Óskað liðsinnis Guðmundar Andra

SM andlitsmynd

Sigurður Magnússon skrifar:

Guðmundur Andri á við bæjarstjóra Á-lista, sem „þriðja bæjarstjórann", í skrifum sínum s.l. fimmtudag í Fréttablaðinu, bæjarstjórann sem ákvað að bregðast við óskum íbúanna við Blikastíg og Fálkastíg, um betra leiksvæði.  Tveir fyrri bæjarstjórar höfðu skellt skollaeyrum við óskum þeirra. Þetta er rétt, bæjarstjóri Á-lista  fól framkvæmdadeild bæjarins að gera þarna umbætur og horfa til þess sem vel hefði tekist í öðrum hverfum s.s. við Miðskóga . Ef að ekki hefur tekist vel til, eins og að var stefnt, skrifast það á misskilning sem stjórnsýsla bæjarins  þarf að leiðrétta. Í tilefni þessara skrifa vil ég þó fullyrða að aldrei hefur áður verðið gert jafn mikið til að bæta aðstöðu og umhverfi barna og unglinga á Álftanesi eins og í tíð Á-lista.  Framvæmdir við skóla- og íþróttasvæði  vitna um þessar áherslur í starfinu  og ekki síður margvíslegar umbætur í umferðaröryggismálum.

Skoðanir Guðmundar Andra og forystu Á-lista, fara saman, um að ekki sé grundvöllur fyrir rekstri sjálfstæðs sveitarfélags á Álftanesi  við núverandi fjárhagslegar forsendur. Hann talar fyrir sameiningu, en Á-listinn hefur  lagt áherslu á að treysta tekjustofna bæjarsjóðs, s.s. með uppbyggingu atvinnulífs sem falli að viðkvæma umhverfi Álftaness og um leiðréttingu á greiðslum frá Jöfnunarsjóði. Á miðsvæðinu lét Á-listinn skipuleggja atvinnubyggð fyrir ferða- og menningartengda þjónustu og nærþjónustu fyrir íbúana. Með uppbyggingu vildi Á-listinn breyta svefnbæ í sjálfbært samfélag. Bygging glæsilegrar sundlaugar  sem glatt hefur  börn og fullorðna á Álftanesi og hefur  dregið að sér áttatíu og fimmþúsund  gesti, var m.a. liður í þessum áformum. Hópur, skipaður starfsmönnum á sviði íþrótta- og æskulýðsmála, starfaði með hönnuðum við undirbúningi  sundmiðstöðvarinnar. Hönnun og val á búnaði hefur í flestum efnum tekist vel þótt einstök atriði kunni að vera álitaefni. Vatnsrennibrautin vinsæla sem blasir við frá Álftanesvegi er áberandi í umhverfinu, en mun hverfa úr sjónlínu frá veginum þegar  Þjónustuhús Búmanna á miðsvæðinu rís en framkvæmdir  við það eru hafnar. Gula litinn, val arkitekts hússins, má svo mála yfir ef þurfa þykir og fella hann að umhverfislitum. Sumir halda því fram að fjárhagsvandi Álftaness stafi af byggingu nýju laugarinnar, en horfa þá framhjá tjóni sveitarfélagsins í bankahruninu  vegna lána og skuldbindinga, sem er meira en byggingarkostnaður hinnar nýju laugar. Þótt framkvæmdin hafi verið stór væri rekstur laugarinnar ekki ofviða sveitarfélaginu við efnahagslegar aðstæður sem horft var til við ákvarðanatökuna 2006.

Guðmundur Andri þekkir líka vel markmið Á-listans og framkvæmdir, og þar með virkann stuðning við hugsjónir umhverfisverndarfólks á Álftanesi , sem vill varðveita einstaka náttúru, fjölbreytileika lífríkisins og sýna sögu og menningu ræktarsemi. Stórt skref í þessa átt var stigð 8. apríl 2009 þegar bæjarstjóri undirritaði viljayfirlýsingu við ráðherra umhverfismála og menntamála um samvinnu Álftanesbæjar og ríkisins um rekstur menningar- og náttúrufræðiseturs og gestastofu vegna verndunar Skerjafjarðar. Því miður hafa þessi góðu áform verið sett á hliðarlínuna. Áfram verður þó barist fyrir verndun á einstakri náttúru á Álftanesi fyrir komandi kynslóðir, fjörum, sjávartjörnum og votlendi og að menningarsögu svæðisins verði sómi sýndur. Í baráttu fyrir þeim málstað verður áfram óskað liðsinnis Guðmundar Andra.

Sigurður Magnússon, bæjarfulltrúi Á-lista og fyrrverandi bæjarstjóri á Álftanesi

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband