Spurt um sameiningu við íþyngjandi aðstæður

500 íbúar sem hefðbundið mæta á kjörstað sniðgengu skoðanakönnun

Nú liggur fyrir að 48%, eða tæpur helmingur kosningabærra íbúa Álftaness,  svaraði því játandi, í skoðanakönnun um sameiningarmál, að sameinast öðru sveitarfélagi. Tvennt vekur athygli í könnuninni, -slök þátttaka, en aðeins um 60 % svöruðu spurningum í könnuninni, eða rúmlega 1100 kjósendur af 1777 á kjörskrá. Hefð er fyrir kosningaþátttöku á Álftanesi  u.þ.b. 90% og skakkar hér því miklu, eða um 500 atkvæðum. Margir töldu könnunina ótímabæra við þær aðstæður sem nú eru á Álftanesi, þegar íbúarnir búa við íþyngjandi skatta og niðurskurð sem meirihlutinn setti á um áramót. Óánægja var líka með að íbúunum gæfist ekki kostur á að merkja við valkostinn, „sjálfstætt Álftanes eftir fjárhagslega endurskipulagningu og afnám sérskatta og niðurskurðar“. Meirihluti bæjarstjórnar felldi tillögu um að þessi kostur yrði í könnuninni og dregur það úr gildi hennar. Álftnesingar hljóta að velta því fyrir sér hversvegna meirihlutinn vildi ekki gefa íbúunum þennan valkost! Í fyrri skoðanakönnunum um afstöðu Álftnesinga til sameiningar, hafa u.þ.b. 60% íbúanna alltaf valið sjálfstætt sveitarfélag. Telja má víst að margir hefðu valið þennan kost nú hefði könnunin boðið upp á þann valmöguleika.

Lítill munur á  Reykjavík eða Garðabæ þegar valið er milli sameiningarkosta

Hitt sem vekur athygli í könnuninni er að nær jafnmargir þátttakenda velja Reykjavík og Garðabæ sem sameiningarkost eða 34% Reykjavík, en 44% Garðabæ, -munurinn er aðeins rúm 100 atkvæði. Við fyrri sameiningarumræður hefur alltaf verið rætt um sameiningu Álftaness og Garðabæjar, enda liggja stjórnsýslumörk bæjanna saman og í aðdraganda sameiningaumræðna nú hefur meirihluti D-lista lagt sig fram um að beina sameiningarferlinu inn í Garðabæ. Bæjarfulltrúar Á-lista höfðu fyrir könnunina gagnrýnt tímasetningu hennar, þar sem ekki er lokið fjárhagslegri endurskipulagningu bæjarsjóðs. Fjárhaldsstjórn skipuð af ráðuneyti sveitastjórnamála vinnur að þessari endurskipulagningu með bæjarfulltrúum. Markmið þeirrar vinnu er að gera sveitarfélagið rekstrarfært að nýju og aflétta íþyngjandi ákvörðunum D-listans.  

Meirihlutinn neitað íbúunum um valkostinn „sjálfstætt sveitarfélag, eftir fjárhagslega endurskipulagning

Eftir að bæjarstjórn hafði ákveðið skoðanakönnunina við þessar íþyngjandi aðstæður, sérskatta og niðurskurðar,  lagði Á-listi til að í könnuninni gætu íbúar merkt við sjálfstætt Álftanes, eftir fjárhagslega endurskipulagningu. Tillaga Á-listans um þetta var felld. Álftnesingar hljóta að undrast að meirihlutinn skuli þannig hafa útilokað að íbúunum gæfist þessi sjálfsagði valkostur úr því að ekki var fallist á að fresta könnuninni. Á-listinn gagnrýndi líka að velja þyrfti milli sveitarfélaga án þess að upplýsingar lægju fyrir um hugsanlega aðkomu ólíkra sveitarfélaga að nærþjónustu á Álftanesi eftir sameiningu.  Að ókönnuðu máli töldu þó bæjarfulltrúar Á-lista, að vegna fjarlægðar við Reykjavík væri líklegra að betur yrði staðið að nærþjónustu með sameiningu við Reykjavík en t.d. Garðabæ eða Hafnarfjörð. Könnunin sýnir að þetta sjónarmið bæjarfulltrúa Á-lista hefur mikinn stuðning íbúanna.

Íbúakannanir gott stjórntæki, en gæta þarf hlutleysis í framsetningu og vali spurninga

Bæjarfulltrúar Á-lista leggja áherslu á að nú verði hraðað vinnu við fjárhagslega endurskipulagningu, en þar veltur mest á að leiðrétting fáist á jöfnunargreiðslum og að lán og skuldbindingar verði endurskipulagðar með aðkomu ríkisvalds, en beint fjárhagstjón Álftaness í efnahagshruninu er yfir 1000 milljónir. Komi til sameiningaviðræðna eftir þá endurskipulagningu dugar ekki að ræða við Garðabæ, heldur þarf jafnframt að taka upp viðræður við Reykjavík. Þegar  tekið er tillit til slakrar  þátttöku, íþyngjandi aðstæðna, ónógum valmöguleikum spurninga og því að 25% þátttakenda svara ekki spurningunni um sameiningu játandi, er ljóst að niðurstöður skoðanakönnunarinnar um vilja til sameiningar eru ómarktækar. Bæjarfulltrúar Á-lista  vilja þó undirstrika að skoðanakannanir og íbúakosningar séu mikilvægt stjórntæki til að leita eftir sjónarmiðum íbúa í stórum málum. En þá þurfi að gæta hlutleysis í framsetningu spurninga og tryggja að þær kalli fram sem flest sjónarmið.

 

Kristín Fjóla Bergþórsdóttir og Sigurður Magnússon,

bæjarfulltrúar Á-lista á Álftanesi

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband