80% af áætluðum niðurskurði bitnar á börnum og unglingum

KFB

Kristín Fjóla skrifar:

Á Álftanesi búa um 2.500 íbúar. 33% þeirra - eða um 830 eru börn og unglingar. Frá því efnahagshrunið skall yfir íslendinga síðari hluta árs 2008 hafa ráðamenn ríkis og sveitarfélaga allir talað sem einn um mikilvægi velferðar barna og unglinga og haldið því á lofti að gæta beri þess að afleiðingar hrunsins bitni ekki á þeim. 

Þann 12. janúar sl. barst stjórnsýslu Álftaness tölvubréf frá umboðsmanni barna, Margréti Maríu Sigurðardóttur, þar sem hún minnir á 3. gr. Barnasáttmála Sameinuðuþjóðanna, en sú grein felur í sér; að það sem barni sé fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem þau varða. Segir umboðsmaður barna í bréfi sínu, að af ákvæðinu leiði m.a. það, að skylt sé að leita annarra leiða við niðurskurð, áður en þjónusta við börn sé skert með einum eða öðrum hætti.

Á Álftanesi búa börn og unglingar við annan veruleika. Þann 27. janúar sl. kynnti meirihluti bæjarstjórnar Álftaness tillögur sínar að niðurskurði vegna fjárhagsvanda sveitarfélagsins upp á um 180 milljónir, -þar af snúa um 140 milljónir með einhverjum hætti að starfi með, -og fyrir, börn og unglinga. Þessar tillögur hafa nú verið samþykktar af meirihluta bæjarstjórnar.

Í beinu framhaldi af þeim forsendubresti sem varð við efnahagshrunið á Íslandi haustið 2008 stendur Sveitarfélagið Álftanes nú frammi fyrirfjárhagsvanda sem finna þarf lausn á. Vissulega er, við þær aðstæður, eðlilegt að hagræða í rekstri og þrengja að, þar sem hægt er. Það þarf sjálfsagt hvert heimili í landinu að gera um þessar mundir, - en allt hefur sín takmörk.  

Þær tillögur sem nú hafa verið samþykktar af meirihluta bæjarstjórnar eru óásættanlegar fyrir íbúa sveitarfélagsins og það sem alvarlegast er við þær, er sú staðreynd að 80% af niðurskurðinum bitnar á barna- og unglingastarfi. Ég óttast að þessi stórfelldi niðurskurður muni stórskaða samfélag á Álftanesi með ófyrirséðum afleiðingum.

Með tillögum sínum hefur meirihluti bæjarstjórnar samþykkt: 

  • að leggja niður vinnuskóla unglinga í sumar
  • að skerða fjárframlög til tónlistarkennslu um 55% og setja framkvæmd hennar í hættu
  • að leggja niður stöðu íþrótta- og tómstundafulltrúa
  • að leggja niður stöðu leikskólafulltrúa
  • að leggja niður stöðu félagsmálastjórna
  • að leggja niður stöðu fræðslustjóra
  • að leggja niður stöðu forstöðumanns íþrótta- og sundmiðstöðvar
  • að fella niður íþrótta- og tómstundastyrki til barna og unglinga
  • að skerða mjög styrki til félaga eins og UMFÁ og skátafélgsins Svana, sem halda uppi starfi fyrir börn og unglinga
  • að hætta niðurgreiðslu hádegismáltíða fyrir grunnskólabörn
  • að hætta heimgreiðslum til foreldra ungra barna að loknu fæðingarorlofi
  • að fækka starfsmönnum Frístundar, -sem er vistun grunnskólabarna eftir að skóladegi lýkur
  • að fjölga börnum á leikskóladeildum
  • að draga úr aðkeyptri þjónustu sérfræðinga í leik- og grunnskóla
  • að skerða fjárframlög til grunnskólans um tugi milljóna
  • að lækka styrki til allra almennra félagasamtaka íbúanna
  • að hækka öll þjónustugjöld
  • að hækka fasteignaskatta og útsvar
  • að leggja niður stöðu skipulags- og byggingarfulltrúa 

Að lokum hefur verið samþykkt að stytta opnunartíma sundlaugar! Sundlaugarinnar sem kostaði svo mikið að hún er af sumum sögð hafa, - ein ogsér, sett sveitarfélagið á hausinn. Til viðbótar ákvörðunar um styttri opnunartíma bættist svo við, - á fundi bæjarstjórnar í gærkvöldi, að segja uppforstöðumanni sundlaugarinnar og sameina starf hans starfi íþrótta- og tómstundafulltrúa, - sem áður átti að leggja niður! Áætlað er að þessi breyting taki gildi á miðju sumri, þ.e. á háannatíma sundlaugarinnar, en til glöggvunar um umfang hennar, þá hafa rúmlega 84.000 gestir borgað sig ofan í laugina frá opnun hennar fyrir 9 mánuðum, 12.600 komur eru í Nautilus og um 9.000 komur í skólasund.

- Það er skrýtið að eiga mjólkurkýr,

borga ofan í hana fóðrið,

en hella svo niðurmjólkinni!

Allt að 84% skatttekna sveitarfélagsinsfara til uppeldis- og fræðslumála

Álftanes er á ýmsan hátt frábrugðið öðrum sveitarfélögum. Eitt af því semer óvenjulegt, - og um leið óheppilegt við Álftanes, er það að hér er ekkert atvinnulíf, - vegna þess að hér hefur aldrei verið hugsað fyrir því að koma því upp. Þótti ekki taka því, - það væri svo litlar tekjur af því að hafa!

Bygging þessarar eftirsóttu sundlaugar var m.a. einn hlekkur í þeirri keðju að byggja hér upp atvinnulíf með áherslu á menningartengda ferðaþjónustu. Aðsóknartölur sundlaugarinnar sýna að sá hlekkur var sterkur. 

Á sama tíma og meirihluti bæjarstjórnar Álftaness samþykkir samning við Eftirlitsnefnd sveitarfélaga um að leggja hér á aukna skatta og óbærilegan niðurskurð hefur hann ekki krafist, - og þá meina ég krafist, svara frá ríkinu, sem ber ábyrgð á starfsemi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, um það hvort leiðrétta eigi greiðslur til sveitarfélagsins Álftaness, en sýnt hefur verið fram á að þær séu of lágar. Það er óumdeilt hlutverk sjóðsins að honum beri að jafna aðstöðumun sveitarfélaga, og sá aðstöðumunur getur verið af ýmsum toga.

Á Álftanesi stafar hann fyrst og fremst af þeim óvenjulegu forsendum að hér er fjöldi barna um 40% meiri en að meðaltali í flestum öðrum sveitarfélögum og að sveitarfélagið hefur engar tekjur af atvinnulífi. Úthlutunarreglur sjóðsins virðast ekki ná að dekka þessar tvær breytur nægilega vel,  - en eins og áður sagði, eru þær báðar óvenjulegar. Ef það reynist rétt að þær reglur sem sjóðurinn úthlutar eftir í dag ná ekki aðjafna þann aðstöðumun sem Álftanes býr við þarf að breyta þeim reglum, - til aðrétt sé gefið.

Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafa ályktað um þetta efni til stuðnings Álftanesi, en ráðherra sveitarstjórnarmála og forysta sveitarfélaganna á landsvísu forðast efnislega umfjöllun um málið, - væntanlega af ótta við það aðkomi í ljós að kröfur Álftaness séu réttar, muni það skerða greiðslur til dreifbýlissveitarfélaga, þar sem sjóðurinn hefur einungis ákveðna upphæð til umráða. 

Ekki á ég þá ósk að við leiðréttingu okkar mála þurfi önnur sveitarfélög að taka á sig óréttmæta skerðingu, heldur krefst ég þess að rétt sé gefið. Það sem til þarf að koma, samhliða breyttum reglum, er aukið fé til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga svo hann geti, eins og honum ber skylda til, jafnað aðstöðumun ALLRA sveitarfélaga í landinu á sanngjarnan hátt.

Bæjarfulltrúar Á-lista hafa, allt frá árinu 2007, barist fyrir þessari leiðréttingu og fylgt málinu eftir af bestu getu og er farið að lengja eftir niðurstöðu. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hefur núverandi meirihluti bæjarstjórnar hinsvegar ekki viljað leggja þann kraft sem til þarf í að fylgja kröfunni eftir. Það er ótrúlegt að við, fulltrúar minnihluta í bæjarstjórn, skulum vera í því hlutverki að herja á ríkið um þessa leiðréttingu á meðan fulltrúar meirihlutans sitja hljóð hjá, bíða þess sem verða vill og ganga til samninga við  Eftirlitsnefnd sveitarfélaga um að leggja aukna skatta og óbærilegan niðurskurð á íbúana ánþess að krefja ríkið svara við þessari sanngjörnu og rökstuddu kröfu Álftaness. Hvað er það sem þau óttast?

Ég skora á nýstofnuð Hagsmunasamtök íbúa á Álftanesi að gera það að forgangskröfu sinni að fá þessar greiðslur leiðréttar. Það er krafan sem skiptir mestu máli fyrir fjárhag sveitarfélagsins, - þó að fleira þurfi að koma til.

Það er von mín, að sú Fjárhaldsstjórn sem nú hefur verið skipuð sveitarfélaginu sjái að ekki er hægt að ganga svo nærri samfélagi á Álftanesi sem meirihluti bæjarstjórnar hefur lagt til og samþykkt, og aðstoði okkur við að finna aðrar og ásættanlegri leiðir.

Kristín Fjóla Bergþórsdóttir er bæjarfulltrúi Á-lista

 

Bent er á umfjöllun Kristínar Fjólu á 79. fundi bæjarstjórnar, þann 27. janúar sl.  Slóðin er  http://www.alftanes.is/stjornsysla/fundargerdir/nr/13559/   og með því að stilla tímabendilinn á 4:39:10 komið þið beint að umfjöllun hennar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband