Svar Álftnesings við sleggjudómum og moldviðri
26.3.2010 | 11:01
Kristinn Guðmundsson skrifar:
Það eru bæði gömul sannindi og ný á Fróni að Jón er ekki sama og séra Jón". Illu heilli eru alltaf einstaklingar sem þykir við hæfi að snúa blindu auga við því sem þeir vilja ekki sjá, en eru fljótir til að ata óþverra upp á aðra. Því miður eru bloggheimar vettvangur margra slíkra - eiturnaðra - svo málefnaleg umræða fellur í skugga. En, það má ekki láta þetta yfirskyggja allt annað.
Slæm staða bæjarsjóðs og ósáttur talsmaður D-lista
Það kom réttilega fram í athugasemd við frétt af fundi Álftaneshreyfingarinnar á mbl.is þann 25. mars, að útlit varðandi rekstur bæjarsjóðs á Álftanesi var ekki gott er Á-listinn tók þar við forystuhlutverki í bæjarstjórn, en viðkomandi virðist ekki, eða vill ekki, átta sig á að Álftaneshreyfingin var og er tilbúin til að bretta upp ermarnar. Hann og félagar hans hafa enn ekki getað fyrirgefið sér fyrir það að vanmeta þá áætlun sem Álftaneshreyfingin kynnti til úrbóta fyrir síðustu sveitastjórnarkosningar, 2006. Álftnesingar völdu þá framtíðarsýn og stefnumál Á-lista. Aðgerðaáætlunin sem fulltrúar Á-listans settu fram, þ.e. heildstæð áætlun um hvernig hægt væri að snúa vonleysislegri vörn fyrri meirihluta í sókn, er skýr. Þar kom líka fram að ef ekkert yrði að gert þá stefndi sveitasjóður í þrot, því innan sveitarfélagsins var og er enn nánast enginn annar atvinnurekstur en sá sem sveitarfélagið stendur fyrir til þjónustu við íbúana. Það hefur aldrei verið beinlínis til þess fallið að auka tekjur sveitarsjóðs, en það vantar tekjur til að gefa svigrúm til uppbyggingar á þjónustuaðstöðu fyrir íbúa sveitarfélagsins, s.s. skóla og íþróttamannvirki, og safna í sjóð sem er megnugur til að mæta áföllum og óvæntum útgjöldum. Það var alveg ljóst að enginn kostur var né er á slíku við óbreyttar aðstæður. Það var umtalað að fjárhagslegt svigrúm til breytinga var lítið sem ekkert er Á-listinn hófst handa, enda hafði forysta Sjálfstæðisfélagins lengi látið reka á reiðum, selt eignir og framkvæmt án þess að innistæða væri fyrir því. Til dæmis um það má nefna að eitt af fyrstu verkum nýrrar bæjarstjórnar, sumarið eftir kosningarnar 2006, var að taka lán til að greiða upp fyrir byggingu nýs leikskóla og stækkun íþróttahúss. Lánatakan, hátt í hálfur milljarður, féll þannig í skaut fulltrúa Á-listans. Nú þykir áróðursriturum D-lista sjálfsagt að telja þessi útgjöld með er þeir úthúða andstæðinga sína fyrir óráðsíu. Málefnaleg afstaða og umræða hefur ekki verið áberandi úr þeirra ranni og árásum hefur ekki linnt síðan þeim varð ljóst að í stað gæðinga þeirra var komið lið sem vildi vinna fyrir samfélagið. Sjálfsdekrið og vinagreiðasambandið var liðin tíð. Ég hefði ekki trúað því að óreyndu að bæjarfulltrúar væru ófúsir til að styðja sameiginleg hagsmunamál sveitunga sinna, ár eftir ár, bara vegna þess að aðrir voru valdir til forystuhlutverksins. En, það hefur bæði skort vilja til samstöðu um góð málefni og óvönduðum meðulum verið beitt til að brjóta samstöðu meirihlutans. Hverju veldur ætla ég ekki að vera með getgátur um hér, en vil trúa því áfram að Álftnesingar sjái í gegnum leikaraskapinn, því moldviðri gengur alltaf niður á endanum.
Fé til ráðstöfunar, umfram hefðbundinn rekstur, var engu meira árin 2005 og 2006 en það var árið 2007 og 2008. Áætlun Á-lista miðaði að því að hefja rekstur sveitarsjóðs úr þeim sporum sem mörkuð höfðu verið allar götur frá því að byggingarbanni var aflétt af Álftanesi 1971, þ.e. að stuðla einvörðungu að uppbyggingu íbúðabyggðar á svæðum sem voru í einkaeigu. Slík framvinda er eins jafn gæfuleg og eltingaleikur hunda við skottið á sjálfum sér. Að endingu verður ekki eftir pláss fyrir fleiri íbúðarhús og allt annað er við það sama. Til fyrirhugaðara breytinga þurfti lánsfé og það er ekki nýlunda á Íslandi að taka lán út á góðar viðskiptahugmyndir, sér í lagi ef horfur eru á að þar með skapist atvinna.
Vilji til að breyta, í stað sjálfsdekurs
Ein af grundvallar ákvörðunum Álftaneshreyfingarinnar var og er að skilgreina fullbyggt sveitarfélag á Álftanesi, með tæplega fjögur þúsund íbúum, í samræmi við gildandi aðalskipulag. Jafnframt var kynnt áætlun um hvernig undirbúa megi jarðveg fyrir atvinnurekstur á nesinu, starfsemi sem tekur mið af sérstöðu Álftaness á höfuðborgarsvæðinu. Fjármagn var tekið að láni, að yfirlögðu ráði, eftir að virtar og mikið notaðar ráðgjafaþjónustur höfðu yfirfarið áætlanirnar og fagaðilar þeirra metið áformin líkleg til að skila tilætluðum árangri. Hver einasta framkvæmd var samþykkt í bæjarstjórn, eins og lög gera ráð fyrir. Mikið var reynt til að tillögurnar fengju samþykki allra bæjarfulltrúanna, eins og náðist t.d. fyrir framkvæmdasamkeppni arkitekta um tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir miðsvæðið, byggingu nýrrar sundlaugar, svo eitthvað sé nefnt. Nú er verkin úthrópuð og kölluð óráðsía, en voru í reynd tilraun til að styrkja stoðir undir rekstur bæjarsjóðs, áform samþykkt af meirihluta Álftnesinga. Hvorki kjósendur né fulltrúar Á-listans gerðu sér grein fyrir þeim hremmingum sem settu allt þjóðarbúið úr skorðum haustið 2008. Á þeim tímapunkti var sveitarfélagið með allt of mikið af skuldum útistandandi, eins og ungar fjölskyldur sem voru að koma sér fyrir, eða athafnamenn sem trúðu á góða hugmynd. Nánast allir fengu lán, oft aðeins út á framtíðarmöguleika. Sveitarfélag, og fjölskyldur, geta ekki velt skuldum sínum yfir á aðra, samkvæmt leikreglunum, með því að skipta um kennitölu. Tilvera þeirra heldur áfram og engin undankomuleið í boði frá skuldbindingunum. Að auki eru auknar birgðir lagðar á þá sem uppi standa, vegna afskrifta í bankakerfinu og lánakrafa umfram raunverulegs veðs. Ef þessir aðilar kikna virðist eiga að meðhöndla þá eins og ómaga. Atvinnurekendur og fjárfestar, hins vegar, sem fengu að veðja með lánsfé, hirða bókfærðan gróða úr svikamillum af mikilli útjónarsemi, þurfa enga persónulega ábyrgð að bera. Eina krafan er hvítþvottur, ný kennitala og drífa sig í bankann til að sækja meira. Rökstuðningurinn er ofar en ekki að það þurfi að halda hjólum atvinnulífsins gangandi. Eru þetta sanngjarnar leikreglur? Það er með ólíkindum að slíkar reglur hafi hlotið samþykki og stuðning með landslögum og fordæmisgefandi dómsúrskurðum.
Ný staða kallar á ný úrræði
Ég fullyrði að ef ákveðið hefði verið, árið 2006, að gera ekki neitt, þá hefði endinn orði hinn sami - tómur bæjarsjóður - og þá eini skynsamlegi kosturinn að reyna samningaviðræður. Áform Álftaneshreyfingarinnar eru góð og vænleg til árangurs, en voru slegin út af borðinu á versta tíma, með ófyrirséðum forsendubresti. Nú er skortur á lausafé alger og ljóst að bið verður á að lóðir á deiliskipulögðu miðsvæðinu seljist og greiða megi skuldir. Eins og nú hefur rækilega verið bent á, þá gengur rekstur samfélagsins á Álftanesi ekki upp við núverandi aðstæður og verður einingin verður ekki fjárhagslega sjálfstæð án breytinga, t.d. með því að afla tekna með þjónustu við ferðamenn, menningar- og náttúrutengda starfsemi. Krafan um að sameina Álftanes öðru sveitarfélagi á höfuðborgarsvæðinu breytir engu um þá staðreynd og ef ekki á að hafa minni þjónustu við íbúana á Álftanesi en gerist og gengur á höfuðborgarsvæðinu, þá verður afleiðingin sú að í stað greiðslna úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á landsvísu, þá þarf sveitarfélagið sem tekur við rekstrinum að blæða úr sínum sjóði.
Á-listinn sótti sitt umboð til forystu árið 2006 og kjörnir fulltrúar listans helltu sér út í að leysa verkefnin eins og þeir höfðu lofað. Tímasetning bankahrunsins gat vart komið á óheppilegri tíma og Sveitarfélagið Álftanes varð skotspónn óánæguradda, enda fyrsta sveitarfélagið sem varð gjaldþrota. Ekki bætti úr skák að ráðuneyti sveitastjórnamála vill hrinda af stað sameiningarferli og dæmið um Álftanes hentar vel til að sýna að stefnan eigi líka við um höfuðborgarsvæðið. Því miður þjónar það engum tilgangi öðrum að leiða Álftnesinga nauðuga í sameiningarferli, vandi höfuðborgarsvæðisins verður aðeins leystur með sameiningu á öllu svæðinu. En við viljum og höfum ótrauð leitað leiða til að breyta á ný slæmri stöðu til betri vegar, eins og vænta má af þeim sem gefa kost á sér til starfa fyrir samfélagið. Tillögur fulltrúa Á-listans hafa því tekið mið af lausnum í erfiðri stöðu, eins og krafan um endurskoðun á reglum Jöfnunarsjóðsins, tillaga um sölu hlutabréfa í Fasteign ehf og lóðum til að lækka skuldir eru dæmi um. En nýr, og að eigin áliti starfhæfur meirihluti", hefur fellt allar slíkar tillögur jafnharðan, lagt árar í bát og að því virðist beðið þess sem verða vill.
Pólitísk ábyrgð
Álftaneshreyfingin stendur heil bak við sínar gerðir, fyrir utan þá sem ákváðu að starfa sjálfstætt" að eigin markmiðum, án endurnýjunar síns umboðs. Það getur verið erfitt að greina þá sem eiga eftir að bregðast trausti áður en á reynir. Á fundi Álftaneshreyfingarinnar var einróma ákveðið að stilla núverandi bæjarfulltrúum aftur fram í forystu á Á-lista í kosningunum 29. maí og erum ánægð með að þau gáfu kost á sér. Þannig tökum við óneitanlega pólitíska ábyrgð á okkar stefnu. Jafnframt erum við þakklát fyrir að nýir einstaklingar hafa fyllt í skörðin sem hinir sjáflstætt starfandi bæjarfulltrúar skildu eftir sig og vonum að kjósendur sjái að þar höfum við fengi valinn mann í hvert sæti. Framtíðarsýn okkar er óbreytt, með áherslum á mannvænt samfélag og náttúruvernd, og við viljum leggja okkar af mörkum til að tryggja að Álftanes verði áfram aðlaðandi og aðgengileg útivistarperla innan höfuðborgarsvæðisins, en lögum okkar baráttu að breyttum aðstæðum. Sömu tækifærin eru enn til staðar á Álftanesi, óspillt. Slæm staða í fjármálum hefur ekki breytt því, en markmiðin hafa fjarlægst og okkar möguleikar til ákvarðana minnkað. Það sem er erfiðast að svara fyrir er sú staða sem íbúar á Álftanesi er boðið upp á og skiljanlegt að íbúar taki því illa að bæði þjónusta og gjöld hafi hækkað á Álftanesi, umfram það sem er í nágrannabyggðarlögunum.
Sleggjudómar
Í annarri athugasemd við nefnda frétt á mbl.is er dæmigerður stuttur sleggjudómur. Í tilefni af því vil ég aðeins benda á að það er frekar ólíklegt að þeir sem standa að Álftaneshreyfingunni komi til með að óska eftir að Reykvíkingar, eða aðrir, taki við sínu oki. Við erum tilbúin til að axla það sem okkur ber, en líka að krefjast þess að verða ekki afhent sem ómagar á silfurfati. Reyndar eru skuldir Álftnesinga miðað við höfðatölu engu meiri en annarra Íslendinga, ef rétt er með farið. Vandinn er gjaldþrot og þá er öllu lokað og snúið á versta veg.
Við munum áfram fara fram á að okkar staða verði metinn með sanngjörnum hætti og tillögur Álftnesinga og framtíðarsýn verði metin að verðleikum og ákvarðanir aðeins teknar út frá sameiginlegum hagsmunum og að vel athuguðu máli. Álftanes hefur hlutverki að gegna ef Íslendingar ætla að uppfylla alþjóðasamþykkt sem Alþingi hefur samþykkt um verndun búsvæða fyrir margæs og rauðbrysting. Þess utan er nesið sérlega tengt sögu þjóðarinnar frá þjóðveldi til lýðveldis, þar sem nú er aðsetur forsetans. Jafnfram er nesið vannýtt, en kjörið til útivistar og útikennslu fyrir allt höfuðborgarsvæðið. Álftanesið hefur mikið verndargildi, en ótrúlega margir sjái aðeins möguleika til að reisa þar fleiri hús eða leggja nesið undir flugvöll til að rýma fyrir framkvæmdum og leysa klúður í skipulagi t.d. í Vatnsmýrinni. Sömu aðilar taka gjarnan með í reikninginn sparnaðinn sem nemur uppfyllingu samsvarandi svæðis í sjó og þegar nesið er byggt þá er eins víst að næst verði ráðist til atlögu við Heiðmörkina. Hamarinn gerði betur með að beita sér fyrir sameiningu alls höfuðborgarsvæðisins og skynsamlegu lausnum í skipulagi og nýtingu svæðisins. Það er kominn tími til að við hættum þrasi og metningi út frá þröngu sjónarhorni einkahagsmuna. Álftnes verður ekki tekið eins og nýlenda án andspyrnu - ekki frekar en illilega veðsett fiskiauðlind Íslendinga verður afhent Evrópubandalaginu, eftir að gengið frá nauðasamningum um greiðslur skuldbindinga vegna IceSave.
Kristinn Guðmundsson er fulltrúi Á-lista í skipulags- og byggingarnefnd
Álftaneshreyfingin vill ræða við Reykjavík um sameiningu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.5.2010 kl. 15:53 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.