Á-listinn vill lausnir fyrir Álftnesinga

Anna Ólafsdóttir Björnsson skrifar.

 

Erfið staða Álftaness hefur vart farið framhjá neinum. Álögur og erfiðleikar sækja náttúruparadísina okkar heim. Flestir hljóta að viðurkenna að orsakirnar eru margslungnar en afleiðingarnar þekkjum við flest, við virðumst vera að glata sjálfstæði okkar og erum skattpínd. Við þessar aðstæður þarf að leita allra hugsanlegra lausna til að næstu skref verði farsæl. Ég tel að Á-listi Álftaneshreyfingarinnar bendi á þessar lausnir og hvet alla sem annt er um hag Álftaness að skoða vel bæklinginn sem öllum Álftnesingum á að hafa borist svo og vefinn www.alftanes.net og bloggið www.alftaneshreyfingin.blog.is 

Meðal úrræða sem Á-listinn berst fyrir er að fá Jöfnunarsjóð til að leggja meira til sveitarfélagsins vegna þess fjölda barna og unglinga sem er í sveitarfélaginu og skiljanlega ekki skattgreiðendur. Álftanes er einstakt svæði fyrir börn og því leita barnafjölskyldur hingað á nesið og þetta er úrlausnarefni sem Jöfnunarsjóður getur lagfært. Þetta hefur þegar verið viðurkennt að nokkru leyti fyrir tilstilli Á-listans og þessu þarf að fylgja eftir með fullum þunga. Ennfremur að breyta lánum og eignarhaldi í Fasteign til að létta skuldabyrði Álftnesinga. Þetta er gerlegt og sé vilji fyrir því að lagfæra stöðu sveitarfélagsins til að greiða fyrir sameiningu við önnur sveitarfélög þá ætti sá vilji að vera líka til staðar óskilyrtur.  

Við þessar erfiðu aðstæður hefur meiri hluti Álftnesinga látið í ljós vilja til sameiningar við önnur sveitarfélög, helst þá Garðabæ eða Reykjavík. Þótt ég sé ekki ein þeirra sem vill sameiningu þá mun ég taka þátt í því af fullum heilindum að vinna með öðrum í sveitarfélaginu að því að sérstaða Álftaness og gott mannlíf fái að dafna í hverju því samstarfi eða sameiningu sem verður ofan á. 

En fyrst þurfum við Álftnesingar að vinna saman, öll sem eitt, með hag Álftnesinga fyrir brjósti. Ég vona einlæglega að Á-listinn njóti þess við kosningarnar á laugardag að hafa bent á ótal úrræði og lausnir í erfiðri stöðu og fái það brautargengi sem hann á skilið.  

Anna Ólafsdóttir Björnsson tölvunarfræðingur

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband