Athugasemd við yfirklór Halldórs Halldórssonar

SM Sigurður Magnússon skrifar:

Í gær skrifaði ég pistil visi.is í tilefni af fréttaviðtali við Halldór Halldórsson, formann Sambands íslenskra sveitarfélaga og bæjarstjóra á Ísafirði.

Í viðtalinu sem fjallaði um fjárhagsvanda Álftaness sagði hann að ríkið yrði að koma að málum, en ekki endilega með fjárstuðningi. Þetta sagði formaður Samtaka íslenskra sveitarfélaga þótt honum væri kunnugt um greinargerð Álftaness til Jöfnunarsjóðsins þar sem rökstudd er krafa um leiðréttingu á jöfnunargreiðslum. Í grein minni sýndi ég fram á að greiðslur til Ísafjarðar eru miklu hærri en til Álftaness og taldi það sanna að regluverk sjóðsins þyrfti endurskoðunar við. Til að sveitarfélögin væru jafnsett þyrftu árlegar greiðslur til Álftaness að hækka um 150 milljónir.

Á fréttavef www.bb.is er haft eftir Halldóri að samanburður minn sé rangur af því að sveitarfélögin tvö séu ekki samanburðarhæf, m.a. vegna þess að aðstæður séu ólíkar t.d. séu fleiri skólar á Ísafirði . Þetta er yfirklór hjá formanninum. Að sjálfsögðu eru þessi tvö sveitarfélög ólík um margt t.d. eru 60% fleirri leikskólabörn á Álftanesi og 20% fleiri grunnskólabörn og margt annað mætti nefna, s.s. að nær ekkert atvinnulíf er á Álftanesi sem færir tekjur í bæjarsjóð.

En þetta er ekki kjarni málsins heldur sú staðreynd sem ég nefni í grein minni að fjárhagsaðstæður,- áður en greitt er úr Jöfnunarsjóði eru sambærilegar í báðum sveitarfélögunum, þ.e.a.s., tekjur deilt á íbúa þær sömu og eins rekstrarkostnaður. Því þarf að spyrja af hverju fær annað sveitarfélagið þ.e.a.s Ísafjörður miklu hærri greiðslur frá Jöfnunarsjóði og styrkir þannig rekstur sinn umfram Álftanes? Af hverju mælir reiknivél sjóðsins aðstæður á Ísafirði umfram aðstæður á Álftanesi, Ísafirði til tekna, og vanmetur séraðstæður á Álftanesi s.s. hátt hlutfall barna og skort á tekjum frá atvinnulífi? Er ekki Halldór, formaður Sambandsins, sammála því að mikilvægt sé að styðja við barna- og æskulýðsstarf sveitarfélaganna og að hlúa beri sérstaklega vel að samfélagi með hátt hlutfall barna og unglinga?

Hvers vegna þá að hafa Álftanes afskipt sem er með um 40% hærra hlutfall barna og unglinga en landsmeðaltal?

Formaður Sambands íslensksra sveitarfélaga getur ekki, þótt hann sé bæjarstjóri á Ísafirði og vilji verja tekjur sinnar heimabyggðar, skautað yfir þessar staðreyndir og reynt að þagga umræðuna um þá mismunun sem Álftanes hefur verið beitt árum saman. Hann má ekki rugla saman hlutverki sínu sem bæjarstjóri og skyldum sínum sem formaður íslenskra sveitarfélaga.

Sigurður Magnússon, bæjarfulltrúi og fyrrverandi bæjarstjóri á Álftanesi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband