Þriðjungur fundarmanna stappaði niður fótum á íbúafundi
10.2.2010 | 14:08
Mynd Ómars Óskarssonar frá íbúafundinum, á MBL
Kristinn Guðmundsson skrifar:
Mælikvarði á fylgi D-lista á Álftanesi?
Haldinn var íbúafundur 17. desember til að kynna Álftnesingum fjárhagsstöðu Sveitarfélagsins Álftanes. Undirbúningur fundarins og dagskráin var ákveðin án nokkurs samráðs við minnihluta bæjarstjórnar. Eðlilegt hefði verið að bæjarstjórn stæði saman að kynningunni. Fyrrum bæjarstjóri Sigurður Magnússon fór fram á það við fundarstjóra að hann fengi 10 mínútur til að kynna athugasemdir minnihlutans á eftir kynningu bæjaryfirvalda og fulltrúa Eftirlitsnefndar sveitarfélaganna, en síðarnefndir aðilar tóku sér klukkustund í upphafi fundarins. Þetta samþykkti fundarstjórinn, en viðbrögð stórs hóps sjálfstæðismanna í salnum voru að standa þá upp og ganga til dyra með háreistum og stappa þar niður fótum. Þetta kom í sjálfu sér ekki á óvart. Þessir aðilar ekki verið þekktir fyrir kurteisi í gagnrýni sinni á bæjarfulltrúa Á-lista, sem tóku af þeim völdin með naumum meirihluta í síðustu sveitarstjórnakosningum. Frá þeim tíma hefur Á-listinn unnið að krafi að þeim markmiðum sem kynnt voru í upphafi, þ.e. að búa í haginn fyrir atvinnurekstur á nesinu sem fellur að sérstöðu sveitarfélagsins. Þessi þróun hefur mælst vel fyrir í samfélaginu, en virðist ekki höfða til hóps íhaldsmanna sem kannski sjá ofsjónum að í þessu er boltanum ekki bara varpað til einkareksturs og beðið eftir því sem verða vill. Þeim hlýtur þó að vera ljóst að það þarf að koma fleira til en útsvar og fasteignagjöld til að sveitarsjóður geti staðið undir þjónustu við íbúana eins og er almennt í boði í nágrannasveitarfélögunum og uppbyggingu á viðeigandi aðstöðu sem fjölgun íbúa krefst.
Eftir nefndan íbúafund var á forsíðu Morgunblaðsins greint frá fundinum og réttilega sagt að þessi órólegi hópur sjálfstæðismanna var um þriðjungur fundarmanna. Væntanlega gefur atburðurinn góða vísbendingu um fylgi D-listans í komandi sveitarstjórnarkosningum.
Kristinn Guðmundsson er fulltrúi Álftaneshreyfingarinnar í skipulags- og byggingarnefnd
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:16 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.