Fjárleit á Álftanesi

BergurBergur skrifar:

Ásamt öðrum, keyri ég á hverjum degi framhjá nokkuð djúpri holu á miðju Álftanesi á leið til vinnu. Mörg okkar keyra eða ganga hjá holunni þegar við förum í sund, í apótek, til læknis, í matvörubúð, á bílaþvottastöð eða bara til að sækja hvers kyns þjónustu sem almennum þjóðfélagsþegnum dytti í hug að sækja í þéttbýli í vestrænu samfélagi. Sum okkar hjóla meira að segja framhjá henni um helgar þegar okkur langar í sjoppu til að ná okkur í ís og DVD. Nú er ég jarðvegsfræðingur og hef svo sem ekkert út á skurði og holur að setja enda má margt læra með að rýna í jarðvegssnið á Íslandi en í tilefni þess að ég er búinn að fara nokkur hundruð  sinnum framhjá þessari holu hlýt ég að spyrja: Hvernig ætlar bæjarstjórn að stoppa í 100 milljón króna gatið sem myndast í bæjarsjóði þegar það þarf að endurgreiða Samkaup fyrir lóðargjöldin af matvörubúðinni sem aldrei varð? Hvar ætlar sama stjórn að finna 100  milljónir til að endurgreiða Búmönnum vegna kostnaðar við arkitektavinnu og skipulagsvinnu frá 2007 vegna þjónustuhúss og raðhúsa Búmanna, sem var draumur einn og munu þar líka finnast þeir milljónatugir sem þarf til að greiða þrotabúi Ris vegna riftunar samninga. Hvernig kemur það út varðandi eiginfjárstöðu bæjarsjóðs að skila 400 milljónum í skuldabréfum sem Búmenn höfðu samþykkt vegna byggingaréttar á miðsvæðinu og verður ekki bæjarsjóður af tugum og hundruðum milljóna í gatnagerðagjöldum sem þessir fjárfestar hefðu borgað. Á sama tíma hefur bæjarsjóður fjárfest í hönnun og gatnagerð fyrir u.þ.b. 200 milljónir sem öll er unnin fyrir gíg. Eins verður ekki hægt að taka við framlagi frá Framkvæmdasjóði aldraðara fyrir u.þ.b. 150 milljónir sem lög kveða á um þegar sveitarfélög byggja þjónustuhús fyrir eldri borgara. Eru þetta ekki endurgreiðslur og skaðabætur og ónýt fjárfesting fyrir 1000 -1100 milljónir sem bæjarsjóður verður af við riftun samninga. Berum það saman við þá 1.200 milljón króna skuldbindingu sem bæjarsjóður átti að greiða í leigu fyrir Þjónustuhúsið á 50 ára tímabil, en gat notað það áfram án leigugreiðslna að þeim tíma liðnum eins og stefnt var að í upphafi? Reiknar bæjarstjórnin með einhverjum sérstökum tekjum til að greiða fyrrnefndar milljónirnar í stað þeirra glötuðu fasteignagjalda sem gert var ráð fyrir að yrðu innheimt af starfsemi í þessum húsum. Spyr sá sem ekki veit en ég geri ráð fyrir að margir velti þessum sömu spurningum fyrir sér.  

Ps. Kannski eru milljónirnar 1000 í „Money-heaven“, það má e.t.v. ná í þær þar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband