Vandinn 4 milljarðar en ekki 7

Kristín Fjóla Bergþórsdóttir og Sigurður Magnússon skrifa:

Þessa dagana er mikil umræða um fjárhagsvanda Álftaness og í öllum fréttum er talað um að skuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins séu um 7 milljarðar samkvæmt skýrslu sem Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga lét gera og hinn nýji „starfhæfi meirihluti" D-listans hefur ekki séð ástæðu til að gagnrýna, -enda úttektin unnin í nánu samráði við bæjaryfirvöld og þannig lituð af skoðunum meirihlutans, sem skortir trú á framtíð Álftaness. Nú hefur Eftirlitsnefndin í framhaldi samstarfs við meirhlutann um tillögugerð þar sem áhersla er lögð á skattahækkanir, stórfelldan niðurskurð þjónustu, gert tillögu um að sveitarfélaginu verði skipuð fjárhaldsstjórn. Af því tilefni þykir okkur rétt að skýra okkar sjónarmið.

Við viljum ekki gera lítið úr vanda Álftaness, en teljum rangt að mála aðstæðurnar dekkri litum en ástæða er til. Það auðveldar ekki lausn mála og við höfum gert athugasemdir við þessa framsetningu.

Bæði að þær skuldir og skuldbindingar sem þarf að glíma við og endurskipuleggja séu sagðar um 7 milljarðar, þegar réttara er að þær séu rúmir 4, -á þessu er megin munur. Hærri talan knýr á um sameiningu við annað sveitarfélag á meðan lægri upphæðin er viðráðanleg ef Álftanes fær réttláta leiðréttingu sinna mála.

Varðandi þá skoðun okkar að réttara sé að tala um vanda upp á 4 milljarða fremur en 7 eru það einkum þrjú atrið sem við teljum að hefði átt að setja fram á annan hátt, og ekki látið nægja að horfa á skuldir og skuldbindingar einar sér, heldur að meta fremur peningalega stöðu. Þannig verður myndin af vandanum skýrari.

1. Samningar við Búmenn hsf. og Ris ehf. vegna framkvæmda í grænum miðbæ sem fóru af stað á liðnu sumri, upp á 1.2 milljarða eru taldir með skuldum og skuldbindingum, -án allra útskýringa.
Áður en bæjarstjórn tók ákvörðun um þessar framkvæmdir var kallað eftir sérfræðiáliti um áhrif þeirra á bæjarsjóð. Þar segir að samhliða skuldbindingunni fái bæjarsjóður nýjar tekjur af mannvirkjum og nýjum íbúum.
Vegna þjónustumiðstöðvar aldraðra, sem er hluti af framkvæmdinni, fær bæjarsjóður líka styrk frá Framkvæmdasjóði aldraðra, auk þess sem hluti leiguskuldbindingarinnar verði yfirfærður á þriðja aðila.
Í niðurstöðum þessa sérfræðiálits kemur fram að hagnaður og hagræði bæjarsjóðs af skuldbindingunni sé hærri en skuldbindingin sjálf og því muni þessi ákvörðun styrkja stöðu bæjarsjóðs. Í fjárhagsúttekt Eftirlitsnefndarinnar er þessara staðreynda hvergi getið og núverandi bæjaryfirvöld hafa ekki séð ástæðu til að leiðrétta, -enda virðast þau stefna á það eitt að stöðva framkvæmdir á miðsvæðinu, valda bæjarsjóði milljóna tjóni og henda frá sér framtíðar tekjum.

2. Skammtímaskuldir eru sagðar tæpir 1.4 milljarðar, en þess er ekki getið að bæjarsjóður á rúmar 600 milljónir í skammtímskröfum til að mæta þessu. Því er réttara að segja að skammtímaskuldir séu 800 milljónir.

3. Skuldbinding vegna leigu íþróttamannvirkja af Fasteign ehf. eru sagðir 3 milljarðar og er þá miðað við núvirta leiguskuldbindingu til 30 ára. Þessir útreikningar miðast við leigukjör á árinu 2009, en ekki við þá staðreynd að leigan lækkaði um síðustu áramót. Búið var að samþykkja í bæjarstjórn Álftaness og stjórn Fasteignar breygingu á leigusamningi vegna lóðar íþróttamannvirkjanna, en þessi breyting fól í sér 12% lækkun leigunnar út leigutímann. Stjórn Fasteignar hafði jafnframt ákveðið 28.3% lækkun leigunnar um síðustu áramót til Álftaness, eins og annarra leigutaka sinna. Það lá því fyrir, þegar skýrslan var gerð, að leiga myndi lækka um rúm 40% um áramót. Væri tekið tillit til þessa, sem ekki er gert í skýrslunni, lækkar núvirt leiguskuldbinding úr 3 milljörðum í 1.8. Rétt er að geta þess að ákvörðun stjórnar Fasteignar um 28.3% lækkun leigunnar er ákveðin til 12 mánaða og á þá að endurskoðast. Lækkunin er fyrst og fremst vegna þess að það tókst að semja um lægri millibankavexti fyrir hluta af lánasafni Fasteignar. Framkvæmdastjóri Fasteignar hefur látið hafa eftir sér að hann vonist til þess að þessi lækkaða leiga geti að 12 mánuðum liðnum verið framlengd og leigusamningum breytt í samræmi við það. Hann hefur sagt að vissulega kunni millibankavextir að hækka eitthvað aftur, en á móti komi áætluð hægfara styrking krónunnar sem mæti þá slíkri hækkun.

Við mat á fjárhag Álftaness kýs Eftirlitsnefndin að mála aðstæður dekkstu litum og gera ekki ráð fyrir hægum efnahagsbata í þjóðfélaginu þrátt fyrir það að landsstjórnin í áætlunum sínum fyrir þjóðarbúið geri ráð fyrir slíkum hægum bata. Þetta mat nefndarinnar er í takt við áherslur nýs meirihluta D-lista á Álftanesi. Þetta viðhorf einkennir mat þeirra á framkvæmdum í miðbæ Álftaness og mat þeirra á öðrum framtíðarskuldbindingum sveitarfélagsins.

Við erum ósammála þessu viðhorfi. Það stangast á við þær áætlanir ríkisvaldsins að eftir 2010, -jafnvel síðla þess árs taki við nýtt ferli hægs efnahagsbata og hagvaxtar. Við teljum eðlilegt að sveitarfélögin fylgi hliðstæðri áætlunargerð. Aldrei hefur verið brýnna en nú að þjóðin efli með sér trú og kjark í stað bölmóðs og svartsýni.
Meirihluta Á-lista tókst á liðnu sumri, -þegar nágrannasveitarfélögin þurftu að taka á móti lóðaskilum, að selja byggingarrétt fyrir rúmar 400 milljónir. Nýr meirihluti hyggst nú skila þessu fé og stöðva framkvæmdir með tilheyrandi kostnaði og skaðabótakröfum framkvæmdaaðila. Þau hafa því valið leið uppgjafar í stað viðreisnar og nýsköpunar.

Þær tillögur að niðurskurði og skattaálögum sem bæjarstjórn hefur ákveðið að fara og sett fram í samningum við Efitirlitsnefndina eru að okkar mati ófær leið og mun á skömmum tíma eyðileggja samfélag á Álftanesi. Viðbótar skattaálögur munu því ekki skila sér í bæjarsjóð eins og D-listinn er að áætla, því þeir sem geta munu eflaust flýja þessar aðstæður og þannig munu tekjustofnar rýrna.

Vissulega er vandinn mikill og erfiður viðfangs, en þrátt fyrir það teljum við að til séu aðrar leiðir, sem hlífa grunnþjónustu í samfélaginu, og höfum við því til rökstuðnings lagt fram tillögur okkar að fjárhagsáætlun í bæjarstjórn. Tillögur okkar gera ráð fyrir u.þ.b. 100 milljón króna hagræðingu í stað 300 milljónum hjá meirihlutanum, leiðréttingu á jöfnunargreiðslum, hægri uppbyggingu og endurskipulagningu lánasafns. Tillögur okkar eru vandaðar og vel rökstuddar. Þær hafna óhóflegum niðurskurði, sérsköttun á íbúana og byggjast á framtíðarsýn.

Kristín Fjóla Bergþórsdóttir er bæjarfulltrúi Á-lista og Sigurður Magnússon er bæjarfulltrúi Á-lista og fyrrverandi bæjarstjóri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband