Til umhugsunar!

Í gærkvöldi barst inn um póstlúgur Álftnesinga kynningarblað um skoðanakönnun á afstöðu þeirra til sameiningarmála.   Álftaneshreyfingin hefur gert alvarlegar athugasemdir við þessa skoðanakönnun og telur hana með öllu ótímabæra.

Hver svo sem afstaða íbúa til sameiningarmála kann að vera er umrædd könnun ennfremur það viðvaningslega fram sett að aldrei verður hægt að taka mark á niðurstöðunum, hverjar sem þær kunna að vera.

Nr 1 „Ég er hlynnt/ur því að Sveitarfélagið Álftanes sameinist öðru sveitarfélagi:“

Þessi „spurning“ í könnuninni er mjög gölluð og fyrir utan að vera vægast sagt leiðandi staðhæfing eru svarmöguleikarnir ófullnægjandi.  Álftaneshreyfingin hefur margsinnis krafist þess að íbúar sveitarfélagsins fái einnig tækifæri til að merkja við eftirfarandi valmöguleika:

Sjálfstætt sveitarfélag - Að því gefnu að fjárhagsleg endurskipulagning leiði til þeirrar niðurstöðu að hægt verði að reka sveitarfélagið á sjálfbæran hátt án þess að leggja á íbúana auknar fjárhagslegar byrðar.

Engu máli skiptir hvar í flokki menn standa, eða hvort að þeir telji þetta raunhæfa niðurstöðu endurskipulagningarinnar eður ei.   Ef spurning þessa efnis er ekki með í könnuninni verður hún algerlega marklaus.   Þessari kröfu Álftaneshreyingarinnar hefur alltaf verið hafnað, nú síðast á bæjarráðsfundi á fimmtudag, líkt og ætlun meirihlutans sé aðeins sú að fá niðurstöðu sem hægt verður að túlka sameiningu í hag.   Eins og málin standa hefði núverandi spurning allt eins geta hljóðað: „Ég er hlynntur því að allar aukaálögur sem hafa verið lagðar á íbúana verði felldar niður“.   Allir vita hvert svarið við þeirri spurningu yrði.

Nr 2 „Ef til sameiningar kæmi tel ég ákjósanlegast að sameinast:“

Ef íbúar eiga að geta myndað sér upplýsta skoðun á sameiningarmálum verða þeir að hafa einhverja hugmynd um hvað er í boði. Er eitthvert sveitarfélaganna líklegra en annað til þess að byggja hér upp nærþjónustu af einhverju tagi; matvöruverslun, bakarí, reka þjónustumiðstöð fyrir eldri borgara, byggja gerfigrasvöll, byggja nýtt mötuneyti fyrir Álftanesskóla?

Engar upplýsingar af þessum toga liggja fyrir, en hljóta þó að skipta máli þegar hakað er við nafn einhvers sveitarfélags í könnuninni. Með áðurnefndu kynningarefni um skoðanakönnunina fylgdi listi yfir þjónustugjöld nágrannasveitarfélaganna, gjöld sem eru stöðugum breytingum háð og eru hér aðeins til þess fallin að rugla lesandann í ríminu.

Ekkert nágrannasveitarfélaganna sker sig sérstaklega frá hinum, það sem er ódýrt á einum stað er dýrara á öðrum og eins og áður kom fram, að í haust er allt eins líklegt að þessar tölur breytist.

Þessi óvissuatriði undirstrika það álit Álftaneshreyfingarinnar að þessi skoðanakönnun sé með öllu ótímabær og ætti ekki að fara fram fyrr en fjárhagslegri endurskoðun á málefnum sveitarfélagsins er lokið.

Við biðjum Álftnesinga að hafa ofangreind atriði í huga þegar þeir ákveða hvort, eða hvernig þeir svara skoðanakönnun um sameiningu á morgun.

Samráðshópur bæjarmálaráðs Álftaneshreyfingarinnar 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband