða kostur er valinn til sameiningar. Öðru gildir að sjálfsögðu um rekstur bæjarskrifstofunnar og þeirrar þjónustu sem þar er innt af hendi. Starfsemin yrði líkast til öll flutt í ráðhúsið við Garðatorg. Hagræðing af sameiningu stjórnsýslunnar og þjónustuhlutverks sem bæjarskrifstofan annast  gæti hugsanlega lækkað útgjöld til rekstrar byggðarlagsins á Álftanesi um 2 - 4%. En, ef ná á fram meiri hagræðingu í rekstrinum yrði að gera merira og þá þyrfti að leggja niður eitthvað af þeirri nærþjónustu sem Álftnesingar búa við nú. Varla verður það gert með því að draga meira en orðið er úr almenningssamgöngunum, því áætlunarferðir voru skornar niður við nögl fyrir u.þ.b. tveimur árum síðan vegna þrýstings frá Garðabæ. Ástæðan var að stór hluti aksturskosnaðarins féll á sveitarsjóð Garðabæjar vegna þess að vagnarnir aka mestan hluta leiðarinnar innan sveitarmarka Garðabæjar. Því er líklegt er að rekstur bókasafns, tónlistaskóla og áhaldahúss á nesinu yrði hætt. Meir að segja grunnskólinn gæti lent undir sparnaðarhnífnum og það hefur þegar komið til tals að flytja mætti kennslu efstu bekkja grunnskólans aftur til Garðabæjar. Ástæðan er að þar er á ný rými í grunnskólunum, eftir að nokkrir stórir árgangar unglinga hafa gengið í gegnum skólakerfið. En er ásættanlegt að byggðarlagið á Álftanesi verði notað tiljöfnunar á sveiflum í barnafjölda í Garðabæ. Gæta þarf að því að hagræðing verði ekki bara tilflutningur á rekstri milli eininga, sem hefur þann eina tilgang að líta vel út í bókhaldi. Ofangreindar tilfæringar eru líklegar því eðlilega er leitast við að staðsetja þjónustu eins miðlægt og kostur er. En fyrir Álftnesinga er líklegt að slíkar tilfærslur kalli á aukin útgjöld, ekki síst vegna þess að þá þurfa þeir að nálgast þjónustuna um langan veg í þjónustuna við Silfurtúnið. Fyrir Garðbæinga kallar sameining á aukin útgjöld, þó svo að ná megi fram einhverri hagræðingu í þjónustu við byggðina út á Álftanesi, því rekstur byggðarlagsins stendur einfaldlega ekki undir sér án uppbyggingar á atvinnustarfsemi og slík uppbygging hangir saman við að boðið sé upp á nærþjónustu.

Skiljanlega má ætla að Reykvíkingar sýni því meiri skilning, en Garðbæingar, að viðhalda þurfi og efla nærþjónustu á nesinu. Það er einfaldlega lengra að sækja slíkt til miðbæjar Reykjavíkur frá Álftanesi. Þetta sáu Kjalnesingar fyrir er þeir völdu að sameinast fremur Reykjavík en Mosfellsbæ. Þeir völdu þannig að missa ekki alla nærþjónustu yfir til næsta byggðarkjarna. Auk þess er unnið að því að efla nærþjónustu í hverfum borgarinnar og flytja afgreiðslu í málaflokkum er lúta að nærumhverfinu til hverfastjórna. 

Það er ekki að furða þótt bæjarstjóri Garðabæjar hafi lýst yfir efasemdum sínum um að Garðbæingar myndu samþykkja tillögu um sameiningu að svo búnu. Rekstur byggðarlagsins á Álftanesi stendur ekki undir sér og hefur ekki gert það frá því að rekstur grunnskóla var fluttur tilsveitarfélaganna. Bæjarstjórinn er skynsamur maður og skilur að Garðbæingar sjái ekki hag af að taka á sig aukin útgjöld til rekstrar á skuldsettu byggðarlagi á Álftanesi. Vvæntanlega færi upplýst ákvörðun á sama veg á Álftanesi, því  hví ættu Álftnesingar að velja sameiningu við Garðabæ, ef aðeins stefnir í ofangreindar hagræðingar og niðurskurð varðandi þjónustu.

3. Orsakir og lausn á rekstrarvanda

Rekstrarvandi sveitarsjóðs á Álftanesi er og hefur kreppt að mörg undanfarin ár. Það er viðeigandi að kalla þetta vaxtaverki, því ört vaxandi íbúafjöldi kallar á aukna aðstöðu til þjónustu, s.s. skóla- og íþróttamannvirkja. ‘Vaxtaverkir' sveitarsjóðs, koma fram í auknum lánum sem eru tilkomin vegna uppbyggingar á brýnnri aðstöðu. Um þessa vaxtaverki og rekstrarvanda sveitarsjóðs er ítarlega fjallað í greinagerð sem unnin var og kynnt ríkisvaldinu. Skýrslan var rökstuðningur fyrir kröfu um hærri greiðslur úr Jöfnunarsjóði til handa Álftnesingum og að endurskoðunar væri þörf á reiknireglum sjóðsins. Byggðarlagið á Álftanesi er ekki sjálfbær rekstrareining af því að sveitarsjóður hefur nánast engar aðrar tekjur en útsvar og fasteignagjöld af íbúðarhúsnæði. Það dugar ekki fyrir útgjöldum og uppbyggingu þjónustuaðstöðu í ört vaxandi samfélagi, eins og fulltrúar Á-listans bentu á. Þessu var og er hægt aðbreyta. Álftnesingar kusu nýjar áherslur varðandi framtíð Álftaness árið 2006. Rakið í stuttu máli snerust þær breytingarnar um að skilgreina sveitarfélagið fullbyggt með 3 - 4 þúsund íbúum og að skapa grundvöll fyrir atvinnurekstri sem tæki mið af að nýta sérstöðu Álftaness á höfuðborgarsvæðinu. Sérstaðan felst í fjölbreyttri náttúru með miklu fuglalífi, sem nýtir stór opin svæði, tjarnir, votlendi, móa og víðáttumiklar fjörurnar og grunnsævi umhverfis nesið. Auk þess má rekja mikil tengsl við sögu bæði lands og þjóðar til Álftaness, ekki síst vegna þess að aðsetur ráðamanna hefur verið á Bessastöðum frá þjóveldi til lýðveldis. Liður í þeirri áætlun að nýta umrædda sérstöðu í þágu byggðarlagsins var að staðfesta verndun stórra samhangandi svæða á nesinu. Samþykkt hefur verið að búsvæðavernd skuli ná til nánast allrar strandlengjunnar og að verndunarákvæðin gerðu ráð fyrir skipulagðri en skynsamlegri nýtingu á opnum svæðum til útivistar og náttúruskoðunar. Markmiðið er að viðhalda fjölbreytileika og aðdráttarafli svæðisins, til ánægju fyrir bæði Álftnesinga og gesti, til langs tíma. Til að áformin geti orðið að veruleika þarf að semja við landeigendur, bæði einkaaðila og ríkið. Sömuleiðis er nauðsynlegt  að fjárfesta í uppbyggingu fyrir væntanlega nærþjónustu og vanda svo vel til verksins að athygli veki. Umhverfið má ekki missta sína töfra. Framangreind áætlunin er metnaðarfull og allt það sem var verið að gera ber þess merki, eins og sést á gildandi deiliskipulagi miðbæjar á Álftanesi, með hæfilega stórum þjónustukjarna fyrir byggðina og fyrir þá uppbyggingu í atvinnustarfsemi á Álftanesi sem að var stefnt. Deiliskipulagið heitir Grænn miðbær, vegna þess að það var framúrstefnulegt og með áherslur á opin sameiginleg græn svæði milli bygginganna, í stað afgirtra einkalóða, og stór hluti bílastæða á að vera niðurgrafinn svo umferð gangandi og hjólandi fái notið sín. Bygging glæsilegrar sundlaugar var í samræmi við þessa stefnu og drög að samningum um verndun opinna svæða hafa verið mótuð. Með bankahruninu var forsendum áætlananna kollvarpað í miðjum framkvæmdum og það setti sveitarsjóð í afar erfiða stöðu. Reyndar á það líka við víðast hvar þar sem veðjað var á framtíðina skömmu fyrir hrunið, forsendubrest sem fáir sáu fyrir. Byggðin á Álftanesi er ekki sjálfbær rekstrareining frekar en aðrir ‘svefnbæir' og verður það ekki nema að forsendum verði breytt. Framangreind áform, sem Á-listinn vann að, er ein möguleg leið þótt augljóslega þurfi nú lengri tíma til að ná settum markmiðum. Því er eðlilegt og rétt að spyrja hvort bæjarstjórn Garðabæjar eða borgarstjórn Reykjavíkur geti og vilji samþykkja ásættanlega framtíðarsýn fyrir Álftanes og Álftnesinga, ef til sameiningar kæmi.

4. Ríkisvaldið, höfuðborgarsvæðið og framtíðarval

Líklega er það rétt hjá bæjarstjóra Garðabæjar að ríkið þurfi að ‘greiða' fyrir sameiningu Álftaness - ef sameina á það við eitthvert annað sveitarfélag. Hins vegar þarf að færa haldgóð rök fyrir því hvers vegna og hvernig ríkissjóður ætti að tilhlutast um lausn rekstrarvanda sveitarfélagsins. Það er heldur ekki sjálfgefið að besti sameiningarkosturinn sé Garðabær.

Fulltrúar Á-lista hafa komið með tillögur um hvernig ríkið gæti aðstoðað við lausn vandans sem Sveitarfélagið Álftanes stríðir við. Með því að halda áfram á þeirri braut sem varmörkuð, í stað þess að standa á bremsunni, má meira að segja, með tíð og tíma, vinda ofan af þörf fyrir hærri greiðslur úr Jöfnunarsjóði, jöfnunargreiðslum sem sýnt var fram á að sveitarfélagið þarf  til að sinna sínum lögboðnu skyldum (og skarðan hlut sem þyrfti að lagfæra aftur í tímann, eins og sveitarfélagið á hugsanlega lögvarðan rétt til). Áform Á-listans eru metnaðarfull og hafa vakið umtalsverðan áhuga meðal fjárfesta, eins og sást á því að þrátt fyrir hrunið var samið við einkaaðila um aðkomu að fyrsta áfanga samkvæmt deiliskipulagi Græns miðbæjar og framkvæmdir hafnar með trú á bjartari framtíð. Nýr meirihluti í bæjarstjórn vill nú bakka út frá gerðum samningum,  láta moka yfir botnplötu sem var steypt undir umsamið þjónustuhús fyrir aldraða og hætta við uppbyggingu þjónustukjarnans í Grænum miðbæ. Fjárhagslega er viðsnúningurinn glórulaus í ljósi þess hann kallar yfir sveitarsjóð útgjöld vegna útlagðs kostnaðar og skaðabótakrafa, sem samtals eru álíka há upphæð og um hafði verið samið sem skuldbindingar sveitarsjóðs til greiðslu næstu þrjátíu árin, vegna leigu fyrir hluta af mannvirkjunum. Þar með er verið að hafna fyrirsjáanlegum tekjum, sem hefðu komið sveitarsjóði vel. Samfélagslega er verið að svíkja aldraða um lausn á þjónustuúrræðum heima í byggðinni um ófyrirsjáanlegan tíma og Álftnesinga alla um sjálfsagða þjónustu á borð við matvöruverslun o.fl. í sama dúr.

Eins og ofangreint væri ekki nóg, þá eru tækifæri sem felast í áðurnefndri þríhliða viljayfirlýsingu umhverfisráðherra, menntamálaráðherra og bæjarstjórnar, um rekstur þjónustu- og upplýsingaseturs á Álftanesi, gersamlega hunsuð. Þó má fullyrða að uppbygging á starfsemi af því tagi sem að var stefnt, á sviði þjónustu við ferðamenn og aðra gesti á nesinu, hafi verið bjartasta von Álftnesinga til að skapa hér viðeigandi atvinnutækifæri. Ef vel er að staðið gæti slík þróun orðið til þess að byggðarlagið geti staðið undir rekstri og þarmeð aflétt þörf á utanaðkomandi aðstoð. Nesið yrði kjörinn vettvangur fyrir höfuðborgarbúa til útivistar og forvitnilegt að heimsækja fyrir aðra ferðamenn. Álftnesingar fengju áfram að njóta þeirra forréttinda að búa á Álftanesi. Hvað sveitarfélagið heitir og hvort byggðin er hverfi í stærri einingu, skiptir ekki höfuðmáli. Það er á hinn bóginn alveg víst að þær ómögulegu forsendur til að reka sveitarsjóð án skuldasöfnunar eða utanað komandi aðstoðar, forsendur sem var verið að vinda ofan af fyrir hrun, munu ekki breytast til batnaðar með aðgerðum núverandi meirihluta og skorti á framtíðarsýn. Bæjarstjórnin samþykkti að venda kvæði í kross og ákvað að ekki skuli láta reyna á fyrirliggjandi áætlanir, þær einu sem miða að því að skapa rekstrargrundvöll fyrir byggðarlagið á nesinu. Eina yfirlýsta stefnan er að sameinast Garðabæ, og áform þeirra miða að því að íbúarnir fái innan tíðar að velja sér þann kost eða vera áfram í átthagafjötrum og búa við niðurskurð. Metnaðarleysið og skortur á dug til að vinna að úrræðum, öðrum en að fela nágrannasveitafélagi framtíð okkar með ákalli um náð og miskunn er óásættanlegt. Það grátbroslega er að bæjarstjórnin sem stendur fyrir þessu er valin úr röðum Sjálfstæðisfélagsins og Framsóknarflokki. Hvílík öfugmæli að kenna þessa bæjarfulltrúa við sjálfstæði og framsókn. Núverandi staða hlýtur að virka á marga eins og að einhverjum hafi orðið á í messunni og ruglast hafi verið á formerkjum einhvers staðar á leiðinni. Þá er best að skoða dæmið á ný. 

Sömu bæjarfulltrúarnir og afturhaldsöfl ráða því að framvinda áforma og samþykktir um náttúruvernd, sem tvinnað var saman við uppbyggingu þjónustu- og upplýsingaseturs, hefur verið stungið undir stól. Fátt hefði þó passað betur við gildandi aðalskipulag fyrir Álftanes 2004 - 2024, góðri viðleitni í anda Græn fána vottunar og yfirlýsingar um að Álftnesingar stefni að því að verða til fyrirmyndar, innanlands og á alþjóðlegum vettvangi. Samþykki liggur fyrir um að stíga umrætt skref. Þar með átti að tryggja betri framtíð á Álftanesi og um leið taka skref að markmiði í samþykktri þingsályktunartillögu umhverfisráðherra um búsvæðavernd við Skerjafjörð. Því miður náðist ekki að fullnusta þessa samþykkt bæjarstjórnar, en ekkert var að vanbúnaði fyrir ári síðan. Því var einmitt lýst fyrir hópi norrænna gesta, sem þá voru á Íslandi til að kynna sér sérverkefni um verndun líffræðilegs fjölbreytileika, annars vegar við Eyjafjörð og hins vegar á Álftanesi. Aðeins átti eftir að óska formlega eftir að umhverfisráðherra auglýsti ákvörðun bæjarstjórnar. Áherslurnar breyttust yfir nótt, illu heilli, en samþykkt ákvæðis um búsvæðaverndun hefði líklega leitt til þess að nefnd upplýsinga-og þjónustustarfsemi hefði hafist og um leið hefði grundvöllur skapast til að þróa áhugavert samstarf við skóla á höfuðborgarsvæðinu með tilboðum um vettvangskennslu, bæði í náttúrufræðum og sögu. Nú eru áformin sögð í biðstöðu og því borið við að skipulagsfulltrúa hafi verið falið að leita upplýsinga um eignarhald á Hrakhólmunum. Sömu spurningu var svarað fyrir ári og lögð fram lanamerkjalýsing viðeigandi býla. Þegar annað þrýtur er fyrirspurnir svo slegnar út af borðinu með tilvísun í meintar takmarkanir sem fjárhaldsstjórnin setur á bæjarstjórnina.

Takmarkanir fjárhaldsstjórnarinnar hafa þó ekki hindrað það að bæjarstjórnin hefur samþykkt að aflögð tillaga frá fyrri tíð skuli dregin fram og hafin endurskoðun á umdeildri hugmynd um golfvöll á votlendisfláka milli friðlands við Kasthúsatjörn og Bessastaðatjörn. Að áformin stangist á við gildandi deiliskipulag svæðisins frá 1998, sem gerir ráð fyrir endurheimt votlendis þar, og síðari ákvarðanir bæjarstjórnar er í þessu tilfelli ekki álitið hindrun. Það mætti ætla að núverandi bæjarstjórn álíti að tromp byggðarlagsins felist í umræddum golfvelli og fjárhaldsstjórnin hefur þá væntanlega hrósað bæjarstjórninni fyrir stórhug þegar þessi ákvörðun var kynnt. Ef svo er ekki, þá á við lýsingin ‘vanhæf stjórn' og að framangreint staðfestir grun um að áform um ‘lausn' með sameiningu við Garðabæ hafi aðeins verið neyðarúrræði fulltrúa Sjálfstæðisfélagsins til að afstýra því að vel ígrunduð framtíðarsýn Á-listans gengi eftir og festist í sessi.

Kristinn Guðmundsson var fulltrúi Á-lista í skipulags- og bygginganefnd


Það er dýrt að búa á Álftanesi

Elsa Tumi  Elsa Bára og Tumi, í Mbl 

Nú er að verða komið hálft ár frá kosningum og enn er allt í lamasessi hér á Álftanesi þrátt fyrir stórkarlalegar yfirlýsingar núverandi meirihluta þ.e. Sjálfstæðismanna og pólitískra viðhengja þeirra í Fiðrildaframboðinu og Framsóknarflokknum eftir kosningar. Menn voru svo bjartsýnir um framgang mála að það var ekki einu sinni gerð fjárhagsáætlun fyrir árið 2011.   Nú í byrjun október er ekki að sjá að neitt bóli á sameiningu við önnur sveitarfélög og reyndar virðast engar viðræður fara fram utan einhverra óljósra þreifinga við Garðabæ. Engin samningsmarkmið hafa verið kynnt. Engar tilkynningar um gang mála hafa sést á heimasíðu sveitarfélagsins. Af hverju eru menn að laumupokast svona? Á síðasta bæjarstjórnarfundi sem haldinn var 29. 09  eftir gott sumarfrí voru sameiningarmál ekki einu sinni á dagsskrá. Hvað á það að þýða? á fundum með starfsfólki sitja  bæjarfulltrúar eins og verstu lúpur og setja upp mildan og mæðulegan og segjast skilja en hafa engin svör.


Sitja kjörnir fulltrúar með hendur í skauti og bíða eftir að hlutirnir gerist af sjálfu sér eða er oddviti Sjálfstæðismanna einfaldlega of upptekinn við að sækja um bæjarstjórastörf í öðrum sveitarfélögum til að geta fylgt málum eftir? Af hverju hefur ekkert verið rætt við borgaryfirvöld í Reykjavík sem þó lýstu yfir sérstökum vilja til að kanna sameiningarmál við Álftanes í vor?  Margir skemmtilegir möguleikar myndu augljóslega opnast við slíka sameiningu bæði gagnvart Reykvíkingum og Álftnesingum.  Sú stóraukna skattheimta sem Sjálfstæðismenn standa fyrir hérna á Álftanesinu umfram það sem aðrir landsmenn mega þola er farin að bíta allhressilega, margir sem geta farið, fara. Aðrir þreyja þorrann bundnir í átthagafjötra. Verst stendur barnafólkið:

Skólamáltið í Álftanesskóla kostar nú kr. 468. í Hafnarfirði kostar máltíðin kr.  272 og í Reykjanesbæ kr. 242 og í Reykjavík kostar maturinn víðast kr. 250 svo dæmi séu tekin.
Engin niðurgreiðsla er í tónlistarnám eða aðrar tómstundir barna og unglinga. Tónlistarnám fyrir grunnskólanema í tónlistarskóla Álftaness kostar 84.000 yfir veturinn fyrir tvær 25 mín. kennslustundir  á viku (sem hafa verið styttar úr 30 mínútum frá síðasta skólaári).
Engin frístundakort eru eins og þekkist í nágrannasveitarfélögunum og forráðamenn barna sem stunda íþróttir eða tómstundir utan Álftaness þurfa að greiða það að fullu án styrks eða niðurgreiðslu frá sveitarfélaginu og sem dæmi má nefna að fimleikaástundun 7 ára nemanda í íþróttafélagi í Hafnarfirði kostar um 90.000 kr. yfir skólaárið.

Aðgerðarleysi, skortur á framtíðarsýn og doði er það sem íbúar Álftaness þurfa síst á að halda um þessar mundir og því skorum við á bæjaryfirvöld að reka af sér slyðruorðið og láta verkin tala.

Höfundar eru Elsa Bára Traustadóttir sálfræðingur og Tumi Kolbeinsson kennari    


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband