Sjálfstæðisflokkurinn á Álftanesi
7.3.2010 | 17:45
Frá árinu 1995 höfum við hjónin búið á Álftanesi og líkað það vel. Við erum bæði launþegar svo skattar og gjöld eru greidd samviskusamlega af öllum okkar launum, líka til bæjarfélagsins hér á Álftanesi. Þrátt fyrir að vera aðeins tvö í heimili og hafa hvorki þörf fyrir barnagæslu, skóla, heimilishjálp eða annað það sem hér er í boði þá þýðir það ekki að við séum ekki tilbúin til að leggja eitthvað af mörkum til samfélagsins.
Fyrir tveimur árum hélt ég námskeið fyrir lítinn hóp fólks og fékk Haukshús lánað endurgjaldslaust í nokkur skifti til þess. Á þeim tíma var mér tjáð að íbúar Álftaness gætu fengið Haukshús lánað endurgjaldslaust fyrir námskeið en leiga væri rukkuð ef beðið væri um húsið fyrir veisluhöld. Þetta virtist gott fyrirkomulag og í húsinu hefur verið yogakennsla 2svar í viku um árabil.
Nú á haustdögum 2009 tóku Sjálfstæðismenn aftur við stjórn hér á Álftanesi. Það gerðist á svipuðum tíma og ég fékk úr prentun bók sem ég hafði dundað við að skrifa í frístundum mínum um vedíska stjörnuspeki. Þrátt fyrir að vedísk stjörnuspeki sé ævaforn þá hefur fram að þessu engin bók komið áður út á íslensku um efnið. Af þeim sökum ákvað ég eftir áramótin að fylgja bókinni svolítið eftir með frírri kynningu/námskeiði um efnið.
Ég sótti um afnot af Haukshúsi í 4 klukkustundir á laugardegi, eða frá kl. 13-17 þann 30.janúar 2010. Svar barst frá bæjarskrifstofunni á þá leið að ég gæti fengið húsið leigt fyrir 10.000 kr. sem þýddi í raun 2.500 kr. á tímann. Þetta var svo fáránlegt að ég leitaði í næsta bæjarfélag og fékk þar fínan sal, til frírra afnota og var húsfyllir á kynningunni. Reyndar var ég fegin svona eftir á, því allt þetta fólk hefði aldrei komist fyrir í Haukshúsi sem er lítill, gamall sumarbústaður. Eftir þessa kynningu hafa þó nokkrir haft samband við mig og spurt um framhald. Ég leitaði aftur eftir húsnæði hér á Álftanesi, í þetta sinn bað ég um afnot af Vallarhúsinu en fékk sama svar. Húsið væri ekki lánað, bara leigt. (hefur reyndar aldrei verið leigt út mér vitandi, heldur stendur autt öll kvöld og allar helgar)
Hvað eru Sjálfstæðismenn að hugsa? Er það vilji Sjálfstæðismanna að hrekja burt þá sem vilja miðla þekkingu sinni eða er það vina og vandamannastefnan sem ræður ríkjum eina ferðina enn? Það kemur að minnsta kosti upp í hugann hvað varðar yogakennsluna í Haukshúsi, því þrátt fyrir að yogakennarinn sé búsettur í öðru bæjarfélagi og borgi engin gjöld til Álftaness, þá hefur kennarinn frí afnot af Haukshúsi. Er ástæðan sú að einhverjar Sjálfstæðiskonur sækja yogatíma? Eða er kennarinn félagsbundin í Sjálfstæðisflokknum? Hvar er jafnréttið? Það ríkti þó jafnrétti hér á Álftanesi í tíð Álftaneshreyfingarinnar. Er það virkilegt að Sjálfstæðismenn telji að það sé betra að láta húsnæði í hreppnum standa autt á kvöldin og um helgar ef ekki fáist peningar í kassann fyrir afnot, fremur en að fólk búsett hér í hreppnum fái að njóta þess að nota sameiginlegt húsnæði undir fjölbreytt námskeið fyrir alla þá sem vilja auka þekkingu sína. Það verður held ég Sjálfstæðisflokknum ekki til frama að rukka hátt gjald fyrir aðstöðu vegna kvöldnámskeiða en ef Sjálfstæðismenn trúa því að það skifti öllu máli fyrir afkomu Álftaness að rukka háa leigu vegna námskeiðahalds, þá eru þeir greinilega í allt annarri vídd en fólkið sem hér býr.
Ásta Óla er leiðsögumaður ferðamanna
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.5.2010 kl. 15:51 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.