Viðreisn og nýsköpun í stað uppgjafar

SM andlitsmynd

Sigurður Magnússon skrifar:

Nú þegar afleiðingar skatta hækkana og niðurskurðar blasavið á Álftanesi, láta almennir íbúar heyra í sér. Haldnir hafa verið íbúafundir m.a. til að mótmæla skatta- og niðurskurðarstefnu meirihluta D-listans og Margrétar Jónsdóttur. Þessi íbúavakning ætlar að láta Fjárhaldsstjórnina, sem nýlega var skipuð til að fara með málefni Álftaness, heyra rödd sína. Fagna ber þessari umræðu og frumkvæði íbúanna eins og allri umræðu um orsakir hrunsins og vanda Álftaness, sem tapaði 1000 milljónum í hruninu og hafði fyrir veikatekjustofna og erfiðan rekstur. Það er samhljómur með tillögum Á-listans og hins almenna íbúa og mikilvægt að á næstu vikum skapist öflugur þrýstingur umbreytta stefnu.  Fjárhaldsstjórnin þarf að hlusta á athugasemdir og tillögurbæjarfulltrúa Á-lista í bæjarstjórn og tillögur og hugmyndir íbúanna.  Fjárhaldsstjórnin þarf að hverfa frá hugmyndum meirihluta bæjarstjórnar og draga úr áformuðum niðurskurði þjónustu. Eins þarf Fjárhaldsstjórnin, fremur en að rifta samningum og stöðva framkvæmdir á miðsvæði sveitarfélagsins, að leita leiða til áframhaldandi uppbyggingar sem styrki framtíðartekjur bæjarsjóðs. Ákvarðanir um sameiningarmál, sem meirhlutinn telur einu lausn Álftnesinga eru ótímabærar. Fyrst þarf að ljúka fjárhagslegri endurskipulagningu bæjarsjóðs, því niðurstaða úr þeirri vinnu hlítur að ráða miklu um viðhorf íbúanna til sameiningar. Þegar því marki hefur verið náð eiga Álftnesingar eins og aðrir íbúar á höfuðborgarsvæðinu að ræða um aukna samvinnu eða sameiningu og koma jafnir að slíkri umræðu. Í þessu sambandi er mikilvægast að leiðrétta greiðslur frá Jöfnunarsjóði.

D-listinn boðar uppgjafarstefnu á Álftanesi

Við fyrri umræðu um fjárhagsáætlun Álftaness fyrir árið 2010 og þriggja ára áætlun 2011-2013 lagði meirihluti D-lista til stórfelldan niðurskurð á þjónustu og hækkun útsvars og fasteignaskatts. Tilögunum var ætlaðað ná fram hagræðingu, sem á ársgrundvelli væru 120 milljónir í viðbótarsköttum og 180 milljónir í niðurskurði á þjónustu, samtals 300 milljónir. Um 80% niðurskurðarins var á skóla og æskulýðsstarfi. D-listinn gerði ráð fyrir að sveitarfélagið hætti aðild að framkvæmdum með Búmönnum hsf. og Risi ehf. á miðsvæðinu og þessar framkvæmdir því settar í óvissu. Þessar framkvæmdir höfðu þó skilað bæjarsjóði400 milljón króna tekjum 2009. Framkvæmdirnar höfðu verið fjármagnaðar af Íbúðalánasjóði og viðskiptabanka. D-listinn gerði heldur ekki ráð fyrir því við fjárhagsáætlunagerðina að leiðrétting fengist frá Jöfnunarsjóði, þrátt fyrir að rökstudd skýrsla liggi fyrir um þá mismunun sem Álftanes hefur búið við í mörg ár. Eftir að meirihluti Á-lista féll í fyrra hefur þeirri kröfu heldur ekki verið fylgt eftir eins og búið var að undirbúa, m.a. með lögfræðiáliti. Meirihlutinn kynnti því við fjárhagsáætlanagerðina stefnu uppgjafar, eða stefnusem leiðir til sameiningar við annað sveitarfélag í stað þess að reyna að ná fram sjálfbærum rekstri. En sjálfbær rekstur næst ekki fram án leiðréttingar frá Jöfnunarsjóði og án uppbyggingar, á miðsvæðinu, með tilheyrandi nýjum framtíðartekjum. Það hlítur hinsvegar að koma íbúum Álftaness á óvart að Sjálfstæðismenn sem hafa verið á móti sköttum á Alþingi telja í lagi að auka skatta á Álftanesi og að Sjáfstæðismenn sem tala fyrir atvinnuuppbyggingu á Alþingi tala fyrir uppgjöf á Álftanesi.

Framtíðarsýn með fjárhagslegri endurskipulagningu

Bæjarfulltrúar Á-lista gagnrýndu þessar tillögur meirihluta D-listans og sögðu að þær myndu rústa samfélagi á Álftanesi, verðfella eignir og rýra tekjustofna. Bæjarfulltrúar Á-listinn kynntu við fyrri umræðuna fjárhagsáætlunar tvær ólíkar tillögur að fjárhagsáætlun, báðar með um 100 milljóna í árlegri hagræðingu og hægri uppbyggingu með hagvexti eftir 2010, líkt og ríkistjórnin hefur áætlað í sambandi við fjárlagagerð ríkisins. Slík uppbygging mun skila nýjum skatttekjum og óreglulegum tekjum sem nemur u.þ.b. 150 milljónum árlega. Í annarri tillögunni gerir Á-listinn síðan ráð fyrir 200 milljón króna árlegri leiðréttingu frá Jöfnunarsjóði og að langtímaskuldir verði endurskipulagðar. Í hinni tillögunni er einungis gert ráð fyrir um þriðjungs leiðréttingu frá Jöfnunarsjóði, en í staðinn gert ráð fyrirþví að ríkið kaupi hlutafé Sveitarfélagsins Álftanes í Fasteign ehf. og sömuleiðis lóð fyrir menningar- og náttúrufræðisetur. Andvirði eignasölunnar yrði síðan notað til að kaupa til baka, af Fasteign ehf., íþrótta- og sundmannvirkin og létta með þeim hætti á árlegum rekstri um 140 milljónir. Í bæjarráði hefur bæjarfulltrúi Á-lista síðan flutt tillögu um að í stað þess að hætta við framkvæmdir Búmanna hsf. um byggingu þjónustuhúss verði verkefnið eflt með því að auka þjónustu í húsinu og reka þar litla hjúkrunardeild. Samhliða væri leiguskuldbindingum létt, að hluta, af sveitarfélaginu með því að fjölga samstarfsaðilum um rekstur hússins. Í því sambandi er hvatt til að taka upp viðræður við t.d. Sjómannadagsráð, sem rekur dvalar-og hjúkrunarheimili í nágrenni sveitarfélagsins.

Meirihluti D-lista samþykkti frávísun í bæjarstjórn á tillögur Á-lista, um sölu hlutafjár í Fasteign ehf. og sölu lóða, og tók ekki undir hugmyndir um hæga uppbyggingu. Hann tók líka fálega hugmyndum um að kalla nýja þjónustuaðila að framkvæmdum á miðsvæðinu. Meirihluta D-listans skortir framtíðarsýn fyrir Álftnesinga og sér ekki önnur ráð en að sameina Álftanes, helst við Garðabæ.  Á næstu vikum er mikilvægt að íbúar Álftaness taki undir hugmyndir bæjarfulltrúa Á-lista um aðrar áherslur við þá fjárhagslegu endurskipulagningu sem unnið er að. Gera þarf kröfu um að tekið sé á málum meðbjartsýni fremur en vonleysi og viðreisn og nýsköpun í stað uppgjafar.

Sigurður Magnússon er bæjarfulltrúi Á-lista og fyrrverandi bæjarstjóri

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband