Ótti og innantómt hjal Sjálfstæðismanna á Álftanesi

TryggviNú nýverið sendu Sjálfstæðismenn á Álftanesi bækling um stefnumál sín inn á hvert heimili. Þar er vitaskuld í meginatriðum um innistæðulaust hjal að ræða sem finna má hjá flestum framboðum á landsvísu: Þeir eru á móti einelti í skólanum, vilja auka forvarnarstarf, stuðla að atvinnurekstri í sveitarfélaginu, fjölga sorpílátum, bjóða upp á hollan mat í skólanum, byggja upp nýjan golfvöll, leysa skuldavanda sveitarfélagsins með samningum, sameinast öðru sveitarfélagi í sátt við íbúana og fleira. Þetta eru allt saman hin ágætustu mál sem ekki er þó sérstaklega útskýrt hvernig á að framkvæma. Ein greinin vakti þó athygli mína og var það pistillinn um fræðslu- og uppeldismál. Þótt margar hugmyndir þar séu ágætar, og má m.a. lesa útfærslu sumra þeirra í nýrri skólastefnu sem Álftaneshreyfingin lét vinna á síðasta kjörtímabili, var eitt atriði sem vonandi var sett fram af þekkingarleysi á málaflokknum. Það var hugmyndin um að fella Tónlistarskóla Álftaness inn í grunnskólann. Að ætla sér að fella tónlistarskóla, hvers starfsemi er ekki lögbundin, inn í stofnun sem sinnir lögboðinni kennslu, sérstaklega á tímum aðhalds og niðurskurðar, er vanhugsuð hugmynd í meira lagi og mun að öllum líkindum ganga af Tónlistarskólanum dauðum, ef núverandi niðurskurður verður ekki búinn að taka af Sjálfstæðismönnum ómakið. Tónlistarskóli Álftaness verður að halda sjálfstæði sínu ef hann á að lifa. Þó að þessi umrædda grein hafi vakið athygli mína var það fremur skortur á öðrum sem varð kveikjan að þessari grein. Um árabil hefur Álftaneshreyfingin vakið athygli á að hið barnmarga samfélag okkar, samhliða fátæklegum tekjustofnum, hafi ekki notið sanngjarnrar úthlutunar frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Álftaneshreyfingin lét vinna vandaða skýrslu sem rökstuddi mál hennar og fylgdi kröfu um að úthlutunin yrði hækkuð. Halda mætti að öll bæjarstjórnin myndi standa saman þegar að kæmi að því að útvega fé í fjárvana sveitarfélag, en því var ekki að skipta. Sjálfstæðismenn gerðu lítið úr þessari kröfu, afgreiddu hana með háði og spotti og fengu utanaðkomandi aðila til að draga úr áreiðanleika umræddrar skýrslu. Nú hefur rannsókn Ríkisendurskoðunar leitt það í ljós að krafa Álftaneshreyfingarinnar á hendur Jöfnunarsjóði sveitarfélaga var og er réttmæt og eftir stendur aðeins að Sjálfstæðismenn stóðu gegn því að sveitarfélagið Álftanes gæti aflað meiri tekna á erfiðum tímum, tekna sem hefðu jafnvel getað skipt milljónatugum árlega. Í raun skiptir upphæðin engu máli. Sjálfstæðismenn lögðust einfaldlega gegn því að sveitarfélagið aflaði meiri tekna. Ekki er minnst einu orði á Jöfnunarsjóð sveitarfélaga í nýjum bæklingi, sennilega til þess að tvískinnungshátturinn i þessu máli komist ekki í hámæli. Annað atriði sem er listilega sneitt hjá í umræddum bæklingi er sú staðreynd að Álftaneshreyfingin stefndi að byggingu menningar- og náttúrufræðiseturs og eru tvö ráðuneyti þegar búin að undirrita viljayfirlýsingu um að koma að rekstri þessa húss. Álftaneshreyfingin hefur hvatt til þess að ríkið kaupi lóð undir umrætt menningar- og náttúrufræðisetur, þótt bygging þess tefðist um einhver ár og færi á þann hátt tekjur í tóman kassann. Sjálfstæðismenn tala í bæklingi sínum um að þeir möguleikar sem sveitarfélagið hafi upp á að bjóða í menningu og afþreyingu verði nýttir til atvinnusköpunar, en forðast að minnast á að tækifærið er nú þegar fyrir hendi og stendur rétt við bæjardyrnar. Ég get ekki orða bundist yfir hræðslu Sjálfstæðismanna á Álftanesi við Sigurð Magnússon, oddvita Á-listans. Í lok kosningabaráttu sinnar, þar sem flaggað er því slagorði að ekki skuli nú láta fortíðina flækjast fyrir, heldur horfa til framtíðar, grafa menn upp tæplega ársgamalt mál og kæra Sigurð Magnússon fyrir brot á stjórnsýslulögum. Eftir allan þennan tíma telja menn þessa tímasetningu rétta og virðist kæran frekar vera sett fram í einhverju fýlukasti yfir því að Ríkisendurskoðun hefur ekki skilað af sér skýrslunni, heldur en af einhverjum haldbærum ástæðum. Víst er það slæmt að skýrsla Ríkisendurskoðunar hefur ekki borist, en taka verður með í reikninginn að tafirnar má að hluta rekja til bæjarskrifstofanna á Bjarnastöðum, því að í ljós kom að mörg þeirra gagna sem bæjarfulltrúar Álftaneshreyfingarinnar vísuðu til í rökstuðningi sínum höfðu einhverra hluta vegna ekki borist til embættis Ríkisendurskoðunar, örugglega vegna mistaka. Sökin á biðinni liggur því ekki einvörðungu hjá Ríkisendurskoðun, heldur einnig hjá hinum háu herrum á Bjarnastöðum.Tryggvi M. Baldvinsson 4. sæti Á-listans

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband