Skýrslan, sem afhent var Jöfnunarsjóði sveitarfélaga fyrir tæpu ári

KGKristinn Guðmundsson skrifar:

Hér neðanmáls má nálgast skýrsluna sem svo oft hefur verið vitnað til í greinum og ræðum undanfarið um þann ójöfnuð sem Álftnesingar hafa búið við, alla vega frá aldamótum. Skýrslan, sem unnin var af starfsmönnum Sveitarfélagsins Álftanes í byrjun árs 2009, er ítarleg og gagnmerk úttekt á hlutfallslegum útgjöldum til fræðslumála á Álftanesi miðað við önnur sveitafélög. Það hefur verið fundið að skýrslunni að víða er komið við í samanburðinum, en það gerir jafnframt samanburðinn sterkari og styður við þá niðurstöðu að reiknireglur Jöfnunarsjóðsins ná ekki að taka tillit til aðstæðna á Álftanesi með sanngjörnum hætti. - Núgildandi úthlutunarreglur Jöfnunarsjóðsins miða við að leiðrétta þann aðstöðumun sem skapast út á landsbyggðinni þegar tekjur dragast saman vegna brottflutnings íbúa og hækkandi meðalaldurs. Það er því kaldhæðnislegt að reglurnar ná ekki utan um þann vanda sem getur skapast í litlu ört vaxandi samfélagi eins og á Álftanesi, aðlaðandi byggð sem ungar barnafjölskyldur utan að landi velja gjarnan til búsetu í nágrenni við fjölbreytt atvinnutækifæri á höfuðborgarsvæðinu. Andvaraleysi sveitarstjórnarmanna á Álftanesi hefur fyrst og fremst verið það að tryggja ekki að byggja upp atvinnurekstur í byggðinni og fjölga þannig tekjustofnum, því það hefur verið vitað allar götur frá því að fræðsla skólabarna var færð á hendur sveitarsjóða að útsvar og fasteignaskattar duga ekki til reksturs og uppbyggingar aðstöðu til að gegna skyldunni. Það er hins vegar stjórnarskrárbundin og lögvarin skylda ríkisins að þessi skylda skuli innt af hendi og fyrir hana greitt.

Það var á stefnuskrá Á-listans fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar að beita sér fyrir því að koma rekstri sveitarfélagsins upp úr þeim hjólförum sem fylgt hafði verið frá því að landbúnaður var aðalatvinna íbúa á Álftanesi. Staðan var orðin afar þröng, búið að selja nær allar eigur sem sveitarfélagið gat selt og lán tekin fyrir því sem upp á vantaði til þeirrar uppbyggingar sem hafði átt sér stað.  Því var ljóst, og þótti ekki gagnrýni vert þá, að til að skapa aðstæður fyrir atvinnurekstri sem gæti síðar styrkt stöðu sveitarsjóðsins þyrfti að auka skuldabyrgðina tímabunið. Forsendur þessarra ákvarðana breyttust, eins og allir skilja sem vilja, með bankahruninu. 

Skýrslan, sem hér er gerð aðgengileg, var kynnt á viðeigandi aðilum vorið 2009. Krafa Álftnesinga nú er að það þurfi að breyta reiknireglum Jöfnunarsjóðs og leiðrétta þann ójöfnuð sem þeir hafa þurft að búa við. Það ætti að vera forgangsverkefni að svara þessari vel undirbyggðu og sanngjörnu kröfu, því fyrr en það hefur verið gert er ekki viðeigandi að ráðskast með sjálfstæði sveitarfélagsins og deila á ákvarðanir um að byggja upp af myndarskap viðeigandi aðstöðu í samfélaginu til að sinna þjónustuhlutverki sínu og viðleitni til að skapa atvinnurekstur á Álftanesi, atvinnu sem samrýmist gildandi aðalskipulagi fyrir Álftanes og framtíðarsýn íbúanna um vernd nærumhverfis og fjölbreyttrar náttúru.

Kristinn er fulltrúi Á-listans í skipulags- og byggingarnefnd


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband