Krafa um sanngirni - í stað sleggjudóma og ráðaleysis
6.3.2010 | 11:53
Kristinn Guðmundsson skrifar:
Skoðanakönnun
Bæjarstjórinn boðar Álftnesinga til skoðanakönnunar um sameiningarmál á Álftanesi, samhliða þjóðaratkvæðagreiðslu um ICESAVE samninginn, laugardaginn 6. mars. Eins og lesa má annars staðar hér ávefsíðunni, er margt athugavert við framkvæmdina og framsetningu spurninganna, en ég vil undirstrika að það er viss hætta á að niðurstaðna úr könnuninni verði notuð til annars og meira en að fá hugmynd um afstöðu Álftnesinga til sameiningar og hvaða sveitarfélag þeim hugnast best að sameinast. Þetta segi égaf því að ráðherra samgöngumála hefur lagaheimild, meðan fjárhaldsnefnd er skipuð yfir sveitafélaginu, til að ákveða einhliða að sameina Álftanes við annað sveitarfélag, svo fremi það samþykki að taka við rekstrinum. Ekki er víst að allir viti þetta, enda ekki haldið á lofti af meirihluta bæjarstjórnar - frekar en öðru bitastæðu er varðar sameiningarferli. Ætla má að slík ákvörðun, réttlætt með tilvísun í niðurstöðu skoðanakönnunarinnar, kæmi í bakið á mörgum Álftnesingum.
Um sameiningu eða innlimun
Það er rétt að byrja á því að segja að ég hef verið talsmaður sameiningar sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Núverandi stjórnarskipulag er ófullnægjandi og stendur í vegi fyrir ýmsum góðum framfaramálum. Fjárhagsleg hagræðing yrði án efa ávinningur - lóð á vogarskálina við mat á sameiningaráformum fyrir sveitarfélögin áhöfuðborgarsvæðinu, - en ekki aðal hvati breytinga.
Framangreind skoðun breytir því ekki að ég tel ótímabært að innlima samfélagið á Álftanesi í nágrannasamfélag. Slík ákvörðun lagar ekki stöðuna í ofangreindu samhengi og það ætti að vera forgangsatriði að vinna samkvæmt áætlun um styrkingu tekjustofna, með uppbyggingu á atvinnustarfsemi innan sveitarfélagsins, í stað þess að fela vandann. Sameining án breytingar gerir samfélagið á Álftanesi ekki að fjárhagslega sjálfbærri einingu og leiðir aðeins til þess að Álftnesingar verða háðir fyrirgreiðslu og fjárstreymi frá einum sveitarsjóði, í stað nauðsynlegrar jöfnunar á aðstöðumun úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á landsvísu. Að óbreyttu yrði því sameining hæpin hagræðing og varla æskileg fyrir nágrannana sem tækju við rekstrinum og öllu sem út af ber.
Auk framangreinds er óásættanlegt fyrir Álftnesinga annað en að fá fyrst réttmæta afgreiðslu á framlagðri kröfu um leiðréttingu vegna vanmats á greiðslum úr Jöfnunarsjóðnum á undangengnum árum. Krafan, sem var kynnt fyrir hart nær ári síðan, var vandlega rökstudd eins og sjá má í skýrslu sem fylgir annarri færslu hér á bloggsíðunni, sem dagsett er 26. febrúar s.l. Fulltrúar Á-listans hafa endurtekið vakið athygli á þessu á fundum bæjarstjórnar og bæjarráðs, og í blaðagreinum, eins og sjá má á hér á síðunni og í fundargerðum. Samkvæmt ofangreindri skýrslu má ætla að reikniregla Jöfnunarsjóðsins uppfylli ekki markmið sjóðsins, þ.e. að jafna aðstöðumun sveitarfélaga til þjónustu við íbúa landsins, né heldur að framfylgja stjórnarskábundinni og lögvarinni skyldu ríkisins til að jafna aðstöðumun varðandi lögboðna þjónustu, m.a. grunnskólamenntun barna í sveitarfélögum landsins. Þegar afgreiðslu kröfunnar er lokið geta Álftnesingar verið með í sameiningarviðræðum, sem byggja á skynsemi og bitastæðum rökum.
Stöðumat
Lengi var eins og Álftnesingar væru lamaðir af öllu því sem á hefur gengið í vetur, eða vildu bara þegjandi láta aðra taka við okinu. Þögnin í sveitinni var óhugnanleg, meðan stanslaust var hamrað á sleggjudómum í fjölmiðlunum og vitanað í ósanngjarnar yfirlýsingar margra ráðamanna. Því varð ég þeirri stundu fegnastur er upp risu Hagsmunasamtök íbúa á Álftanesi sem ætla að verjast niðurskurði og óverðskulduðum hækkunum gjalda. Framtakið vakti á ný trú mína um að rödd Álftnesinga muni heyrast og sanngjarnar kröfur eigi eftir að ná til viðeigandi aðila, svo eftir verði tekið.
Álftnesingar eiga sér fallega drauma umframtíð samfélagsins á nesinu og sérstöðu þess. Ef einhvern tíman er ástæða til að standa vörð um þá sýn er það nú, meðan umbrotatímar eru að ganga yfir. Á ríður að spilla ekki framtíðardraumunum meira en orðið er og varast yfirgang. Minnumst þess að á Álftanesi eru vannýttir möguleikar, sem felast í hæfileikaríku og virku fólki og sérstöðu hvað varðar fallega náttúru og spennandi söguminjar, verðmæti sem bæði Álftnesingar og aðrir íbúar áhöfuðborgarsvæðinu ættu að sjá sér hag af að vernda. Það er ekki sjálfgefið að treysta öðrum fyrir þessu fjöreggi, á það er ég minntur í hverri ferð minni umÁlftanesveginn.
Kristinn Guðmundsson, fulltrúi Álftaneslistansí skipulags- og byggingarnefnd
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.5.2010 kl. 16:56 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.