Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010

Vinnubrögð „hins starfhæfa meirihluta“

KFBKristín Fjóla Bergþórsdóttir skrifar:

Vinnubrögð „hins starfhæfa meirihluta" á Álftanesi, -eins og hann sjálfur kýs að kalla sig,  eru fráleit í þessu, - eins og því miður svo mörgu öðru. Það er fullkominn dónaskapur við íbúa á Álftanesi að upplýsa þá um að þeim sé ætlað að taka þátt í skoðanakönnun um sameiningu sveitarfélagsins við annað sveitarfélag með rúmlega sólarhrings fyrirvara.

Ekki nóg með það, heldur neitar „hinn starfhæfi meirihluti" að leyfa Álftnesingum að velja þann kost að vilja búa í sjálfstæðu sveitarfélagi, - ef fjárhagsleg endurskipulagning sem nú er unnið að og samningar við ríkisvald leiða til þess að sveitarfélagið geti verið sjálfbært og hægt sé að aflétta  aukanum sköttum og hverfa frá niðurskurði.

Spurningarnar sem „hinn starfhæfi meirihluti" ætlar að leggja fyrir íbúana þættu í besta falli ágætlega unnar af menntaskólanemum!

Auglýsingin sem send var Álftnesingum inn um lúguna í kvöld er talandi dæmi um metnaðar- og virðingarleysi  „hins starfhæfa meirihluta".  Meðfylgjandi auglýsingunni er ljósrituð gjaldskrá nágrannasveitarfélaganna, -þar sem borin eru saman epli og appelsínur- og fólki ætlað að notast við hana til að velja sér sveitarfélag til sameiningar!!!

Heldur „hinn starfhæfi meirihluti" að fólki sé alveg sama hvað verður um það, bara ef það borgar minna? Já, það er einmitt það sem á að keyra á núna. Nú á að stilla fólki upp við vegg og láta það velja; annarsvegar að búa skattpínt og niðurskorið á Álftanesi eða, að öðrum kosti, að sameinast því sveitarfélagi sem er með lægsta gjaldskrána! Hvað heldur „hinn starfhæfi meirihluti"?

Vissulega er fólk reitt yfir þeim álögum og niðurskurði sem það situr uppi með, en það þarf enginn að segja mér að því sé samt sama hvað verður um það. Heldur „hinn starfhæfi meirihluti" að ekki þurfi að upplýsa íbúa um aðra kosti nágrannasveitarfélaga okkar en gjaldskrár, -sem auk þess geta breyst á nokkurra mánaða fresti og eru því ekkert loforð um betri tíð með blóm í haga! Heldur „hinn starfhæfi meirihluti" að það skipti engu máli hvaða sveitarfélag er tilbúið að veita okkur þá þjónustu sem við óskum, og heldur „hinn starfhæfi meirihluti" að engu máli skipti hvaða sveitarfélag er tilbúið að halda áfram uppbyggingu á Álftanesi í samræmi við fyrirliggjandi áætlanir og heldur „hinn starfhæfi meirihluti" að ekki þurfi að tryggja náttúruverndarsjónarmið Álftnesinga. Heldur „hinn starfhæfi meirihluti að hann geti bara komið fram við Álftnesinga eins og honum sýnist"?

Nei, -nú hafa Álftnesingar sýnt það enn og aftur að þeir láta ekki bjóða sér hvað sem er og hafa í hundraðatali skrifað undir mótmæli við auknum sköttum og niðurskurði til yfirvalda. Þessir sömu íbúar hafa margir hverjir talað um að ekki sé tímabært við þær aðstæður sem nú eru á Álftanesi að láta íbúana taka afstöðu til sameiningar, -og það er einmitt það sem er svo rangt. Að stilla íbúum upp við vegg við þessar aðstæður, -án þess að upplýsa um þá ólíku kosti sem sameining við einstök sveitarfélög hefur.

Það er algjörlega óábyrgt af "hinum starfhæfa meirihluta" að gera slíka skoðanakönnun nú, þegar aðstæður á Álftanesi eru með þeim hætti að þær kunna að knýja íbúa til að velja fremur sameiningu en sjálfstætt sveitarfélag.

Kristín Fjóla er bæjarfulltrúi Á-lista

 


Forkastanleg vinnubrögð meirihlutans á Álftanesi

Kristinn Guðmundsson skrifar:

Í póstkassann minn var að berast kynning á umræddri skoðanakönnun, kynning sem líka hefur verið birt á vefsíðu sveitarfélagisns (sjá hér). Þar kemur fram að íbúum gefst tækifæri á að tjá skoðun sína um hvot rétt sé að sameinast öðru sveitarfélagi og hvaða sveitarfélagi hver og einn vill helst sameinast.

Ekki er gert ráð fyrir möguleika á að sveitarfélagið. og "starfhæfur meirihluti" eins og núverandi meirihluti kynnti sig, geti unnið sig frá þeirri stöðu sem nú er og hefur ítrekað verið haldið að fólki að sé ómöguleg. Um þetta eru þó alls ekki allir sammála. Greinilegt er af þeim upplýsingum sem fylgja skoðanakönnuninni að meirihluti bæjarstjórnar og bæjarstjórinn knýja á að íbúarnir meti stöðuna aðeins út frá einu þröngu sjónarhorni - hver býður hagstæðustu skilyrðin fyrir budduna - og í þetta sinn er sýndur samanburður gjaldskráa frá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Ekki er vikið að því hver yrðu framtíðaráform fyrir samfélagið og sveitina eða hvað nefnd sveitarfélög eru tilbúin að samþykkja af nærþjónustu fyrir íbúana.

Markmiðið er augljóst, sækja rökstuðning fyrir áformum um sameiningu, og skammsýnin alger - eða vita menn ekki að gjaldkrám er breytt u.þ.b. árlega.

Hver er svo akkur sameiningar í stað þess að verða við kröfu um leiðréttingu greiðslna úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, eins og fulltrúar Á-listans hafa bent á. Byggðin á nesinu verður alveg jafn fjárhagslega ósjálfstæð eftir sameiningu og afleiðingin sú að þá þarf að sækja það fé sem upp á vantar í einn sveitarsjóð einhvers nágrannans í stað þess að sækja það úr sameiginlegum jöfnunarsjóði landsmanna. Er tregða samgöngumálaráðuneytis til að afgreiða kröfu um endurskoðun greiðsla úr Jöfnunarsjóðnum vísbending um að sjóðurinn er eyrnamerktur landsbyggðinni, til að rétta stöðuna þar sem fólksfækkun á sér stað - en tekur ekki tillit til vanda þar sem ungt fólk af landsbyggðini velur að setjast að með sýnum börnum á höfuðborgarsvæðinu? Ég get ekki betur séð en að þar með virki Jöfnunarstjóður gegn markmiði samgönguráðuneytisins um að fækka sveitarfélögum á landsvísu.

Kristinn er fulltrúi Á-lista í skipulags- og byggingarnefnd


Ótímabær skoðanakönnun á Álftanesi

Meirihluti bæjarráðs hafnaði öllum tillögum Á-lista um vandaðan undirbúning fyrir skoðanakönnun um sameiningarmál, eins og lesa má af fundagerð bæjarráðs í dag - http://alftanes.is/stjornsysla/fundargerdir/nr/13687/ , afgreiðsluna og bókanir. Tillögurnar voru:

Tillaga frá Á-lista.

„Bæjarráð samþykkir að fresta skoðanakönnun um viðhorf íbúa Álftaness til sameiningar þar til lokið er endurskipulagningu fjármála sveitarfélagsins og þar til frekari upplýsingar liggja fyrir um kosti sameiningar við einstök sveitarfélög s.s. með tilliti til nærþjónustu. Vanda þarf líka gerð spurninga og leita álits sérfróðra aðila um gerð og framsetningu þeirra, og kynna þær íbúum með hæfilegum fyrirvara.“

Afgreiðsla: Hafnað 2:1 fulltrúi Á-lista á móti.
 

Tillaga frá Á-lista:

„Bæjarráð samþykkir að í „spurningavagninum“ sem íbúar svara í fyrirhugaðri skoðanakönnun um sameiningarmál n.k. laugardag verði hægt að merkja við eftirfarandi valmöguleika:

Sjálfstætt sveitarfélag á Álftanesi, ef fjárhagsleg endurskipulagning sem nú er unnið að og samningar við ríkisvald leiða til þess að sveitarfélagið geti verið sjálfbært og hægt sé að aflétta nýsamþykktum auka-sköttum og hverfa frá boðuðum niðurskurði.“

Afgreiðsla:Hafnað 2:1, fulltrúi Á-lista á móti.

Álftaneshreyfingin átelur harðlega þessi viðvaningslegu vinnubrögð meirihlutans og varar við því að það er vandmeðfarið að meta niðurstöður sem fengnar eru með fljótræði og við óeðlilegar aðstæður - því álítum við skoðanakönnunina ótímabæra.

f.h. bæjarmálaráðs Álftaneshreyfingar / kg


mbl.is Áhugi Álftnesinga á sameiningu kannaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband