Vinnubrögð „hins starfhæfa meirihluta“
5.3.2010 | 01:10
Kristín Fjóla Bergþórsdóttir skrifar:
Vinnubrögð hins starfhæfa meirihluta" á Álftanesi, -eins og hann sjálfur kýs að kalla sig, eru fráleit í þessu, - eins og því miður svo mörgu öðru. Það er fullkominn dónaskapur við íbúa á Álftanesi að upplýsa þá um að þeim sé ætlað að taka þátt í skoðanakönnun um sameiningu sveitarfélagsins við annað sveitarfélag með rúmlega sólarhrings fyrirvara.
Ekki nóg með það, heldur neitar hinn starfhæfi meirihluti" að leyfa Álftnesingum að velja þann kost að vilja búa í sjálfstæðu sveitarfélagi, - ef fjárhagsleg endurskipulagning sem nú er unnið að og samningar við ríkisvald leiða til þess að sveitarfélagið geti verið sjálfbært og hægt sé að aflétta aukanum sköttum og hverfa frá niðurskurði.
Spurningarnar sem hinn starfhæfi meirihluti" ætlar að leggja fyrir íbúana þættu í besta falli ágætlega unnar af menntaskólanemum!
Auglýsingin sem send var Álftnesingum inn um lúguna í kvöld er talandi dæmi um metnaðar- og virðingarleysi hins starfhæfa meirihluta". Meðfylgjandi auglýsingunni er ljósrituð gjaldskrá nágrannasveitarfélaganna, -þar sem borin eru saman epli og appelsínur- og fólki ætlað að notast við hana til að velja sér sveitarfélag til sameiningar!!!
Heldur hinn starfhæfi meirihluti" að fólki sé alveg sama hvað verður um það, bara ef það borgar minna? Já, það er einmitt það sem á að keyra á núna. Nú á að stilla fólki upp við vegg og láta það velja; annarsvegar að búa skattpínt og niðurskorið á Álftanesi eða, að öðrum kosti, að sameinast því sveitarfélagi sem er með lægsta gjaldskrána! Hvað heldur hinn starfhæfi meirihluti"?
Vissulega er fólk reitt yfir þeim álögum og niðurskurði sem það situr uppi með, en það þarf enginn að segja mér að því sé samt sama hvað verður um það. Heldur hinn starfhæfi meirihluti" að ekki þurfi að upplýsa íbúa um aðra kosti nágrannasveitarfélaga okkar en gjaldskrár, -sem auk þess geta breyst á nokkurra mánaða fresti og eru því ekkert loforð um betri tíð með blóm í haga! Heldur hinn starfhæfi meirihluti" að það skipti engu máli hvaða sveitarfélag er tilbúið að veita okkur þá þjónustu sem við óskum, og heldur hinn starfhæfi meirihluti" að engu máli skipti hvaða sveitarfélag er tilbúið að halda áfram uppbyggingu á Álftanesi í samræmi við fyrirliggjandi áætlanir og heldur hinn starfhæfi meirihluti" að ekki þurfi að tryggja náttúruverndarsjónarmið Álftnesinga. Heldur hinn starfhæfi meirihluti að hann geti bara komið fram við Álftnesinga eins og honum sýnist"?
Nei, -nú hafa Álftnesingar sýnt það enn og aftur að þeir láta ekki bjóða sér hvað sem er og hafa í hundraðatali skrifað undir mótmæli við auknum sköttum og niðurskurði til yfirvalda. Þessir sömu íbúar hafa margir hverjir talað um að ekki sé tímabært við þær aðstæður sem nú eru á Álftanesi að láta íbúana taka afstöðu til sameiningar, -og það er einmitt það sem er svo rangt. Að stilla íbúum upp við vegg við þessar aðstæður, -án þess að upplýsa um þá ólíku kosti sem sameining við einstök sveitarfélög hefur.
Það er algjörlega óábyrgt af "hinum starfhæfa meirihluta" að gera slíka skoðanakönnun nú, þegar aðstæður á Álftanesi eru með þeim hætti að þær kunna að knýja íbúa til að velja fremur sameiningu en sjálfstætt sveitarfélag.
Kristín Fjóla er bæjarfulltrúi Á-lista
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:49 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.