Stóryrði og sleggjudómar!

KFB

Kristín Fjóla Bergþórsdóttir skrifar:

Lítið sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu hefur undanfarnar vikur verið á milli tannanna á fólki og í fjölmiðlum og setið undir stóryrðum og sleggjudómum. Umræðan hefur einkennst af þekkingarskorti og klisjum. Kannski má á vissan hátt segja að það sé ekki skrýtið, því að það sem einu sinni fer af stað er erfitt að stoppa.

Eins og flest önnur sveitarfélög í landinu vorum við með hluta af lánasafni okkar í erlendri mynt, - enda voru það þær ráðleggingar sem sveitarfélög, líkt og einstaklingar og fyrirtæki, fengu hjá lánastofnunum. Á sama hátt og efnahagshrunið skall af fullum þunga yfir heimili og fyrirtæki í landinu skall það einnig af fullum þunga yfir sveitarfélögin í landinu. Þau, eins og heimilin og fyrirtækin voru vissulega misjafnlega vel í stakk búin til að taka við slíku áfalli.

Ungu barnmörgu sveitarfélagi, sem er án atvinnulífs og hefur því ekki aðra tekjustofna en skatttekjur af íbúum sínum, má á vissan hátt líkja við unga barnmarga fjölskyldu sem ekki hefur annað en dagvinnulaun á milli handanna. Slík fjölskylda má ekki við miklum fjárhagslegum áföllum.

Í efnahagshruninu tapaði sveitarfélagið Álftanes um 1.000 milljónum króna, sem er nánast sama upphæð og árlegar tekjur þess. Það þarf ekki að hugsa sig lengi um til að svara því hvernig fer fyrir fjölskyldu, sem af einhverjum ástæðum tapar því sem nemur árlegum tekjum hennar!

Hátt hefur verið talað um hina glæsilegu sundlaug á Álftanesi og hún sögð hafa "sett sveitarfélagið á hausinn" , en bygging hennar var samþykkt samhljóða í bæjarstjórn í desember 2006. Það sem fyrst og fremst gerir sundlaugina á Álftanesi frábrugðna öðrum sundlaugum, og um leið eftirsóknarverðari, er hæðin á rennibrautinni og öldulaugin, en hún er sú eina sinnar tegundar á landinu. Margir kunna eflaust að halda að það sé einmitt þessi "lúxus" sem orsakað hafi vandann á Álftanesi, og því er rétt að upplýsa það hér að kostnaður við tæknibúnað öldulaugarinnar og hækkun á rennibrautarturni úr 7 metrum í 10 var u.þ.b. 15-20 milljónir króna.

Aðdráttaraflið er hins vegar óumdeilt og gestir sundlaugarinnar í lok síðasta sumars, -eftir að sundlaugin hafði verið opin í rúma þrjá mánuði, voru orðnir hátt í 50 þúsund. Gert hafði verið ráð fyrir að um 60 þúsund gestir heimsæktu sundlaugina árlega, og var sú spá af mörgum talin óhóflega bjartsýn. Nú stefnir hins vegar í að sú tala nálgist 100 þúsund.

Það sem ég hins vegar vil benda á og tel umhugsunarvert, er það að bygging þessarar glæsilegu sundlaugar kostaði tæpan milljarð, sem nánast er sama upphæð og sveitarfélagið tapaði í efnahagshruninu vegna erlendra lána.

Hvers vegna talar enginn um að efnahagshrunið hafi "sett sveitarfélagið á hausinn"? Er það vegna þess að það er of satt? Eða er það kannski ekkert fréttnæmt?

Það er sorglegt að umfjöllun um svo alvarlega hluti skuli ekki geta verið málefnaleg og byggð á staðreyndum í stað þess að byggjast á stóryrðum, klisjum og sleggjudómum.

Kristín Fjóla Bergþórsdóttir, bæjarfulltrúi Á-lista á Álftanesi

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband