Það er dýrt að búa á Álftanesi
23.10.2010 | 13:34
Nú er að verða komið hálft ár frá kosningum og enn er allt í lamasessi hér á Álftanesi þrátt fyrir stórkarlalegar yfirlýsingar núverandi meirihluta þ.e. Sjálfstæðismanna og pólitískra viðhengja þeirra í Fiðrildaframboðinu og Framsóknarflokknum eftir kosningar. Menn voru svo bjartsýnir um framgang mála að það var ekki einu sinni gerð fjárhagsáætlun fyrir árið 2011. Nú í byrjun október er ekki að sjá að neitt bóli á sameiningu við önnur sveitarfélög og reyndar virðast engar viðræður fara fram utan einhverra óljósra þreifinga við Garðabæ. Engin samningsmarkmið hafa verið kynnt. Engar tilkynningar um gang mála hafa sést á heimasíðu sveitarfélagsins. Af hverju eru menn að laumupokast svona? Á síðasta bæjarstjórnarfundi sem haldinn var 29. 09 eftir gott sumarfrí voru sameiningarmál ekki einu sinni á dagsskrá. Hvað á það að þýða? á fundum með starfsfólki sitja bæjarfulltrúar eins og verstu lúpur og setja upp mildan og mæðulegan og segjast skilja en hafa engin svör.
Sitja kjörnir fulltrúar með hendur í skauti og bíða eftir að hlutirnir gerist af sjálfu sér eða er oddviti Sjálfstæðismanna einfaldlega of upptekinn við að sækja um bæjarstjórastörf í öðrum sveitarfélögum til að geta fylgt málum eftir? Af hverju hefur ekkert verið rætt við borgaryfirvöld í Reykjavík sem þó lýstu yfir sérstökum vilja til að kanna sameiningarmál við Álftanes í vor? Margir skemmtilegir möguleikar myndu augljóslega opnast við slíka sameiningu bæði gagnvart Reykvíkingum og Álftnesingum. Sú stóraukna skattheimta sem Sjálfstæðismenn standa fyrir hérna á Álftanesinu umfram það sem aðrir landsmenn mega þola er farin að bíta allhressilega, margir sem geta farið, fara. Aðrir þreyja þorrann bundnir í átthagafjötra. Verst stendur barnafólkið:
Skólamáltið í Álftanesskóla kostar nú kr. 468. í Hafnarfirði kostar máltíðin kr. 272 og í Reykjanesbæ kr. 242 og í Reykjavík kostar maturinn víðast kr. 250 svo dæmi séu tekin.
Engin niðurgreiðsla er í tónlistarnám eða aðrar tómstundir barna og unglinga. Tónlistarnám fyrir grunnskólanema í tónlistarskóla Álftaness kostar 84.000 yfir veturinn fyrir tvær 25 mín. kennslustundir á viku (sem hafa verið styttar úr 30 mínútum frá síðasta skólaári).
Engin frístundakort eru eins og þekkist í nágrannasveitarfélögunum og forráðamenn barna sem stunda íþróttir eða tómstundir utan Álftaness þurfa að greiða það að fullu án styrks eða niðurgreiðslu frá sveitarfélaginu og sem dæmi má nefna að fimleikaástundun 7 ára nemanda í íþróttafélagi í Hafnarfirði kostar um 90.000 kr. yfir skólaárið.
Aðgerðarleysi, skortur á framtíðarsýn og doði er það sem íbúar Álftaness þurfa síst á að halda um þessar mundir og því skorum við á bæjaryfirvöld að reka af sér slyðruorðið og láta verkin tala.
Höfundar eru Elsa Bára Traustadóttir sálfræðingur og Tumi Kolbeinsson kennari
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:44 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.