Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010

En hvað með að auka aðra tekjustofna

Bergur Sigfússon skrifar.

 

Í þessu samhengi má benda á að undanfarin misseri var unnið markvisst að því að auka tekjustofna sveitarfélagsins með undirbúningi Græns miðbæjar. Tekjur sem skapast vegna atvinnustarfsemi geta raunar verið álíka og þær sem koma inn í kassann í formi fasteignagjalda útsvars frá íbúunum. Því skil ég ekki hvers vegna sveitarfélagið rær ekki að því öllum árum að stuðla að vinnu við fyrsta áfanga miðbæjarins og koma þannig af stað viðbótar tekjuöflun.

 

Bergur Sigfússon, 12. sæti Á-listans

 


mbl.is Álag á íbúa Álftaness fram yfir árið 2015
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að vera læs - á staðreyndir

Kristinn  Kristinn Guðmundsson skrifar.

Í Morgunblaðsgrein 22. maí kynnir Jón Gunnar Gunnlaugsson ósk sína um að Álftaneshreyfingin dragi framboð sitt til baka. Hann segir að Álftaneshreyfingin hefði betur gert að setja annan fremstan á framboðslista sinn en oddvita hreyfingarinnar og fyrrverandi bæjarstjóra á Álftanesi. Allt annað sem hann skrifaði er ómálefnalegt og samanstendur af samhengislausum tilvísunum, sem líklega eiga að gefa málflutningi hans trúverðugan blæ. Stíllinn er sviplíkur öðrum árásum á Á-listann úr sömu átt, lágkúra sem dæmir sig sjálf. Í sjálfu sér er ekki vert að rekja skrif Jóns, en það má nota tilefnið til að draga fram forvitnilegar staðreyndir sem segja aðra sögu en þá sem Jón vill koma á framfæri.

 

Fyrst má vísa á forsíðu Morgunblaðsins þennan sama dag því þar var fjallað um skrif starfsmanns Ríkisskattstjóra, Páls Kolbeinssonar, um samanteknar skuldir fyrirtækja í landinu og versnandi eiginfjárstöðu frá árinu 2005. Breytingin á eiginfjárstöðu einkarekinna fyrirtækja á landsvísu er sláandi lík þeirri sem sýnd hefur verið fyrir sveitarsjóð Álftaness og höfð til marks um óráðsíu Á-lista á yfirstandandi kjörtímabili. Það vefst þó ekki fyrir viðskiptafræðingnum að reyna að gera fulltrúa Á-listans tortryggilega og hafna skýringum þeirra á afleiðinum bankahrunsins á sveitarsjóð. 

 

Ekki ætla ég að gagnrýna hér einkarekin fyrirtæki landsins þau eru eins misjöfn og þau eru mörg. Þess í stað ætla ég að gagnrýna sjónarmið Jóns um að sveitarstjórnendur sem stóðu sig ekki betur en forstjórar fyrirtækja eigi að skammast sín og draga sig í hlé. Fulltrúar Á-listans störfuðu samkvæmt þeim stefnumálum sem þeir voru kosnir til af kjósendum til að vinna. Unnið var samkvæmt lögum og farið að ráðum virtra fagaðila þegar stórar ákvarðanir voru teknar. Öll gögn staðfesta þetta, engin óráðsía var viðhöfð af hálfu meirihlutans. Þvert á móti var gætt aðhalds í fjármálum og unnið af stakri fagmennsku með yfirlýst stefnumál Álftaneshreyfingarinnar fyrir kosningarnar 2006 að leiðarljósi. Ef þau verkefni voru óráðsía þá var það vilji kjósenda og reyndar þó síst meiri en ef farið hefði verið eftir því sem lofað var af hálfu D-lista. Stefnumál beggja framboðanna árið 2006 má lesa á viðkomandi vefsíðum. Á alftaneshreyfingin.blog.is má líka lesa ítarlegar skýringar á þeim óheillavænlegu breytingum sem hafa orðið á efnahagi sveitarfélagsins á undanförnum árum. Búið sem Á-listinn tók við í byrjun sumars 2006, eftir langt stjórnarskeið Sjálfstæðisfélagsins á Álftanesi var orðið niðurnítt og engin áform sett fram af þeirra hálfu til að leysa vandann.

 

Fullyrðing Jóns um að sjálfstætt sveitarfélag á Álftanesi sé eitthvað sambærilegt við þúsund ára ríki stenst heldur ekki sögulega skoðun og hann ætti að vita betur eða lesa bókina Álftanessögu. Á unga aldri læra flestir Íslendingar að lengst af var þjóðfélagið og ekki síst samfélagið á Álftanesi undir hæl danskra embættismanna á Bessastöðum og aðrir íbúar fengu þá litlu að ráða um sína framtíð. Ég efast ekki um að hallæri hafi dunið yfir þá ekki síður en nú en það er annað mál. Síðar, þegar árabátaútgerðin lagðist af fyrir rúmri öld síðan þá sóru stóreignabændur og landeigendur af sér þá sem fluttu á mölina við Hafnarfjörð. Fólk sem flosnaði upp í kjölfar breytinga í útgerð á Íslandi flutti á mölina og vann við fiskverkun. Vinnan var vertíðabundin og stopul en vistin þó skárri en í kotum á nesinu og svo losnaði verkafólkið undan ofríki jarðeigenda. Þegar engin vinna fékkst var veitt lögbundin félagsleg aðstoð úr sveitarsjóði. Bændur á Álftanesi voru ósáttir við fyrirkomulagið og sveitamörkin í Álftaneshreppi hinum forna voru endurskoðuð og sýna á hvaða bæjum bændur kusu þannig að leysa sig undan fyrrnefndum félagslegum kvöðum.

 

Á sjöunda áratugi liðinnar aldar urðu enn á ný umbreytingar í atvinnulífi á Álftanesi. Búskapur dróst saman er fjósarekstur lagðist af á Bessastöðum. Að þessu sinni hófu landeigendur að selja skika úr jörðum sínum sem lóðir undir íbúðarhús. Fyrst voru þetta stakar dreifðar lóðir en seinna tóku verktakar og athafnamenn til við að byggja heilu göturnar en sveitafélagið sá um frágang og uppbyggingu þjónustu eftir þörfum. Illu heilli komst aldrei á það fyrirkomulag sem tíðkast víða annars staðar að sveitarsjóður kaupi fyrst landið og skipuleggi síðan landnotkun þar. Er landlausum íbúum fjölgaði fór að bera á togstreitu, bæði milli landeigenda og nýaðfluttra og sömuleiðis milli þeirra sem áttu land sem hentaði best sem byggingarland og þeirra sem áttu land sem átti aðeins að nota til útsýnis - eins og sagt er. Þeir sem seldu spildurnar vildu helst fá allan ágóðann af sölunni og því mikilvægt að geta haldið í taumana og ráða því hvernig sveitin þróaðist. Landeigendur hafa í gegnum tíðina sótt fast að hafa ítök í sveitarstjórn - þannig mátti tryggja að skipulagið yrði mótað samkvæmt þeirra þörfum og skipulagið á nesinu ber þess ýmis merki.

 

Það kallast að slá um sig þegar máltæki eru misnotuð til að undirstrika hæpnar fullyrðingar og á  við um Jón er hann heldur því fram að Á-listinn leggist lágt og vilji kenna bankahruni og börnum um sínar ófarir. Hann líkir þessu við að „árinni kennir illur ræðari". Eins og komið hefur fram tekur Jón undir með þeim sem segja slæma stöðu sveitarsjóðs á Álftansi vera afleiðingu lélegs rekstrar á árunum 2006 - 2008. Þar lítur viðskiptafræðingurinn framhjá staðreyndum. Maður skyldi ætla að Jón kunni að lesa rétt úr árlegu uppgjöri sveitarsjóðs. En tölur á blaði segja ekki alla söguna og því hafa fulltrúar Á-listans kynnt viðhlítandi skýringar sem eru byggðar á staðreyndum. Á Álftanesi er óvenju hátt hlutfall barna á grunnskólaaldri af heildar íbúafjölda og það hefur auðvitað afgerandi áhrif á rekstur sveitarsjóðs ekkert síður en bankahrunið sem kom hart niður á sveitarsjóði Álftaness því sveitarfélagið hafði frá því að rekstur grunnskóla var yfirfærður á sveitarfélögin árið 1996 selt nánast allar seljanlegar eignir og þess utan tekið stór lán til að kosta uppbyggingu á aðstöðu til þjónustu við íbúana.

 

Rétt er að ítreka það að Álftaneshreyfingin kynnti stefnuskrá sína og vann markvisst að þeim áformum sem boðuð voru fyrir kosningarnar 2006 og þar á meðal átti að undirbúa jarðveg fyrir atvinnurekstur í sveitarfélaginu. Margt gott ávannst og sömu markmiðin eru enn eina raunhæfa framtíðarstefnan sem lögð hefur verið fram um að gera samfélagið á nesinu að fjárhagslega sjálfbærri rekstrareiningu. Því miður náðist ekki að fullnusta áformin, m.a. vegna ómálefnalegrar andstöðu fulltrúa D-listans í bæjarstjórn. Vel má vera að sameining við eitthvað nágrannasveitafélagið eða sameining allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sé eina raunhæfa leiðin. Það breytir þó engu um fyrrnefnda fullyrðingu um rekstrareininguna á Álftanesi.

Á það hefur verið bent áður að Álftaneshreyfingin vill að ríkið uppfylli lagalega skyldu sína til jöfnunar á aðstöðumun til fræðslumála, en með sameiningu yrði það misvægi sótt í sjóð þeirra sem samþykkja sameiningu í stað Jöfnunarsjóðs sem á að gegna umræddu hlutverki á landsvísu.

Eftir sem áður er full þörf á að vinna markvisst að fjárhagslegri framtíð byggðarlagsins  og þá vonandi í sátt við sérstöðu Álftaness í sögulegu samhengi og út frá sjónarmiðum umhverfisverndar.

Niðurstaða mín er sú að stefna Álftaneshreyfingarinnar eins og Á-listinn kynnti hana fyrir kosningarnar 2006 var bæði þörf og góð á þeim tíma. Auðvitað þarf að endurskoða áformin nú í ljósi breyttrar stöðu, bæði á Íslandi og á Álftanesi en markmiðin eiga við áfram þó leiðin verði lengri. Þetta viðhorf endurspeglast í stefnumörkun Álftaneshreyfingarinnar fyrir kosningarnar í ár. Þeir sem enn sitja í forystu á Á-listanum brugðust hvergi í vinnu sinni að því sem að var stefnt og eiga því hrós skilið fyrir sín störf. Það er ekki stórmannlegt að álasa duglegum einstaklingum fyrir það sem þeir höfðu engin tök á að ráða við svo sem ófyrirsjáanlegan forsendubrest. Því var rökrétt ákvörðun að tefla fram sömu forystu í nýju framboði Álftaneshreyfingarinnar. Það eina sem erfitt er að svara fyrir varðandi yfirstandandi kjörtímabil af hálfu Álftaneshreyfingarinnar er að tveir einstaklingar sem voru kjörnir til forystuhlutverka fyrir Á-listann 2006  brugðust trausti og létu annað ráða sínum gerðum en stefnumál hreyfingarinnar. Hvorugur er á nýjum framboðslista Álftaneshreyfingarinnar.

 

PS. Það má vel vera að Sjálfstæðisfélagið hafi af klókindum valið að stilla fram sínum oddvita í sérframboði og gefa þannig kjósendum kost á að velja milli gömlu hörðu línunnar og nýrrar ásýndar. Þannig gefst kjósendum tækifæri til að refsa fyrir ljótan leik á yfirstandandi kjörtímabili, eða hylla leiðtogann til margra ára. Aðrar eins flækjur hafa verið dregnar fram í dagsljósið eftir bankahrunið. Engu að síður virðist Jón banginn við kraftinn í Álftaneshreyfingunni og lítur það illu auga. Að afstöðnum kosningum má svo alltaf sameina hjörðina á ný. Það vefst varla fyrir þeim því lítill sem enginn munur er á metnaðarlausum markmiðum framboðanna og aðal atriðið að samfélagið á Álftanesi verði sameinað  við eitthvað nágrannasveitarfélagið - bara ef einhver vill taka við okinu. - Engar kröfur hafa verið kynntar, t.d. um framtíð í samræmi við nýlega samþykkt aðalskipulag. Í þessa veru sker Á-listinn sig úr og það dylst engum sem vill vita að núverandi forysta hefur lagt sig fram og krafist þess að Álftnesingar fái sanngjarna meðferð hjá ríkisvaldinu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Það merkir á mannamáli að Ríkið geri upp fyrir vanmat á greiðslum til leiðréttingar á aðstöðumun til fræðslumála í sveitafélaginu og að sanngjarnar tillögur til endurskipulags á fjárhagi sveitarfélagsins verði gerðar fyrir Álftnesinga, en ekki til að greiða með Álftnesingum í tengslum við illa ígrundaða innlimun íbúa á Álftanesi í samfélag betur stæðra nágranna - og þá án undangenginna samninga um framtíðaráform og þróun í byggðarlaginu.

 

Jón, ég er stoltur af að hafa tekið þátt í starfinu með fulltrúum Á-listans og kvíði því í engu dómi kjósenda. Ég treysti á að kjósendur séu upp til hópa læsir á staðreyndir og við sjáum svo bara til hverjir verða valdir til forystu - „Jón, eða séra Jón".

 

Kristinn Guðmundsson er fulltrúi Álftaneshreyfingar í skipulagsnefnd

og skipar 6. sæti á Á-lista fyrir komandi sveitastjórnakosningar


Á-listinn vill lausnir fyrir Álftnesinga

Anna Ólafsdóttir Björnsson skrifar.

 

Erfið staða Álftaness hefur vart farið framhjá neinum. Álögur og erfiðleikar sækja náttúruparadísina okkar heim. Flestir hljóta að viðurkenna að orsakirnar eru margslungnar en afleiðingarnar þekkjum við flest, við virðumst vera að glata sjálfstæði okkar og erum skattpínd. Við þessar aðstæður þarf að leita allra hugsanlegra lausna til að næstu skref verði farsæl. Ég tel að Á-listi Álftaneshreyfingarinnar bendi á þessar lausnir og hvet alla sem annt er um hag Álftaness að skoða vel bæklinginn sem öllum Álftnesingum á að hafa borist svo og vefinn www.alftanes.net og bloggið www.alftaneshreyfingin.blog.is 

Meðal úrræða sem Á-listinn berst fyrir er að fá Jöfnunarsjóð til að leggja meira til sveitarfélagsins vegna þess fjölda barna og unglinga sem er í sveitarfélaginu og skiljanlega ekki skattgreiðendur. Álftanes er einstakt svæði fyrir börn og því leita barnafjölskyldur hingað á nesið og þetta er úrlausnarefni sem Jöfnunarsjóður getur lagfært. Þetta hefur þegar verið viðurkennt að nokkru leyti fyrir tilstilli Á-listans og þessu þarf að fylgja eftir með fullum þunga. Ennfremur að breyta lánum og eignarhaldi í Fasteign til að létta skuldabyrði Álftnesinga. Þetta er gerlegt og sé vilji fyrir því að lagfæra stöðu sveitarfélagsins til að greiða fyrir sameiningu við önnur sveitarfélög þá ætti sá vilji að vera líka til staðar óskilyrtur.  

Við þessar erfiðu aðstæður hefur meiri hluti Álftnesinga látið í ljós vilja til sameiningar við önnur sveitarfélög, helst þá Garðabæ eða Reykjavík. Þótt ég sé ekki ein þeirra sem vill sameiningu þá mun ég taka þátt í því af fullum heilindum að vinna með öðrum í sveitarfélaginu að því að sérstaða Álftaness og gott mannlíf fái að dafna í hverju því samstarfi eða sameiningu sem verður ofan á. 

En fyrst þurfum við Álftnesingar að vinna saman, öll sem eitt, með hag Álftnesinga fyrir brjósti. Ég vona einlæglega að Á-listinn njóti þess við kosningarnar á laugardag að hafa bent á ótal úrræði og lausnir í erfiðri stöðu og fái það brautargengi sem hann á skilið.  

Anna Ólafsdóttir Björnsson tölvunarfræðingur

 


Er þetta ekki orðið ágætt?

Bergur Sigfússon skrifar.

Fulltrúar meirihlutans hafa verið ötulir við að sýna Álftnesingum rækilega fram á að Álftaneshreyfingin hafi skilið bæjarsjóð eftir algjörlega í rúst og í kjölfarið sé ekki hægt að gera nokkurn skapaðan hlut. Ég veit ekki hvort þessi tækni muni skila einhverju í kassann hjá Sjálfstæðismönnum á kjördag. Einu tvær lausnirnar í fjárhagsmálum sem meirihlutinn hefur upp á að bjóða til að leysa úr hnútnum eru auknar álögur annars vegar og minnkuð þjónusta hins vegar, svo bæta þeir reyndar við að björt verði tíð og blóm í haga ef þeir verði kosnir til valda og til að sinna sameiningarmálum.

Það sem ég skil hins vegar ekki er, hvers vegna hverri einustu tillögu Álftaneshreyfingarinnar til tekjuöflunar er hafnað, allt frá áframhaldandi kleinuhringjasölu í sundlauginni til viðræðna við ríkissjóð um sölu á landi. Hver sem hugmyndin er, NEI, NEI og aftur NEI. Vonandi er þetta ekki ávísun á það samstarf sem þarf að vera á milli bæjarfulltrúa á næstu mánuðum og misserum.

Bergur Sigfússon, 12. sæti Álftaneshreyfingarinnar.


mbl.is Álftanes greiðir ekki fyrir sumarnámskeið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótti og innantómt hjal Sjálfstæðismanna á Álftanesi

TryggviNú nýverið sendu Sjálfstæðismenn á Álftanesi bækling um stefnumál sín inn á hvert heimili. Þar er vitaskuld í meginatriðum um innistæðulaust hjal að ræða sem finna má hjá flestum framboðum á landsvísu: Þeir eru á móti einelti í skólanum, vilja auka forvarnarstarf, stuðla að atvinnurekstri í sveitarfélaginu, fjölga sorpílátum, bjóða upp á hollan mat í skólanum, byggja upp nýjan golfvöll, leysa skuldavanda sveitarfélagsins með samningum, sameinast öðru sveitarfélagi í sátt við íbúana og fleira. Þetta eru allt saman hin ágætustu mál sem ekki er þó sérstaklega útskýrt hvernig á að framkvæma. Ein greinin vakti þó athygli mína og var það pistillinn um fræðslu- og uppeldismál. Þótt margar hugmyndir þar séu ágætar, og má m.a. lesa útfærslu sumra þeirra í nýrri skólastefnu sem Álftaneshreyfingin lét vinna á síðasta kjörtímabili, var eitt atriði sem vonandi var sett fram af þekkingarleysi á málaflokknum. Það var hugmyndin um að fella Tónlistarskóla Álftaness inn í grunnskólann. Að ætla sér að fella tónlistarskóla, hvers starfsemi er ekki lögbundin, inn í stofnun sem sinnir lögboðinni kennslu, sérstaklega á tímum aðhalds og niðurskurðar, er vanhugsuð hugmynd í meira lagi og mun að öllum líkindum ganga af Tónlistarskólanum dauðum, ef núverandi niðurskurður verður ekki búinn að taka af Sjálfstæðismönnum ómakið. Tónlistarskóli Álftaness verður að halda sjálfstæði sínu ef hann á að lifa. Þó að þessi umrædda grein hafi vakið athygli mína var það fremur skortur á öðrum sem varð kveikjan að þessari grein. Um árabil hefur Álftaneshreyfingin vakið athygli á að hið barnmarga samfélag okkar, samhliða fátæklegum tekjustofnum, hafi ekki notið sanngjarnrar úthlutunar frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Álftaneshreyfingin lét vinna vandaða skýrslu sem rökstuddi mál hennar og fylgdi kröfu um að úthlutunin yrði hækkuð. Halda mætti að öll bæjarstjórnin myndi standa saman þegar að kæmi að því að útvega fé í fjárvana sveitarfélag, en því var ekki að skipta. Sjálfstæðismenn gerðu lítið úr þessari kröfu, afgreiddu hana með háði og spotti og fengu utanaðkomandi aðila til að draga úr áreiðanleika umræddrar skýrslu. Nú hefur rannsókn Ríkisendurskoðunar leitt það í ljós að krafa Álftaneshreyfingarinnar á hendur Jöfnunarsjóði sveitarfélaga var og er réttmæt og eftir stendur aðeins að Sjálfstæðismenn stóðu gegn því að sveitarfélagið Álftanes gæti aflað meiri tekna á erfiðum tímum, tekna sem hefðu jafnvel getað skipt milljónatugum árlega. Í raun skiptir upphæðin engu máli. Sjálfstæðismenn lögðust einfaldlega gegn því að sveitarfélagið aflaði meiri tekna. Ekki er minnst einu orði á Jöfnunarsjóð sveitarfélaga í nýjum bæklingi, sennilega til þess að tvískinnungshátturinn i þessu máli komist ekki í hámæli. Annað atriði sem er listilega sneitt hjá í umræddum bæklingi er sú staðreynd að Álftaneshreyfingin stefndi að byggingu menningar- og náttúrufræðiseturs og eru tvö ráðuneyti þegar búin að undirrita viljayfirlýsingu um að koma að rekstri þessa húss. Álftaneshreyfingin hefur hvatt til þess að ríkið kaupi lóð undir umrætt menningar- og náttúrufræðisetur, þótt bygging þess tefðist um einhver ár og færi á þann hátt tekjur í tóman kassann. Sjálfstæðismenn tala í bæklingi sínum um að þeir möguleikar sem sveitarfélagið hafi upp á að bjóða í menningu og afþreyingu verði nýttir til atvinnusköpunar, en forðast að minnast á að tækifærið er nú þegar fyrir hendi og stendur rétt við bæjardyrnar. Ég get ekki orða bundist yfir hræðslu Sjálfstæðismanna á Álftanesi við Sigurð Magnússon, oddvita Á-listans. Í lok kosningabaráttu sinnar, þar sem flaggað er því slagorði að ekki skuli nú láta fortíðina flækjast fyrir, heldur horfa til framtíðar, grafa menn upp tæplega ársgamalt mál og kæra Sigurð Magnússon fyrir brot á stjórnsýslulögum. Eftir allan þennan tíma telja menn þessa tímasetningu rétta og virðist kæran frekar vera sett fram í einhverju fýlukasti yfir því að Ríkisendurskoðun hefur ekki skilað af sér skýrslunni, heldur en af einhverjum haldbærum ástæðum. Víst er það slæmt að skýrsla Ríkisendurskoðunar hefur ekki borist, en taka verður með í reikninginn að tafirnar má að hluta rekja til bæjarskrifstofanna á Bjarnastöðum, því að í ljós kom að mörg þeirra gagna sem bæjarfulltrúar Álftaneshreyfingarinnar vísuðu til í rökstuðningi sínum höfðu einhverra hluta vegna ekki borist til embættis Ríkisendurskoðunar, örugglega vegna mistaka. Sökin á biðinni liggur því ekki einvörðungu hjá Ríkisendurskoðun, heldur einnig hjá hinum háu herrum á Bjarnastöðum.Tryggvi M. Baldvinsson 4. sæti Á-listans

Á-listi talar fyrir viðreisn í stað kyrrstöðu

SigurðurSorglegt hvernig D-listinn og L-listinn starfa á lokasprettinumÁ-listinn er íbúaframboð og er fólk úr öllum flokkum og óflokksbundið á listanum og í baklandi framboðsins. Framboðið er fyrst og fremst, eins og áður, mótvægi við D-listann sem lengst af hefur ráðið málum á Álftanesi. Vonandi draga framboð S og B-lista ekki verulega úr árangri Á-listans, enda eru t.d. margir kjósendur Samfylkingar í landsmálum stuðningsmenn Á-lista á Álftanesi. Formaður og varaformaður Samfylkingarfélagsins á Álftanesi skipa þannig m.a. sæti á listanum. Mest er um vert, þrátt fyrir að margir listar séu í boði, að Á-listinn fái gott brautargengi í kosningunum. Á-listinn hefur kynnt málefnalegar tillögur,bæði varðandi kröfur á Ríkisvaldið um leiðréttingu á greiðslum frá Jöfnunarsjóði og tillögu um að ríkið kaupi hlutafé sveitarfélagsins í Fasteign og verði andvirðið notað til að kaupa íþróttamiðstöðina. Á-listinn vill halda áfram framkvæmdum á miðsvæðinu, sem gefa bæjarsjóði nýjar tekjur, meðan D-listinn stöðvar þær. Á-listinn hefur líka sett fram samningsmarkmið í áformuðum viðræðum um sameiningu og valið Reykjavík sem viðræðuaðila. Í öllum þessum stóru málum er stefna D-listans misvísandi og óljós.Þrátt fyrir þá ágjöf sem Á-listinn fékk á síðasta ári kemur hann nú fram með glæsilegt framboð og kynnir fjölda nýrra stuðningsmanna í 40 manna baklandi listans, eða þá sem gefa kost á sér til starfa í nefndum. Við frambjóðendur Á-lista finnum fyrir stuðningi fyrir áframhaldandi hægri uppbyggingu, atvinnu og viðreisn, í stað kyrrstöðu og svartsýni D-listans. Íbúarnir gera sér líka betur grein fyrir ábyrgð Sjálfstæðisflokksins á efnahagshruninu eftir útkomu Rannsóknarskýrslu Alþingis og um leið hvernig hrunið fór illa með bæjarsjóð Álftaness. En nú á síðustu dögum kosningabaráttunnar er engu líkara en forysta D-listans og oddviti L-lista séu farnir að örvænta. Nú síðast með því kæra til sveitastjórnaráðuneytis, lántökur vegna framkvæmda á síðasta ári. Kæran er tilefnislaus, enda allar lántökur bæjarsjóðs sumarið 2009 í samræmi við fjárhagsáætlun og samþykktir bæjarstjórnar.Það er sorglegt þegar stjórnmálaumræða breytist í róg og persónuníð. Íbúar Álftaness geta vandað um fyrir þeim sem þannig starfa með öflugum stuðningi við Á-listan á laugardaginn.Sigurður Magnússon, bæjarfulltrúi Á-lista og fyrrum bæjarstjóri

Sérfræðiskýrslur

Hér á eftir fer listi yfir nokkur sérfræðiálit og skýrslur sem Álftaneshreyfingin lagði til grundvallar þeim ákvörðunum sem voru teknar um uppbyggingu miðbæjarins og sveitarfélagsins alls:

1. Samanburður á kaupum og leigu íþróttaaðstöðu

2. Mat á skuldaþoli Sveitarfélagsins Álftaness

3. Mat á skuldaþoli Sveitarfélagsins Álftaness vegna þjónustumiðstöðvar

Von er á fleiri greinargerðum.

Stefna Álftaneshreyfingarinnar var og er að standa vörð um nærþjónustu og umhverfið sem við búum í. Þegar Á-listinn tók við meirihluta sveitarfélagsins lá fyrir að rekstarforsendur þess voru hæpnar í þáverandi mynd. Nefndar sérfræðiskýrslur lágu til grundvallar þeirri uppbyggingu sem Á-listinn stóð fyrir á núverandi kjörtímabili til að búa okkur betra samfélag.

 Frambjóðendur Á-listanns


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Barbabrellur Sjálfstæðismanna á Álftanesi

TumiTumi skrifar:

Þegar ég flutti á Álftanesið fyrir þremur árum og fór að kynna mér bæjarmálin varð ég mjög undrandi yfir þráhyggjukenndum og níðangurslegum greinaskrifum Sjálfstæðismanna í garð Álftaneshreyfingarinnar.  Þessi skrifvoru bæði ómálefnaleg og vöktu neikvæða athygli á Álftanesi. Skýringar á þessu virðast helst vera persónulegar, að Sjálfstæðismönnum hafi sviðið svo að missa áratugalöng heljartök sín á sveitarfélaginu en Sjálfstæðismenn deildu og drottnuðu á Álftanesi frá því fyrir síðasta Kötlugos og fram að kosningunum 2006. Það voru því Sjálfstæðismenn sem stýrðu uppbyggingunni hér en á kjörtímabilinu 2002-2006 fjölgaði fólki um 70% í sveitarfélaginu.Sjálfstæðismenn lokkuðu fólk til sveitarfélagsins með seiðandi Sírenusöng og fagurgala án þess að huga að skipulagi eða tekjuaukningu bæjarsjóðs sem rekinn er af útsvarstekjum og fasteignagjöldum því engin eru fyrirtækin. Samt tala þeir nú eins og Álftaneshreyfingin hafi tekið við frábæru búi og sett það á hausinn og verið snögg að því. 

Hvernig væri staðan ef Sjálfstæðismenn hefðu unnið síðustu kosningarnar? Við skoðun á kosningaloforðum þeirra þá er ekki að sjá að mikil ráðdeild hafi verið boðuð heldur þvert á móti: Risamannvirki á borð við þjónustumiðstöð og tónleikasa láttu að rísa og hrista átti nýjan golfvöll og smábátahöfn fram úr erminni svo fáein dæmi séu nefnd af því sem Sjálfstæðismenn lofuðu þá hróðugir. Í þeim kosningum  höfnuðu Álftnesingar sérhagsmunagæslu,verktakapólitík og forljótu miðbæjarskipulagi sem líktist mislukkuðu úthverfi í Austur- Evrópu og tók ekkert mið af náttúru eða mannlífi og Sjálfstæðisflokkurinn missti ítök sín.

Álftaneshreyfingin fékk ekki langan tíma til að láta til sín taka fram að hruni. Á þeim tíma var þó stjórnsýslan opnuð og farið í ýmsar aðhaldsaðgerðir. Álftaneshreyfingin tók við myntkörfulánum sem árin áður höfðu skapað gengishagnað en hrundu yfirsveitarfélagið haustið 2008. Ef sundlaugin rómaða væri tekin út fyrir sviga hefur enginn getað bent mér á neina ákvörðun sem Álftaneshreyfingin tók sem leitt hefur til verri skuldastöðu. Sundlaugina er rétt að taka út fyrir sviga því allir flokkar stóðu jafnt að þeirri byggingu, þetta er okkar Perla hér á Álftanesinu. Það má þó ekki gleymast í þeirri umræðu að sú sem var fyrir var míglek og dæmd ónýt. Menn mega heldur ekki gleyma því að sú nýja er ósköp venjuleg sundlaug þótt rennibrautin sé stór, sá hluti vegur minnst af kostnaðinum. Það er heldur ekki eins og skuldbindingin sé í formi kúluláns sem á að greiða upp í vor heldur er hún til 30 ára.

En þetta er fortíðin. Hvað nú? Mér finnst jafn gott að búa á Álftanesi og fyrir hrun, enn er jafn mikið víðsýni og enn heyrist skóhljóð tímans jafnvel og áður á þessum sögufræga stað. Framtíðin liggur ekki síst í hugarfarinu. Hún liggur til skemmri tíma í að jafna hlut sveitarfélagsins úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga en til lengri tíma er e.t.v. nauðsynlegt að sameinast öðru sveitarfélagi og ná þeim samlegðaráhrifum sem því fylgir. Þar er Reykjavík fyrsti kostur Álftaneshreyfingarinnar. Þær grænu áherslur sem þar eiga hljómgrunn höfða til okkar, stjórnsýslan er skýr, þjónustustigið hátt og framtíðarmöguleikarnir við sameiningu ótæmandi. Þá er rétt að halda því til haga að á Álftanesi er meðalaldur íbúa mjög ungur. Það eru því margir framtíðar útsvarsgreiðendur í bænum ef fólk verður ekki fælt  í burtu með álögum og svartagallsrausi.

Barbafjölskyldan getur breytt sér í allra kvikinda líki, eins og allir vita. Það gera Sjálfstæðismenn líka alltaf fyrir kosningar og sveipa sig þá áru með bleikum, rauðum og grænum litatónum. Raunveruleikinn er þó annar og það er þess vegna sem samfélaginu öllu blæðir. Því má ekki gleyma.

Tumi Kolbeinsson, höfundur skipar 10. sæti á lista Álftaneshreyfingarinnar


Sjálfstæðismenn hækka skatta!

 Hrafnkell Tumi skrifar:

Sjálfstæðismenn, sem eru í meirihluta sveitarstjórnar áÁlftanesi, hækkuðu útsvar um 10% og fasteignagjöld um 43% fyrir árið 2010.Þetta gengur þvert á yfirlýsta stefnu flokksins um leiðina út úr þrengingunumen hún er að hækka alls ekki skatta, slíkt leiði til þess að tekjustofnarnirhrynji og kreppan dragist á langinn. Hvernig telja sjálfstæðismenn að annaðgildi á Álftanesi þar sem álögur þeirra bætast ofan á þær sem ríkisstjórnin erað leggja á?

Á sjálfstæðismönnum er það helst að skilja að hroðaleg skuldastaðasveitarfélagsins sé vinstri mönnum að kenna sem höfðu meirihluta frá 2006 til2009. Það eru þó einkum tvö mál sem skýra skuldastöðu sveitarfélagsins. Annaðþeirra er íbúaþróunin, árið 1990 bjuggu skv. Hagstofunni 1082 íbúar áÁlftanesi, árið 2006 voru þeir 2205. Íbúafjöldinn hafði því meira en tvöfaldastá þessum 16 árum. Bærinn átti hins vegar ekki löndin sem byggðin var reist á ogfékk því engar tekjur af lóðasölu. Allan þennan tíma voru sjálfstæðismenn ímeirihluta og það voru sjálfstæðismenn sem stóðu fyrir þessari gríðarlegu ogvanhugsuðu uppbyggingu, sem m.a. lýsir sér í því að engin atvinnustarfsemi er íbænum og því eru allar tekjur af útsvari og fasteignagjöldum. Vegna þessa hefursveitarfélagið þurft að leggja í mikinn kostnað við að byggja upp innviðisamfélagsins, m.a. skólastarf, en sú staðreynd að gott er að ala upp börn áÁlftanesi varð til þess að barnafólk sótti þangað í ríkum mæli. Hin ástæðan eríþróttamannvirki sem bærinn réðist í að byggja, vissulega fjarstæðukenndbygging í ekki stærra sveitarfélagi þótt hún bæti lífsgæði íbúanna mjög. Þessiframkvæmd var hins vegar samþykkt sjö-núll í sveitarstjórn og því einhugur aðbaki framkvæmdanna. Sjálfstæðismenn tala því tungum tveim og sitt með hvorri, allteftir því hvernig vindar blása.

Hrafnkell Tumi Kolbeinsson er 10. maður á Á-lista fyrir sveitastjórnarkosningar 2010


Fjölskyldudagur í fjörunni

Á-listinn verður með fjölskyldudag í fjörunni við Bakka á laugardaginn, 15. maí.

Dagskráin hefst klukkan 13 með u.þ.b. klukkustundar göngu og skoðunarferð, með leiðsögn tveggja sjávarlíffræðinga, út í Eyvindastaðahólmann.

Að því loknu verður stutt ávarp, boðið upp á leiki og grillað. Veðurspáin er góð til útiveru, stemningin verður notaleg og allir eru velkomnir.

Eftir dagskránna í fjörunni er gestum og gangandi boðið að kíkja við á kosningarskrifstofu Álftaneshreyfingarinnar við Breiðumýri, í Bessanum.

Nánari upplýsingar má lesa í dreifiriti, sem borið verður í hús á Álftanesi, en það fylgir með hér naðanmáls í viðhengi, ásamt korti sem sýnir staðsetninguna.

Frambjóðendur á Á-lista


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband