Bloggfærslur mánaðarins, desember 2009

Athugasemdir Álftaneshreyfingarinnar

Skýrsla Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga. Hægt er að nálgast skýrsluna hér neðst í færslunni eða á heimasíðu Álftaness - alftanes.is

 

Athugasemdir fulltrúa Á-lista við skýrslu um fjármál sveitarfélagsins.

                                               Álftanesi 9. desember 2009

Athugasemdir bæjarfulltrúa Á-lista til Eftirlitsnefndar um fjármál sveitarfélaga og annarra er málið varðar vegna skýrslu Garðars Jónssonar hjá R3-Ráðgjöf ehf. um rannsókn á fjárreiðum og rekstri Sveitarfélagsins Álftaness

_______________________________________

 

Sigurður Magnússon bæjarfulltrúi Á-lista

Kristín Fjóla Bergþórsdóttir bæjarfulltrúi Á-lista

 

Megin niðurstöður eftir yfirferð bæjarfulltrúa Á-lista á skýrslu Garðars Jónssonar um rannsókn á fjárreiðum og rekstri Sveitarfélagsins Álftaness

  • Þungamiðja skýrslunnar er skuldsetning sveitarfélagsins sem var mikil fyrir hrunið, en hefur vaxið um 1000 milljónir vegna afleiðinga hrunsins á árinu 2008 og 2009. Skýrsluhöfundur aðgreinir í skýrslu sinni ekki þann vanda sveitarfélagsins sem tengist efnahagshruninu sem við teljum fordæmalaust og þurfi að fjalla um með sértækum hætti.
  • Skýrsluhöfundur leggur saman skuldir sveitarfélagsins og skuldbindingar og kemst að þeirri niðurstöðu að samtals séu þetta rúmir 7 milljarðar. Við gagnrýnum þessa framsetningu þar sem nákvæmni skortir, s.s. að getið sé margskonar hagræðis og tekna sem bæjarsjóður nýtur vegna þessara skuldbindinga. Þar sem hagræðis og hagnaðar er getið í tengslum við skuldbindingarnar er þó ekki tekið tillit til þeirra í tölulegri framsetningu og stangast því töluleg framsetning oft á við textagerð. Að teknu tilliti til þessara atriða teljum við réttara að tala um að skuldir og skuldbindingar séu rúmir 4 milljarðar og þar af er u.þ.b. 1 milljarður afleiðing gengishruns og mun að hluta til ganga til baka með styrkingu krónunnar. Þegar horft er til skuldsetningar sveitarfélagsins þarf að taka tillit til þess að sveitarfélagið á eignir í löndum og lóðum fyrir u.þ.b. tvo milljarða, sem gert er ráð fyrir að verði seldar á næstu árum og skuldir lækkaðar.
  • Skýrsluhöfundur getur heldur hvergi um að við allar stærri fjárfestingaákvarðanir var kallað eftir sérfræðiáliti, skuldþolsútreikningum og afleiðingum ákvarðanatöku á bæjarsjóð. Varðandi skuldbindingu við Búmenn segir t.d. í sérfræðiskýrslu að skuldbindingin muni styrkja fjárhagsstöðu bæjarsjóðs. Sama á við um skuldbindingu vegna gatnagerðar. Hvergi er getið um að innheimt gatnagerðargjöld mæta kostnaði ríflega. Lækkun skuldbindinga við Fasteign kemur ekki fram í tölulegri framsetningu þrátt fyrir að ákvörðun hafi verið tekin um það að leiguskuldbinding lækki um 40% um áramót.
  • Hvað varðar gagnrýni skýrsluhöfundar á að ekki hafi verið gripið til viðhlítandi rekstrarhagræðingar eftir taprekstur 2008 viljum við benda á að fyrir hrunið á árinu 2007 var farið í verulegar almennar hagræðingaraðgerðir í rekstri og hagræðingar í fræðslu- og uppeldismálum eins og sjá má með samanburði áranna 2006 og 2007. Hinsvegar óx rekstrarkostnaður á árinu 2009, s.s. við leigumannvirki, vegna áframhaldandi gengishruns.
  • Einnig gerum við athugasemdir við kafla 10 í skýrslunni sem byggir greinilega á viðtölum skýrsluhöfundar við nýjan meirihluta bæjarstjórnar. Þar er t.d. kröfugerð bæjarfélagsins á hendur Jöfnunarsjóði sveitarfélaga um leiðréttar jöfnunargreiðslur aðeins reifuð sem hugmynd sem þurfi að skoða. Við teljum að það sé skýlaust réttlætismál að þessi leiðrétting fari fram og hún sé forsenda fyrir því að sveitarfélagið geti verið sjálfbært. Við minnum á að stjórn SSH hefur gert samþykkt eftir kynningu á skýrslu þeirri sem meirihluti Á-lista lét taka saman og kynnti Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Samþykkt stjórnar SSH er stuðningur við kröfu Sveitarfélagsins Álftaness um að jöfnunargreiðslur verði auknar til sveitarfélaga með hátt hlutfall barna og unglinga og veika tekjustofna.
  • Vert er að vekja athygli á því að eigið fé sveitarfélagsins er vanmetið í framsetningu reikninga. Fasteignir voru metnar í ársreikningi 2002, skv. nýjum reglum sem ráðuneyti sveitastjórnamála setti, og hafa síðan verið afskrifaðar skv. lögum. Lóðir og lönd sveitarfélagsins í nýjum miðbæ við Norðurnesveg og í landi Bjarnastaða verða um komandi áramót metin í bókhaldi milli 300 - 400 milljónir króna, en eru nær því að vera að söluvirði 2 - 2,5 milljarðar og gerir sveitarfélagið ráð fyrir því í langtímaáætlunum sínum að hagnaður vegna sölu þessa lands verði nýttur til lækkunar skulda. Eðlilegt hefði verið að skýrsluhöfundur hefði kynnt sér betur eignasafn sveitarfélagsins við þær aðstæður sem nú eru til að gefa sem skýrasta mynd af raunverulegri stöðu sveitarfélagsins við erfiðar kringumstæður og möguleikum þess til að létta af sér skuldum síðar.

Bæjarfulltrúar Á-lista hafa yfirfarið skýrslu R3 Ráðgjafar ehf. um rannsókn Garðars Jónssonar um fjárreiðum og rekstri Sveitarfélagsins Álftaness (SÁ), sem hann vann fyrir Eftirlistnefnd með fjármálum sveitarfélaga (EMFS). Skýrslan var kynnt og afhent öllum bæjarfulltrúum sveitarfélagsins síðdegis 8. desember og því hefur aðeins gefist sólarhringur til yfirlestrar og athugasemda. Skiljanlega hefur því ekki gefist tóm til að sannreyna allar bókhaldslegar forsendur skýrslunnar. Við gerum ráð fyrir að allar upplýsingar séu í samræmi við ársreikninga og véfengjum í sjálfu sér ekki  tölulegar upplýsingar.

Við yfirlestur á skýrslunni var okkur strax ljóst að ástæða hefði verið að gera frekari grein fyrir ýmsum efnisatriðum sem þar eru nefnd og setjum við því hér fram viðeigandi athugasemdir og komum þeim á framfæri við EMFS. Þetta á t.d. við um ýmsar skuldbindingar sem nefndar eru í skýrslunni. Við forðumst að hafa of stór orð um vankanta skýrslunnar, en lítum svo á að þar séu ýmsar ákvarðanir bæjarstjórnar á síðustu árum ekki skýrðar nægilega og ekki settar í rétt samhengi. Má telja víst að ýmsir muni álykta að skýrslan styðji málflutning þeirra sem sjá ekki neinn kost á að Álftanes verði rekið sem sjálfstætt sveitafélag og vilja skoða þann kost einan að sameina Álftanes einhverju af nágrannasveitarfélögunum. Í þessu sambandi vilja bæjarfulltrúar Á-lista minna á að íbúar hafa tvívegis með stuttu millibili verið spurðir álits um sameiningu við nágrannasveitarfélagið Garðabæ. Í bæði skiptin var sameiningartillögum hafnað og þannig lögð áhersla á að Sveitarfélagið Álftanes skuli áfram rekið sem sjálfstætt sveitarfélag. Ekkert liggur fyrir um að þessi afstaða Álftnesinga hafi breyst og engin ástæða til að ætla að svo verði nema fjárhagsleg staða knýi þá til að breyta ákvörðun sinni. Því skiptir sköpum hvaða mat er lagt á allar forsendur og viðeigandi framsetning á fjárreiðum og rekstri sveitarfélagsins. Engum dylst þó að ekki verður séð fram úr rekstrarvanda sveitarfélagsins nema Álftnesingar fái sanngjarna leiðréttingu sinna mála, í samræmi við rökstuddar kröfur um leiðréttingu frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaganna og eðlilegri fyrirgreiðslu um endurfjármögnun lána eftir efnahagslegt hrun 2008.

Bæjarfulltrúar Á-lista telja ósanngjarnt og óásættanlegt að núverandi aðstæðum í fjárhagsmálum sé stillt upp þannig að Álftnesingar verði knúðir til sameiningar. Annað mál er að við teljum rétt að auka samstarf sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu á ýmsum sviðum, ekki síst í ljósi ýmissa vankanta á rekstri sveitarfélaganna sem hafa orðið áberandi í kjölfar efnahagshrunsins. Beinast liggur við að samstarf sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu verði þróað í einskonar höfuðborgarstjórn um þá málaflokka sem best er komið fyrir í samrekstri. Í slíku samstarfi er eðlilegt að sjá fyrir sér að sveitarfélögin hafi með sér frekari jöfnun efnahagslegra þátta, líkt og  sveitarfélög í Evrópu hafa gert.

Við munum í athugasemdum okkar hér á eftir fyrst og fremst tengja þær fyrsta kafla í skýrslu Garðars Jónssonar sem ber yfirskriftina „Helstu lykilstærðir og niðurstöður", þar sem niðurstöður hans eru greindar í níu efnisatriði og munum við fjalla um hvert þeirra fyrir sig og auðkenna með A1 - A9. Nefnd efnisatriði tengjast síðan ýmsu sem  fjallað er nánar um í öðrum köflum skýrslunnar og verður vísað til þess eins og við á.

A1.  Greiðsluþrot og samskipti við viðskiptabanka sveitarfélagsins

Garðar segir að Álftanes sé komið í greiðsluþrot og hafi verið synjað um lánafyrirgreiðslu hjá viðskiptabanka sínum.

Varðandi þetta atriði viljum við koma því á framfæri að viðskiptabanki sveitarfélagsins hefur verið hinn sami um langt árabil og þekkir bankinn vel fjárhagsforsendur sveitarfélagsins. Bæjaryfirvöld og viðskiptabankinn hafa með sér samráðsfundi árlega og þéttari eftir efnahagshrunið í fyrra. Viðskiptabankinn þekkti því vel áform sveitarfélagsins um uppbyggingu á nýju miðsvæði, en með þeirri uppbyggingu hugðust bæjaryfirvöld treysta stöðu bæjarsjóðs, bæði til skamms og langs tíma. Á óvissutímum eins og ríkt hafa eftir efnahagshrunið mátu bæjarfyrirvöld það sem mikinn kost að viðskiptabanki sveitarfélagsins er jafnframt viðskiptabanki Búmanna, sem er og verður stærsti einstaki fjárfestir og framkvæmdaraðili við uppbyggingu miðbæjar á Álftanesi. Sami banki er jafnframt viðskiptabanki þess verktaka sem Búmenn réðu til þess að stýra sínum framkvæmdum og sá verktaki reyndist þess utan eiga hagstæðasta tilboðið í útboði á fyrsta áfanga gatnagerðar í miðbænum. Viðskiptabanki sveitarfélagsins hafði því aðkomu að hinum mikilvægu framkvæmdum frá öllum hliðum. Bankinn hafði gefið vilyrði um að hluti þeirra skuldabréfa sem sveitarfélagið eignaðist við sölu byggingaréttar og skuldabréfa sem sveitarfélagið kynni að eignast vegna greiðslu gatnagerðargjalda væri hægt að innleysa til skammtíma fjármögnunar, tengt uppbyggingu miðbæjarins. Bæjaryfirvöld vonuðust til að þær óreglulegu tekjur sem framkvæmdirnar skiluðu sveitarfélaginu myndu skapa það svigrúm sem sveitarfélagið þarf á að halda meðan að málefni þess og ríkisvaldsins eru endurskoðuð hvað varðar réttmætar greiðslur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og meðan unnið er að styrkingu tekjustofna sveitarfélagsins, eins og áformað hafði verið. Þegar hinsvegar kom upp brestir í meirihluta Á-lista og einstakir bæjarfulltrúar fóru að tala opinberlega um það að sveitarfélagið sé tæknilega gjaldþrota, þá er eðlilegt að viðskiptabankinn synji um lánafyrirgreiðslu og bíði niðurstöðu viðræðna sveitarfélagsins við ríkisvaldið.

A2.  Lánasjóður sveitarfélaga og aðkoma EMFS

Í öðrum lið samantektar sinnar segir Garðar að lánasjóður sveitarfélaganna skilyrti aðkomu sína að fjármögnun á verkefnum sveitarfélagsins við væntanlega niðurstöður frá EMFS.

Eins og málum er háttað er umrædd afstaða lánasjóðsins eðlileg og höfum við engar athugasemdir við það, enda hafði sjóðurinn fyrr á árinu lýst því yfir að hann teldi að sveitarfélagið þyldi ekki frekari skuldsetningu, að svo komnu.

A3.  Fjárstreymi sveitarfélagsins 2008 og 2009

Varðandi fjárstreymi sveitarfélagsins bendir Garðar á hallarekstur sveitarfélagsins á árinu 2008 og ennfremur á halla á yfirstandandi ári.

Við viljum víkja að þessum atriðum og jafnframt benda á þróun rekstrar sveitarfélagsins frá 2002 til 2009, sem höfundur fjallar sérstaklega um í kafla 4.  Ástæða hefði verið að víkja að henni í samantektinni í kafla 1. Við teljum rétt að skoða þessa þróun í samhengi við mat á núverandi þungri fjárhagsstöðu.

Í kafla 4 sýnir Garðar hvernig gjöld og tekjur þróast á árabilinu 2002-2009, eins og sést skýrt á mynd þar sem óreglulegar tekjur eru ekki hafðar með. Þar sést mjög vel hvernig skatttekjur ráða ekki við kostnað eftir 2004 og sérstaklega þegar kemur að árunum 2005 og 2006. Engu að síður náðist nokkur árangur í hagræðingu á árinu 2007 og lætur þá nærri að skatttekjur dugi fyrir kostnaði, en þessi bætti rekstrarárangur var svo að engu gerður í hruninu 2008 og afleiðingum þess á yfirstandandi ári. Allt frá árinu 2007 hafa bæjaryfirvöld verið að rannsaka þennan innbyggða vanda í rekstri sveitarfélagsins og er augljóst að hann tengist ákvörðunum fyrri bæjarstjórnar allt frá árinu 2002, en þá var farið í mjög hraða uppbyggingu í sveitarfélaginu án þess að afla sérstakra tekna af uppbyggingunni til að standa undir þeim fjárfestingum sem stækkandi samfélag kallaði eftir. Á tímabilinu 2002-2006 fjölgaði íbúum á Álftanesi um tæp 50%, sem er hlutfallslega meiri uppbygging en annarstaðar þekktist á Íslandi á þessu hagvaxtarskeiði. Samhliða fjölgun íbúa þarf að stækka skólahúsnæði, byggja leikskóla og stækka íþróttahús og aðra félagslega aðstöðu. Allar þessar fjárfestingar voru unnar fyrir lánsfé og vor síðustu lánin vegna þessarar uppbyggingar tekin sumarið 2006 af nýjum meirihluta til þessa að fjármagna framkvæmdir sem unnar voru á árinu 2005 og fyrri hluta árs 2006. Í athugasemdum með ársreikningi 2006 vöktu endurskoðendur Grant Thorton athygli bæjaryfirvalda á því að kostnaður sveitarfélagsins vegna fræðslu- og uppeldismála taki til sín miklu stærri hluta af tekjum sveitarfélagsins en þekkist annarsstaðar. Þá þegar var ljóst að gera þurfti ráðstafanir til hagræðingar í rekstri og til þess að efla tekjustofna. Þetta ár, 2006, er versta einstaka rekstrarár í sögu sveitarfélagsins, ef undan er skilið hrunið 2008, en á því ári var aðalsjóður rekinn með u.þ.b. 150 milljón króna halla og í heild var hallinn 320 milljónir. Við þessar aðstæður fólu bæjaryfirvöld ráðgjafafyrirtæki að gera úttekt á rekstri Álftanesskóla, en skólinn er þyngsta rekstrareiningin í málaflokki uppeldis- og fræðslumála. Þessari skýrslu var skilað veturinn 2007 og í framhaldi af henni voru gerðar ýmsar hagræðingaraðgerðir í skólamálum. Úttektin á skólarekstri sveitarfélagsins sýndi jafnframt fram á að mikill kostnaður við skóla- og fræðslumál á Álftanesi varð ekki skýrður með slökum rekstri viðkomandi stofnana. Sýnt var fram á að skólarekstur á Álftanesi stenst fyllilega samanburð við rekstur hliðstæðra stofnana í öðrum sveitarfélögum, ef skoðaður er kostnaður á hvern nemanda. Mikill kostnaður við uppeldis- og fræðslumálin tengist hinsvegar óvenjulegri aldurssamsetningu íbúa, en börn og unglingar eru u.þ.b. 40% hærra hlutfall íbúa á Álftanesi en gerist og gengur á höfuðborgarsvæðinu.

Hallarekstur ársins 2008, sem var 832 milljónir, skýrist að stærstum hluta af efnahagshruninu. Erlend lán sveitarfélagsins voru í upphafi ársins rúmar 500 milljónir, en í árslok rúmur milljarður. Innlend lán sveitarfélagsins hækkuðu einnig vegna óðaverðbólgu í framhaldi af gengishruninu, eða um rúmar 100 milljónir. Rýrnun krónunnar hafði líka áhrif á leigu íþróttamannvirkja þar sem leigan er bundin evru að 55 hundraðshlutum. Þannig má halda því fram að u.þ.b. 700 milljónir af hallanum megi rekja beint til óviðráðanlegra ytri aðstæðna og að ef hrunið hefði ekki komið til hefði rekstur sveitarfélagsins á umræddu tímabili verið í öllum aðalatriðum hliðstæður því sem var árið 2007. Varðandi yfirstandandi ár þá viljum við vekja athygli á því að allur hallarekstur og ríflega það er tilkominn vegna áframhaldandi rýrnunar íslensku krónunnar á árinu, sem er meiri en gert var ráð fyrir í spá Seðlabankans. Við fjárhagsáætlunarvinnu í desember 2008 gerðu bæjaryfirvöld ráð fyrir að gengi íslensku krónunnar myndi styrkjast eftir mitt ár 2009 og voru það hliðstæðar áætlanir og önnur sveitarfélög og ríkisvaldið gengu útfrá í sínum áætlunum. Þetta fór á annan veg og hefur rýrnun krónunnar haldið áfram að valda bæjarsjóði tjóni, eins og öðrum aðilum í landinu sem eru með hluta af lánum sínum í erlendri mynt. Í stað þess að bæjaryfirvöld gerðu ráð fyrir nokkrum gengishagnaði, var áfram um gengisrýrnun að ræða og eru áhrif þessa á fjárhagsáætlun yfirstandandi árs rúmar 400 milljónir.

A4.  Fjárhagsleg staða sveitarfélagsins og nýtt íþróttahús

Garðar telur heildarskuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins nema 7.4 milljörðum og þar af að skuldbindingar utan efnahags séu tæpir 3 milljarðar. Um allar þessar skuldbindingar fjallar hann svo nánar í 11. kafla skýrslunnar.

Við gerum athugasemdir við þessa framsetningu og viljum vekja athygli á því að þær fjárfestingar sem sveitarfélagið hefur farið í eða er að undirbúa eru ekki einungis skuldbindingar heldur fylgja þeim nýir tekjustofnar og þær þarf því að skoða í samhengi við þá langtímaáætlun um uppbyggingu sem sveitarfélagið hafði unnið að. Flestar þessar skuldbindingar voru gerðar fyrir efnahagshrunið, sem á Álftanesi eins og annarsstaðar á landinu er forsendubrestur þegar litið er til allrar ákvarðanatöku, - þ.e. að ákvarðanir voru teknar á árunum 2006 og 2007 við önnur efnahagsleg skilyrði.

Skuldbindingar vegna kaupleigu á mannvirkjum Fasteignar voru samþykktar samhljóða í bæjarstjórn í desember 2006, enda ákvörðunin grundvölluð á áliti sérfræðinga í tveimur skýrslum frá  ráðgjafafyrirtækinu Parex. Önnur skýrslan lagði mat á hvort réttara væri að byggja hin nýju íþróttamannvirki á vegum sveitarfélagsins eða semja um kaupleigu við Fasteign og taldi hún síðari kostinn vera hagkvæmari. Eignaraðild sveitarfélagsins að Fasteign skipti þarna miklu máli, en Fasteign hefur skilað eigendum sínum u.þ.b. 10% arði undanfarin ár. Í hinni skýrslunni var gerð grein fyrir skuldþolsútreikningum fyrir sveitarfélagið með tilliti til ákvarðanatöku um mannvirkin og miðuðu skuldþolsútreikningarnir við áætlaðan byggingarkostnað og kaupleigusamninga og jafnframt var tekið tillit til langtímaáætlunar sveitarfélagsins um uppbyggingu. Skýrslan sýndi að sveitarfélagið réði við þessa fjárfestingu og bæjaryfirvöld mátu það svo að ný sundlaugarmannvirki, sem hvorutveggja eru skólamannvirki og til almenningsnota, myndu styrkja búsetu á Álftanesi og auðvelda uppbyggingu í nýjum miðbæ. Hluti af fjárfestingunni myndi því koma til baka með nýjum tekjum. Við ákvarðanatökuna var áætlað að brúttó leigugreiðslur fyrir öll mannvirki íþróttamiðstöðvarinnar, bæði ný og gömul sem Fasteign keypti, yrðu um 120 milljónir á ári. Áætlaður nettó kostnaður var um 80 milljónir. Eins og áður hefur verið vikið að hefur gengishrunið breytt þessum forsendum mikið.

Í skýrslunni eru skuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins tengdar þjónustuhúsi Búmanna metnar á annan milljarð. Fyrir þeim liggur samþykkt sem grundvölluð er á sérfræðiskýrslu frá Parex. Þar kemur fram að áhrif þessara skuldbindinga á bæjarsjóð verði jákvæðar. Með uppbyggingunni koma nýjar tekjur, fasteignagjöld og útsvar og auk þess verður hluti af leiguhúsnæði sveitarfélagsins framleigt til þriðja aðila. Þessa er hvergi er getið í skýrslu Garðars. Gert er ráð fyrir að sveitarfélagið ráðstafi hluta af tekjum vegna sölu byggingarréttar til að kaupa búseturétt, allt að 20% í umræddu þjónustuhúsi.  Ekki kemur heldur fram í skýrslunni að í samræmi við lög um framkvæmdasjóð aldraðra má gera ráð fyrir að sveitarfélagið fái óafturkræft lán frá framkvæmdasjóðnum, sem nemur allt að 20% af framkvæmdakostnaði eða um 160 milljónum. Þegar þetta fé fæst á sveitarfélagið val um að annað hvort endurgreiða sér það fé sem ráðstafað var af sölu byggingarréttar eða að kaupa aukinn búseturétt af Búmönnum og lækka þannig leiguskuldbindingar.

Varðandi framsetningu Garðars á skuldbindingum sveitarfélagsins við verktakafyrirtækið Ris í kafla 10 gerum við eftirfarandi athugsemd. Garðar setur saman í eina skuldbindingu, annars vegar skuldbindingu sveitarfélagsins við Ris vegna 1. áfanga gatnagerðar í Grænum miðbæ, þar sem hlutur sveitarfélagsins er 109,4 milljónir króna, og skuldbindingu vegna leigusamnings við Ris um leigu 500 fm. á jarðhæð miðsvæðishúss. Síðarnefnda skuldbindingu metur Garðar á 239,4 milljónir. Í þessu sambandi viljum við taka fram að vegna framkvæmda við fyrstu þrjú húsin í nýjum miðbæ, sem samningar liggja fyrir um eða eru í samningaferli, mun skapast tekjustofn gatnagerðargjalda fyrir u.þ.b. 150 milljónir. Þessa er hvergi getið í skýrslunni og einnig eru í þessu húsi sem Ris áformaði að byggja 16 íbúðir sem verða grunnur nýrra tekjustofna. Skuldbinding við Ris upp á 109,4 milljónir í gatnaframkvæmdum hefur verið fjármögnuð að fullu og ríflega það. Gagnvart skuldbindingunni um leigu jarðhæðar koma tekjur af sölu byggingarréttar upp á 79 milljónir króna og auk þess u.þ.b. 40 milljón króna í gatnagerðargjöldum. Enga sérstaka gatnagerð þarf fyrir umrætt miðsvæðishús sem stendur við safngötuna Bæjarmýri. Til viðbótar skal þess getið að umrædd hæð í miðsvæðishúsinu, sem er á jaðri skólasvæðis og tengist gönguleiðum skólans og miðbæjarins til norðurs og suðurs, gæti nýst í skólastarfi á Álftanesi eftir 2012 og m.a. auðveldað sveitarfélaginu að fresta um nokkur ár fyrirhuguðum viðbyggingum við Álftanesskóla. Næsti áfangi þeirra framkvæmda var áætlaður um 600 milljónir króna og gæti því sparnaður vegna fjármagnskostnaðar numið um 60 milljónum árlega. Þessi leigusamningur við Ris, sem hefur í för með sér lágmarksskuldbindingu, getur því haft verulega efnahagsleg þýðingu fyrir þróun sveitarfélagsins á næstu árum.

Eins og hér hefur verið lýst teljum við að kaflar skýrslunnar um skuldbindingar sveitarfélagsins vegna fasteigna- og leiguframkvæmda sé ónákvæmur og þar skorti umfjöllun um það hagræði sem skuldbindingarnar hafa í för með sér fyrir bæjarsjóð. Eins hefði ekki sakað að í skýrslunni kæmi fram að við allar stærri ákvarðanir varðandi stærri skuldbindingar hafi verið leitað sérfræðiálits og farmkvæmdir skuldþolsútreikningar. Þær hefðu mátt fylgja sem viðauki með skýrslu Garðars Jónssonar.

A5 og 6.  Framtíðarhorfur og skuldbindingar

Í samantekt þessara tveggja efnisatriða fjallar Garðar um skatttekjur sveitarfélagsins og rekstrarútgjöld og segir hann að minnka þurfi rekstrarútgjöld um 900 milljónir til að eiga fyrir áætluðum rekstri viðkomandi málaflokka og afborgunum skulda á næsta ári.

Í þessu sambandi er rétt að taka fram, og vísum þar til langtímaáætlana sveitarfélagsins, að ekki er gert ráð fyrir að sveitarfélagið greiði niður langtímalán sín á næstu árum en markmiðið er að forðast aukna skuldasöfnun. Niðurgreiðsla lána átti þannig að samræma frekari uppbyggingu á miðsvæðinu, sölu byggingarétta og áætlun um styrkingu tekjustofna. Rekstrarvandinn skv. þessu er því um 270 milljónir og í fjárhagsáætlun 2010, sem við kynnum með þessum athugasemdum, gerum við ráð fyrir að með hagræðingu, öflun óreglulegra tekna og með áðurnefndri leiðréttu á greiðslum úr jöfnunarsjóði verði þessi greiðsluvandi brúaður. Það má svo íhuga hvort nokkuð sveitarfélag í landinu sé í þeirri fjárhagsstöðu um þessar mundir að raunhæft sé að þau lækki skuldir sínar og þá hvort Álftanes sé nokkuð öðruvísi statt í þeim efnum en önnur sveitarfélög. Það er hinsvegar ljóst að miklu skiptir að ríkisvaldið með stuðningi við lánasjóð sveitarfélaganna auðveldi Álftanesi, eins og öðrum sveitarfélögum í landinu, að endurfjármagna fjárfestingalán sín.

A7.  Eignarhaldsfélagið Fasteign og kaupleigusamningur

Í samantekt um þetta efnisatriði fjallar Garðar um Eignarhaldsfélagið Fasteign og þær leiguskuldbindingar sem sveitarfélagið hefur gagnvart því. Við höfum að nokkru leyti rætt það hér áður, en viljum þó bæta við eftirfarandi. Garðar nefnir réttilega að leiguskuldbindingin, 2.960 milljónir, muni um áramót lækka í 2.123 milljónir. Hann hefði jafnframt mátt geta þess undir þessum lið að stjórn Fasteignar samþykkti í júlí s.l. breytingar á leiguskuldbindingum sveitarfélagsins, með endursölu á lóð hússins til sveitarfélagsins, sem lækkar skuldbindinguna um 12-15% til viðbótar. Þannig stefnir í að leiguskuldbindingar lækki um áramót um 40% og skuldbindingin falli úr tæpum 3 milljörðum í u.þ.b. 1.7 milljarð. Jafnframt gerum við athugasemdir við að þessar breytingar um lækkun skuldbindinga koma hvergi fram í tölulegri framsetningu í skýrslunni heldur er þar stöðugt talað um rúma 7 milljarða í skuldum og skuldbindingum. Sé tekið tillit til þessara fyrirhuguðu breytinga og tillit til þess að skuldbindingum gagnvart Búmönnum og Risi fylgja tekjur og hagræði fyrir bæjarsjóð sem staðfest hefur verið í sérfræðiskýrslum, er nær að tala um að skuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins séu um 4 milljarðar. Af þessum 4 milljörðum má rekja 1 milljarð beint til efnahagshrunsins á Íslandi.

A8.  Rekstur sveitarfélagsins eftir efnahagshrunið

Áttundi punktur Garðars fjallar um að þrátt fyrir 832 milljón króna halla hafi ekki verið gripið til viðhlítandi rekstrarhagræðingar.

Varðandi þennan lið viljum við taka fram að rúmar 500 milljónir af þessum 832 tengjast hækkun erlendra lána vegna rýrnunar krónunnar, en lánin voru á tveimur gjalddögum haustið 2009 og 2010. Bæjaryfirvöld gerðu ráð fyrir að endurfjármagna þessi lán og vonuðust til þess að hægt væri að gera það í erlendri mynt þannig að ekki þyrfti að innleysa gengistap vegna lánanna, heldur greiða þau við hagstæðari gengisskilyrði. Fyrrverandi bæjarstjóri átti viðræður bæði við fjármálaráðherra og ráðherra sveitarstjórnarmála fyrr á þessu ári um þetta efni og fékk vilyrði um að ríkisstjórnin myndi skoða fjármögnunarvanda Álftaness eins og annarra sveitarfélaga og að reynt yrði að aðstoða við endurfjármögnun lánanna í erlendum lánum. Skv. upplýsingum sem við höfum eru þessi mál enn í vinnslu á milli ríkisins og Lánasjóðs sveitarfélaga og er að vænta aðstoðar frá ríkisvaldinu við þessa fjármögnun. Í viðtölum við ráðherra kom fram að ef aðgerðir ríkisvaldsins í þessu efni lægju ekki fyrir í tíma þegar að gjalddaga kæmi hjá Álftanesi árið 2009 yrði að leiðrétta það við sveitarfélagið þegar aðgerðaáætlun væri tilbúin. Eins og áður hefur komið fram gerðu bæjaryfirvöld jafnframt ráð fyrir að gengi krónunnar styrktist eftir mitt ár 2009, eins og Seðlabanki Íslands hafði spáð fyrir um, og að hluti af gengisrýrnunin gengi til baka. Þess skal og geta að bæjayfirvöld höfðu farið í verulegar hagræðingaraðgerðir 2007, árið fyrir hrunið, og höfðu m.a. sett grunnskólanum rammafjárlög. Árangur þessara hagræðingaraðgerða má sjá ef borinn er saman rekstur ársins 2006 og 2007, en verulegur árangur náðist í lækkun kostnaðar. Eftir hrunið í október samþykkti bæjarráð og bæjarstjórn sérstaka áætlun um fjárhagsmál og þjónustumál og náðist um það samstaða meðal allra bæjarfulltrúa. Í þessari samþykkt er sú markmiðssetning að þrátt fyrir efnahagshrun verði grunnþjónustu og störfum í sveitarfélaginu hlíft og voru þetta hliðstæð markmið og önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu settu sér. Hér á Álftanesi var skipuð sérstök 10 manna samráðsnefnd framboðsfylkinganna í bæjarstjórn til þess að skapa samstöðu um þessi brýnu verkefni í kjölfar hrunsins. Á fundum bæjarráðs á árinu 2009 hafa fjárhagsmál sveitarfélagsins verið viðfangsefni á nær öllum fundum þess. Eðli málsins samkvæmt var ekki auðvelt að koma við miklum hagræðingaraðgerðum á haustmánuðunum eftir hrunið, enda eru fræðslu- og uppeldismál skipulögð á hverju vori fyrir komandi skólaár og því var lítið svigrúm til frekari hagræðingaraðgerða. Bæjaryfirvöld settu hinsvegar af stað vinnuhóp skólafólks til að endurskoða skólastefnu sveitarfélagsins og leita eftir aukinni samvinnu stofnana á skólasviði með tilliti til umbóta í skólastarfi og aukinnar hagræðingar.

Vegna samdráttar á vinnumarkaði sótti mikill fjöldi unglinga um sumarvinnu og var það mat bæjaryfirvalda að af félagslegum og forvarnarlegum ástæðum væri óforsvaranlegt að láta tugi ungmenna vera atvinnulaus sumarlangt. Var því ógjörningur að koma við sparnaði í vinnuskóla og unglinga og æskulýðsstarfi. Hætt var við ýmsar stærri fjárfestingar, eins og viðbyggingu við Álftanesskóla, en haldið áfram frágangi á skólalóðinni sem var óhjákvæmilegt þar sem lóðinni hafði verið raskað til að hefja byggingaframkvæmdir. Ákvarðanir voru teknar vorið 2009 um að stemma stigu við vaxandi kostnaði í tónlistaskólanum með því að draga úr áformuðu kennslumagni haustið 2009 og á sama hátt var dregið úr niðurgreiðslum til dagmæðra, heimagreiðslum til foreldra ungra barna. Þrátt fyrir þessar ákvarðanir hækkaði kostnaður vegna heimagreiðslna milli ára vegna ófyrirsjáanlegrar fjölgunar greiðsluþega og það sama á við um ýmsa aðra félagslega þjónustu. Þjónustugjöld í leikskólum og aðrar gjaldskrár voru hækkaðar í ágúst og ráðstafanir gerðar til að lækka leigu í íþróttamiðstöð með samningum við Fasteign um endurkaup á lóð íþróttamiðstöðvar, eins og áður er getið. Fasteign samþykkti þessar breytingar í júlí sl. og þarf að ganga frá breyttum leigusamningum fyrir lok þessa árs. Einnig voru ýmsir styrkir og viðburðir teknir út á úr fjárhagsáætlun, eða lækkaðir. Eins og hér kemur fram brugðust bæjaryfirvöld með ýmsum hætti við þeim vanda sem efnahagshrunið haustið 2008 og hallarekstur ársins orsökuðu og gerðu ráð fyrir því að gera frekari ráðstafanir til hagræðingar við fjárhagsáætlanagerð fyrir árið 2010. Í fjárhagsáætlunum sem fylgir þessum athugasemdum okkar gera bæjarfulltrúar Á-lista ráð fyrir því að raunhæft sé með blandaðri aðferð gjaldskrárhækkana og hagræðingar að ná fram sparnaði upp á 80-100 milljónir á milli áranna 2009 og 2010.

A9.  Horfur og forsendubrestur

Í umfjöllun Garðars um þetta efnisatriði segir að til þess að hægt sé að reka sveitarfélagið á sjálfbæran hátt þurfi að koma til verulegur utanaðkomandi stuðningur.

Við tökum undir það sjónarmið hans og minnum á að sveitarfélagið hefur rökstutt í skýrslu til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga að greiðslur til sveitarfélagsins þurfi að leiðrétta og stórauka vegna aldurssamsetningar íbúa, en hlutfall barna og unglinga er um 40% hærra á Álftanesi en í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, eins og áður er komið fram. Jafnframt þarf að taka tillit til veikra tekjustofna sveitarfélagsins, sem ekki hefur aðrar tekjur en fasteignaskatta og útsvar íbúa. Leiðrétting frá sjóðnum er því réttlætismál gagnvart Álftnesingum. Þess má einnig geta hér að bæjaryfirvöld höfðu gert áætlanir sem gera ráð fyrir breyttri aldurssamsetningu íbúa og auknu atvinnulíf, tengt uppbyggingu miðsvæðisins.

Varðandi kröfur sveitarfélagsins til jöfnunarsjóðsins er einnig rétt að það komi fram hér að Ragnar Aðalsteinsson lögmaður sveitarfélagsins telur að Álftnesingar eigi, og hafi átt, lögvarða stjórnarskrárbundna kröfu á hendur ríkinu til jöfnunar á útgjöldum til mennta- og fræðslumála, sannist að greiðslur úr Jöfnunarsjóðnum hafi ekki dugað til að mæta eðlilegum og sanngjörnum kostnaði sem Álftanes hefur, og hefur haft, af því að reka grunnskóla eins og lögboðið er.

Við lítum hinsvegar svo á að meðfylgjandi fjárhagsáætlun fyrir árið 2010 og langtímaáætlun til 2015 svari því skýrast hvernig bæjarfulltrúar Á-lista telja að þurfi að vinna að lausn fjárhagsvanda sveitarfélagsins. Við höfnum algjörlega þeim hugmyndum sem settar hafa verið fram um hækkanir fasteignaskatta, útsvars og stórfellds niðurskurðar á þjónustu til að leysa rekstrarvanda sveitarfélagsins og vísum í því sambandi til boðaðra aðgerða ríkisstjórnar um auknar skattaálögur.

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband