Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010

Í tilefni af viðtali við Halldór Halldórsson


SMSigurður Magnússon skrifar:

Halldór Halldórsson, formaður Sambands Íslenskra sveitarfélaga , sagði í viðtali fyrir helgi að ríkisvaldið þyrfti að koma að vanda Álftaness, en ekki endilega með fjárframlögum og var ekki hægt að skylja orð hans öðruvísi en að sveitarfélagið þyrfti að sameinast öðru sveitarfélagi. Ekki sá Halldór ástæðu til þess að taka undir kröfu Álftnesinga um leiðréttingu á greiðslum frá Jöfnunarsjóði . Þó sýnir skýrsla að Álftanes þarf 150 - 200 milljón króna leiðréttingu árlega í viðbótarframlög til að standa fjárhagslega jafnfætis nágrannasveitarfélögum. Þessi mismunun gagnvart Álftanesi hefur viðgengist um árabil. Hvers vegna beitir Halldór, sem formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, sér ekki fyrir leiðréttingu þótt stjórn samtaka sveitarfélaga á Höfuðborgarsvæðinu hafi ályktað til stuðnings Álftanesi? Hann er ef til vill að verja fjármuni Jöfnunarsjóðsins fyrir þéttbýlissveitarfélagi. Það er sjónarmið út af fyrir sig enda mörg sveitarfélög á landsbyggðinni með erfiðann rekstur, en ber ekki Halldóri að víkja landshlutasjónarmiðum til hliðar og meta alla mismunun, með sama hætti og gera kröfur á ríkisvald ef fjármuni vanta til að Jöfnunarsjóðurinn geti rækt hlutverk sitt.

31% skatttekna Ísafjarðar koma frá Jöfnunarsjóði til Ísafjarðar

Ég velti því fyrir mér hvort Halldór hafi ruglastí ríminu, um hlutverk sitt, en hann gegnir líka stöðu bæjarstjóra á Ísafirði . Bæjarsjóðurinn sem hann veitir forstöðu fær rúmlega 31 % skatttekna sinna frá Jöfnunarsjóðnum, á meðan Álftanes fær 15 %. Í tilefni af þögn Halldórs um réttmæta leiðréttingu til Álftaness fletti ég upp í Árbók um fjármál sveitarfélaganna vegna rekstrar 2008 og þar koma m.a. fram eftirfrarandi upplýsingar: Tekjur Ísafjarðabæjar frá Jöfnunarsjóði 2008 voru 619 milljónir eða 156 þúsund deilt á hvern íbúa . Á Álftanesi voru jöfnunargreiðslur 172 milljónir eða 68 þúsund á hvern íbúa. Hér munar tæpum 100 þúsundum á íbúa. Álftanes þyrfti u.þ.b. 150 milljónir til viðbótar til að stuðningur sjóðins væri sambærilegur í báðum sveitarfélögunum að teknu tilliti til íbúafjölda. Skoðum betur fjárhagsaðstæður í bæjunum tveimur áður en kemur til greiðslna frá Jöfnunarsjóði. Skatttekjur eru mjög sambærilegar, eða 345 þúsund á Ísafirði , deilt á hvern íbúa en 354 á Álftanesi. Kostnaður í bæjarsjóðum er líka sambærilegur, þannig er launakostnaður 308 þúsund á íbúa og annar rekstrarkostnaður 205 þúsund á íbúa á Ísafirði meðan þessi sami kostnaður er 298 þúsund og 192 þúsund á Álftanesi. Rekstur og skattekjur eru því sambærileg,- reyndar þrátt fyrir þá staðreynd að leikskólabörn eru u.þ.b. 60% fleirri hlutfallslega á Álftanesi og grunnskólabörn um 20% fleirri, sem undirstrikar góðan rekstur stofnana á Álftanesi í samanburði við Ísafjörð. Þetta hærra hlutfall barna og unglinga á Álftanesi ætti líka að hækka jöfnunargreiðslur frá sjóðnum til Álftaness, en gerir það ekki.

Sjáfstæðismenn á Álftanesi skattleggja og skera niður

En hvað sem öðru líður er kominn tími til að láta af því einelti sem Álftnesingar hafa mátt búa við í umræðunni um fjárhagsmál sín. Lítið sveitarfélag hefur skaðast um milljarða vegna efnahagshunsins en fyrir hafði það búið við mismunun varðandi Jöfnunargreiðlur í mörg ár. Talar ekki landstjórnin og forysta sveitarfélaganna um að hlífa börnum og unglingum við afleiðingum kreppunnar. Álftanes er barnmesta sveitarfélag landsins og þarf þó að búa við sérsköttun og stórfelldan niðurskurð á þjónustu vegna þess að mál þess fá ekki eðlilega leiðréttingu. Fyrirhugaður niðurskurður grunnþjónustu á Álftanesi bitnar mest á börnum og unglingum, en 80% niðurskurðaruins er á málaflokka uppeldis,fræðslu og æskulýðsmála. Sjálfstlæðismenn á Alþingi tala gegn skattaálögum til að rétta af stöðu ríkisjóðs en samþykkja skattaálögur og þjónustuskerðingu á Álftanes, sem viðbót við álögur ríkisvaldsins. Til viðbótar á að stöðva uppbyggingu í bæjarfélaginu og skila til baka óreglulegum tekjum fyrra árs , um 400 milljónir, sem meirihluti Á-lista aflaði. Allt er þetta í anda bölmóðs og svartsýni þegar þörf er á kjarki og bjartsýni. Ég kalla eftir réttlæti fyrir Álftnesinga, málefnalegri aðkomu yfirvalda með leiðréttingu á jöfnunargrreiðslum og endurskipulagningu lána og eigna vegna afleiðinga efnahagshrunsins.

Höfundur er bæjarfulltrúi Á-lista á Álftanesi og fyrrverandi bæjarstjóri.


Stóryrði og sleggjudómar!

KFB

Kristín Fjóla Bergþórsdóttir skrifar:

Lítið sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu hefur undanfarnar vikur verið á milli tannanna á fólki og í fjölmiðlum og setið undir stóryrðum og sleggjudómum. Umræðan hefur einkennst af þekkingarskorti og klisjum. Kannski má á vissan hátt segja að það sé ekki skrýtið, því að það sem einu sinni fer af stað er erfitt að stoppa.

Eins og flest önnur sveitarfélög í landinu vorum við með hluta af lánasafni okkar í erlendri mynt, - enda voru það þær ráðleggingar sem sveitarfélög, líkt og einstaklingar og fyrirtæki, fengu hjá lánastofnunum. Á sama hátt og efnahagshrunið skall af fullum þunga yfir heimili og fyrirtæki í landinu skall það einnig af fullum þunga yfir sveitarfélögin í landinu. Þau, eins og heimilin og fyrirtækin voru vissulega misjafnlega vel í stakk búin til að taka við slíku áfalli.

Ungu barnmörgu sveitarfélagi, sem er án atvinnulífs og hefur því ekki aðra tekjustofna en skatttekjur af íbúum sínum, má á vissan hátt líkja við unga barnmarga fjölskyldu sem ekki hefur annað en dagvinnulaun á milli handanna. Slík fjölskylda má ekki við miklum fjárhagslegum áföllum.

Í efnahagshruninu tapaði sveitarfélagið Álftanes um 1.000 milljónum króna, sem er nánast sama upphæð og árlegar tekjur þess. Það þarf ekki að hugsa sig lengi um til að svara því hvernig fer fyrir fjölskyldu, sem af einhverjum ástæðum tapar því sem nemur árlegum tekjum hennar!

Hátt hefur verið talað um hina glæsilegu sundlaug á Álftanesi og hún sögð hafa "sett sveitarfélagið á hausinn" , en bygging hennar var samþykkt samhljóða í bæjarstjórn í desember 2006. Það sem fyrst og fremst gerir sundlaugina á Álftanesi frábrugðna öðrum sundlaugum, og um leið eftirsóknarverðari, er hæðin á rennibrautinni og öldulaugin, en hún er sú eina sinnar tegundar á landinu. Margir kunna eflaust að halda að það sé einmitt þessi "lúxus" sem orsakað hafi vandann á Álftanesi, og því er rétt að upplýsa það hér að kostnaður við tæknibúnað öldulaugarinnar og hækkun á rennibrautarturni úr 7 metrum í 10 var u.þ.b. 15-20 milljónir króna.

Aðdráttaraflið er hins vegar óumdeilt og gestir sundlaugarinnar í lok síðasta sumars, -eftir að sundlaugin hafði verið opin í rúma þrjá mánuði, voru orðnir hátt í 50 þúsund. Gert hafði verið ráð fyrir að um 60 þúsund gestir heimsæktu sundlaugina árlega, og var sú spá af mörgum talin óhóflega bjartsýn. Nú stefnir hins vegar í að sú tala nálgist 100 þúsund.

Það sem ég hins vegar vil benda á og tel umhugsunarvert, er það að bygging þessarar glæsilegu sundlaugar kostaði tæpan milljarð, sem nánast er sama upphæð og sveitarfélagið tapaði í efnahagshruninu vegna erlendra lána.

Hvers vegna talar enginn um að efnahagshrunið hafi "sett sveitarfélagið á hausinn"? Er það vegna þess að það er of satt? Eða er það kannski ekkert fréttnæmt?

Það er sorglegt að umfjöllun um svo alvarlega hluti skuli ekki geta verið málefnaleg og byggð á staðreyndum í stað þess að byggjast á stóryrðum, klisjum og sleggjudómum.

Kristín Fjóla Bergþórsdóttir, bæjarfulltrúi Á-lista á Álftanesi

 


Óstjórn á Álftanesi, fullyrðir Þór Saari þingmaður

KG

Kristinn Guðmundsson skrifar:

Mér er málið skylt og þar sem ég er þingmanninum ósammála vil ég svara honum. Ég lagði af heilum hug hönd á plóg með Álftaneshreyfingunni í tilraun til að snúa samfélaginu úr þröngri stöðu til betri vegar. Strax í upphafi, 2006, var ljóst að reglubundnar tekjur sveitarsjóðs dugðu vart fyrir kostnaði af þjónustu við íbúana. Svigrúm til framkvæmda var aðeins fengið með því að selja eignir eða taka lán og flestar eigur sveitafélagsins höfðu þá þegar verið seldar. Þar sem íbúafjöldi á Álftanesi hafði vaxið dæmalaust hratt árin á undan og enn var framundan fyrirsjáanleg fjölgun, þá þurfti að stækka grunnskólann og bæta við rekstur leikskóla, koma upp aðstöðu fyrir íþróttaiðkun, byggja þjónustumiðstöð fyrir eldri borgara og almenna félagsstarfsemi, svo eitthvað sé nefnt. Sumar af þessum framkvæmdum voru reyndar þegar í undirbúningi eða að ljúka. Án þess að eyða púðri í deilur um hver ákvað hvað og hvenær, þá er flestum ljóst að vandi sveitarfélagsins helltist ekki yfir sveitarfélagið á einu kjörtímabili. En skellurinn kom með bankahruninu þegar lánin bólgnuðu og forsendur góðra áforma brustu. Þá dró úr líkum á að stefna Álftaneslistans næði að uppfylla væntingar um betri tíð með blóm í haga. Steininn tók úr er kvarnaðist úr liði meirihlutans og þegar oddviti nýs meirihluta lýsti því yfir að sveitarfélagið væri “tæknilega gjaldþrota” voru skuldir sveitarfélagsins nánast samstundis gjaldfelldar og tekjur afskrifaðar. Með því var nánast séð til þess að viðsnúningurinn sem Álftaneslistinn stóð fyrir og róðurinn móti straumnum undanfarin ár yrði til lítils. Nýr meirihluti, sem hefur ákveðið að leggja árar í bát um leið og hann tók við, virðist ætla að gera endanlega út um að framtíðardraumar Álftnesinga verði hljómur einn. En framtíðarsýnin, sem Álftnesingar völdu árið 2006, er engu að síður þess virði að verja hana og styðja með ráði og dáð. Í megindráttum gengur hún út að leggja rækt við það góða samfélag sem fyrir er og nýta þá sérstöðu sem Álftanes hefur upp á að bjóða á höfuðborgarsvæðinu til atvinnu í byggðarlaginu. Það tryggir verndun þeirrar fjölbreyttu og spennandi náttúru, sem helst í hendur við víðáttumikil opin svæði sem henta til útivistar og er viðeigandi umhverfi fjölda minna um sögu Íslendinga frá þjóðveldi til lýðveldis og forsetasetrinu á Bessastöðum. Við í Álftaneslista höfum ekki lagt okkar síðasta orð inn í baráttuna um þessa framtíðarsýn.

Fjárhagsleg staða sveitarfélagsins er vissulega slæm, en ekki má gleyma að mestu máli skiptir að hverju verður stefnt. Hvaða póstnúmer verður á bréfunum sem er dreift í húsin er annað mál. Í fyrsta umgangi er rétt að fara í saumana á reiknireglum Jöfnunarsjóðs og lögboðnar skyldur ríkisins. Öðruvísi verður Álftnesingum ekki tryggð sanngjörn meðferð sinna mála. Síðan má skoða möguleika til að hagræða rekstur sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Í þeim efnum er augljóslega margt aðkallandi og því væri fásinna að mæla gegn gagngerri endurskoðun, en það á ekki að rugla þessum málum saman.

Þór Saari er ekki sómi af að slá um sig, eins og hann gerir í grein sinni í Mbl 3. febrúar. Þar með tekur hann sér stöðu með fölmörgum öðrum sem mála skrattann á vegg. Vissulega er af hinu góða að benda á galla hjá forystumönnum, en það þarf að vera vel rökstutt og gert af sanngirni í stað þess að ala á misskilningi með sleggjudómum og rangfærslum. Það er heldur ekki vænlegt að rífa bara niður án þess að koma með álitlegar lausnir. Skrif Þórs bera annað hvort vitni um að hann er illa upplýstur um viðkomandi málefni Sveitarfélagsins Álftaness, eða að hann bregður fyrir sig lýðskrumi á kostnað sveitunga sinna. Ef hann og aðrir kjósendur á Álftanesi eru óánægðir með alla þá sem bjóða fram krafta sína í sveitarstjórn þá eru þeir kostir í stöðunni að annað hvort finna aðra hæfari einstaklinga sem vilja annast verkin eða beita sér fyrir breytingu á því sem fyrir er. Innantómar fullyrðingar um að Álftaneslistinn hafi brugðist kjósendum sínum er jafn vitrænt og að berja tóma tunnu. Ég fullyrði að unnið var af heilindum að þeim markmiðum sem kynnt voru fyrir kosningarnar, enda hefur ekki verður sýnt fram á annað. Áformin voru upp á borði og ekki reynt að fela að þau kostuðu þá fjárhagslegu áhættu sem fylgir lántökum. Á móti lánum var gert ráð fyrir tekjum í því sem talið var fyrirsjáanleg framtíð. Þjóðin veit hvernig það fór og því miður er að koma í ljós að fleiri hafa bitið í það súra epli og eiga nú í vök að verjast. Einustu svik Álftaneslista við kjósendur eru þau að tveir bæjarfulltrúar sem Álftaneshreyfingin treysti til að taka sæti á framboðslista sínum ákváðu að fara aðra leið. En landslög leyfa slíkt og því fæst ekki við það ráðið, sama þótt um augljósa brotalöm sé að ræða í þeirri blöndu af lýðræði og flokksræði sem við búum við. Þór og bloggvinir hans eru greinilega í hópi með þeim sem eru óánægðir. Ef þessir einstaklingar eru jafn yfirburðagreindir og látið er í veðri vaka í bloggskrifunum (jafnvel í skjóli nafnleyndar), þá hefði fyrir löngu átt að vera kominn fram valmöguleiki sem dygði til úrbóta.

Það var ekki óstjórn sem hefur hrjáð samfélagið á Álftanesi á yfirstandandi kjörtímabili, en samfélagið hefur liðið fyrir ómálefnaleg átök milli fylkinga sem deila eftir línum stjórnmálaflokka líkt og á Alþingi. Í því er Þór enginn aukvisi heldur. Þór væri meiri sómi af að beita sér á þingi fyrir málstað Álftnesinga og stuðla að því að þeir fái sanngjarna meðferð sinna mála af hálfu ríkisins. Ekki væri verra að hann fjallaði um það í fjölmiðlum líka. Sjá má á vefsíðunni www.alftanes.net hvaða stefnumál Álftaneslistinn setti fram og forvitnilegt er að skoða samhljóminn í þeirri framtíðarsýn og Aðalskipulagi Álftaness 2005 – 2024.

Álftaneshreyfingin hefur ávallt hvatt íbúana til þátttöku í samfélagslegum viðfangsefnum. Þá sýn eigum við sameiginlega með Þór. Sama má segja um stefnu í náttúruvernd. En, kjósendur völdu Álftaneshreyfinguna til forystu m.a. til að endurvinna deiliskipulag fyrir miðsvæðið og höfnuðu því sem þá var nýbúið að samþykkja af fyrri meirihluta. En með fyrra skipulaginu erfðust miklar kvaðir um byggingamagn auk þess sem þurfti að sjá til þess að með lóðarsölu fengist fé til að greiða niður lán sem tekin voru þegar landspildan var keypt af fyrri eigendum. Við bankahrunið varð svo alger forsendubrestur hvað áform í fjárhagsmálum varðar, ekki ósvipað því sem margt ungt fólk upplifði eftir að hafa keypt húsnæði fyrir nýstofnaða fjölskyldu sína, fjárfestingar sem því var sagt að það myndi ráða vel við að borga niður miðað við launatekjur og framtíðarspár lánastofnanna. Kallast það fyrirhyggjuleysi og óstjórn?

Ef valkostur hefði verið í boði árið 2006, með sannfærandi áformum um eitthvað svipað og Álftaneshreyfingin setti fram, utan þess sem kalla má útþenslu, þá er aldrei að vita nema ég hefði hrifist og gefið mitt atkvæði. En hverjum gagnast að tala aðeins um glötuðu tækifærin og hvað allt er ömurlegt og leggja til óskilgreinda endurmönnun í brúnni. Þá vel ég fremur að standa áfram fyrir góðri framtíðarsýn og vinna að settu marki. Álftaneshreyfingin er óháð samtök og öllum frjálst að vinna innan þeirra til að marka framtíð Álftaness með lýðræðislegum umræðum og ákvörðunum. Ég hvet því alla til að kynna sér Álftaneshreyfinguna sem vettvang bæjarmála og afla sér upplýsinga um hvað þau hafa staðið fyrir áður en rokið er til að stofna ný samtök sem yrðu líklega afar svipuð.

Fundur Álftaneshreyfingarinnar 1. febrúar ákvað að bjóða á ný fram fulltrúa á Á-lista við sveitarstjórnakosningarnar í maí. Undirbúningur er hafinn, en hreyfingin hvetur alla sem vilja leggja sitt af mörkum fyrir gott samfélag og varðveislu sérkenna Álftaness á höfuðborgarsvæðinu til að gefa sig fram og taka þátt í mótun framboðslistans og baráttumála á stefnuskrá hans. Netfang Álftaneshreyfingarinnar er alftaneshreyfingin@gmail.com og öllum viðeigandi tölvupósti mun verða svarað.

Kristinn Guðmundsson er fulltrúi Álftaneslista í skipulags- og byggingarnefnd


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband