Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009
Bæjarfulltrúar leiðrétta rangfærslur vegna deilna um Miðskóga 8
5.2.2009 | 09:31
Að gefnu tilefni vilja bæjarfulltrúar Á- lista á koma á framfæri eftirfarandi um stöðu deilu, sem eigendur Miðskóga 8 hafa staðið í við sveitarstjórnina á Álftanesi. Skráður eigandi Miðskóga 8 er Eignarhaldsfélagið Hald ehf., en eigendur Halds eru Hlédís Sveinsdóttir arkitekt, Gunnar Árnason og Hinrik Thorarensen. Þau reyna nú að þvinga fram marga tugi milljóna króna í fébætur frá sveitarfélaginu vegna landspildu sem keypt var fyrir u.þ.b. 17 milljónir króna árið 2005.
Ásakanir á sveitarstjórn og persónulegar árásir
Ítrekaðar ásakanir, sem hafa birst í landsfjölmiðlum, frá eigendum Miðskóga 8 með rangfærslum á hendur sveitarstjórnar Álftaness knýja á um svör. Fréttaflutningur um deilur eigenda við sveitarfélagið hefur verið afar einhliða, nú síðast í sjónvarpsfréttum Stöðvar 2 föstudaginn 9. janúar. Jafnframt er kveðið á sömu nótum í ávarpi á heimasíðu þeirra og ásökunum einnig dreift á einblöðungi í hús á Álftanesi 10. janúar s.l.
Eigendur Miðskóga 8 hafa margsinnis, en óréttmætt, tengt deilur um byggingarleyfi þarna þeirri staðreynd að fyrrum forseti bæjarstjórnar býr á aðliggjandi lóð. Þessu hafa þau ítrekað komið á framfæri á opinberum vettvangi í þeim tilgangi að persónugera málið og gera afstöðu sveitarfélagsins ótrúverðuga þó að fyrir liggi samþykktir í Skipulags- og byggingarnefnd og bæjarstjórn um að ástæður fyrir höfnun byggingarleyfis séu málefnalegar og rökstuddar. Ásakanir um valdníðslu og ranga stjórnsýslu eru tilhæfulaus uppspuni, eins og héraðsdómur staðfestir árið 2007. Persónulegar árásir á fyrrum forseta bæjarstjórnar hafa verið sérlega rætnar og óvægnar og margar fullyrðingar beinlínis rangar.
Blaðaskrif sem hafa birst um deiluna hafa í mörgum tilvikum verið viðkomandi fréttamiðlum til lítils sóma og tregða okkar til svara á sama vettvangi hefur stafað af því að við höfum ekki viljað flytja eðlilega afgreiðslu sveitarfélagsins á vettvang fjölmiðla.
Í ljósi villandi fréttaflutnings og málatilbúnings sem umræddir eigendur Miðskóga 8 hafa ítrekað sent frá sér teljum við, bæjarfulltrúar Á-lista, okkur knúin til að koma eftirfarandi athugasemdum og staðreyndum á framfæri:
Lóð samkvæmt ósamþykktri deiliskipulagstillögu
Rétt er að taka fram í upphafi að núverandi bæjarstjórn telur að ekki liggi fyrir gilt deiliskipulag fyrir byggingarlóð að Miðskógum 8 og vísar frá kröfu eigenda um að miðað sé við ósamþykkta deiliskipulagstillögu frá 1981, enda fer u.þ.b. þriðjungur umræddrar spildu reglulega undir sjó. Þetta álit bæjarstjórnar fer saman við álit fyrrum sveitarstjóra til 12 ára, Gunnars Vals Gíslasonar, sem gegndi jafnframt embætti skipulagsfulltrúa. Í greinagerð sem hann lagði fyrir sveitarstjórnina árið 1998 segir Ekki er að sjá að raunhæft sé að staðsetja lóðina Miðskógar 8 þar sem hún er sýnd á uppdrætti Guðmundar Kr. Kristinssonar arkitekts (þ.e. tillagan frá 1981) neðan lóðarinnar Miðskógar 6.
Ljóst er að ekki náðist samstaða í byggingar- og skipulagsnefnd 1981 um deiliskipulagstillöguna og bókað í fundargerðir sveitarfélagsins á þeim tíma að tillagan væri ekki fullunnin. Vinnan við breytingar á deiliskipulaginu féll niður og tillagan frá 1981 um breytingu á áður samþykktu deiliskipulagi frá 1973 fékk því ekki staðfestingu af hálfu sveitarstjórnarinnar. Næstu árin voru leyfðar framkvæmdir með tilvísan í umrædda skipulagstillögu, - afgreitt lið fyrir lið. Því er nú hafnað af bæjaryfirvöldum að framkvæmdir sem leyfðar voru á svæðinu eftir 1981 gefi tillögunni í heild sinni vægi gildandi deiliskipulags, þ.e. að ósamþykktir hlutar tillögunar séu ígildi deiliskipulags með viðeigandi réttindum og skyldum.
Fyrrverandi meirihluti D-lista tók, stuttu fyrir kosningar 2006, jákvætt í fyrirspurn eigenda landspildunnar um hvort byggja mætti á þessum reiti. Sú stjórnsýsla kann að kalla bótaskyldu yfir sveitarfélagið, en ferill þessa máls var stutt á veg kominn fyrir kostningar og engin leyfisumsókn hafði borist. Umsókn um byggingarleyfi var svo hafnað af nýjum meirihluta, bæði með tilvísan í byggingarskilmála fyrir Miðskóga og að bygging á reitnum samrýmist ekki aðalskipulagi Álftaness. Málið er því miður ekki til lykta leitt ennþá.
Bæjaryfirvöld hafa reynt að finna sanngjarna lausn
Ranghermt er að bæjaryfirvöld hafi ekki reynt að finna lausn á umræddri deilu eða reynt að forða því að mál þróuðust svo sem hefur gerst. Hið rétta er að sumarið og haustið 2006 áttu eigendur lóðarinnar ítrekað fund með bæjarstjóra sem hvatti þau til að hverfa frá hönnun húss á umræddum stað þar sem bygging, við og ofaní friðaða fjöru við Skógtjörn, væri ekki í samræmi við aðalskipulag Álftaness og stefnu nýrrar bæjarstjórnar. Fram kom að bygging íbúðarhúss á þessum stað væri augljóslega andstæð áformum bæjarstjórnar um fyrirhugaðar framkvæmdir og endurbætur á fráveitukerfi íbúðahverfisins og gönguleiðar meðfram ströndinni. Hvatti bæjarstjóri á þessum tíma til þess að leitað yrði sátta í málinu og horfið frá byggingaráformum. Um svipað leiti var hafin vinna við endurskoðun deiliskipulags fyrir allt íbúðahverfið þar sem umrædd spilda er, m.a. vegna fyrirhugaðra endurbóta á fráveitu, skipulags göngustíga og vaxandi fjölda umsókna um breytingar á þeim húsum sem fyrir eru. Jafnframt er sú vinna í samræmi við stefnu bæjaryfirvalda að yfirfara skipulag eldri hverfa og færa ýmsar skipulagskröfur þar til betra horfs og til samræmis við nýjar reglur um skipulagsmál. Í endurskoðaðri og auglýstri tillögu að deiliskipulagi fyrir hverfið er ekki gert ráð fyrir að byggt verði á þessari umdeildu spildu, þ.e. við og ofaní friðaða fjöru við Skógtjörn.
Eigendur Miðskóga 8 féllust ekki á þessi sjónarmið, unnu áfram að hönnun byggingar á svæðinu og sóttu á ný um byggingarleyfi. Eins og komið er fram var umsókn um byggingarleyfið hafnað síðla árs 2006 og kærðu eigendur þá afgreiðslu til Héraðsdóms Reykjaness. Árið 2007 hafnaði Héraðsdómur kröfu eigenda og dæmdi afgreiðslu sveitarfélagsins rétta. Þá vísuðu eigendur málinu til Hæstaréttar og í dómsúrskuði frá apríl 2008 er fyrrgreind niðurstaða Héraðsdóms staðfest. Í báðum þessum dómum var því staðfest að stjórnsýsla sveitarfélagsins varðandi málið hafi verið í samræmi við lög og valdheimildir bæjarstjórnar.
Þegar þessi niðurstaða lá fyrir og ljóst að eigendur lóðarinnar ætluðu samt enn að reyna að fá byggingarleyfi á svæðinu, samþykkti bæjarráð, að ósk bæjarstjóra, heimild til að leita formlega sátta. Lögmanni sveitarfélagsins var falið að annast sáttaumleitanir við lögmann eigenda. Þessum sáttaumleitunum lauk fyrir skömmu, án árangurs, enda var mikið bil á milli aðila þegar kom að mati á bótum. Sveitarfélagið var reiðubúið til viðræðna um að greiða sanngjarnan og útlagðan kostnað til eigenda. Einnig var boðist til að hafa milligöngu um að eigendurnir fengju aðra lóð í sveitarfélaginu, ef kostur og áhugi væri á slíku.
Óbifanleg krafa eigenda um fébætur fyrir spilduna hljóðar hinsvegar upp á marga tugi milljóna króna. Krafan er óásættanleg fyrir sveitarfélagið og ljóst að of mikið ber á milli.
Eigendur Miðskóga 8 lögðu í nóvember s.l. fram kæru til Úrskurðarnefndar skipulagsmála, eftir að ósk þeirra um byggingarleyfi var hafnað öðru sinni af bæjarstjórn. Á sama tíma samþykkti bæjarstjórnin að auglýsa nýja deiliskipulagstillögu fyrir umrætt svæði og þar er ekki gert ráð fyrir byggingarlóð á viðkomandi spildu. Allt frá afgreiðslu fyrstu umsóknar um byggingarleyfi á Miðskógum 8 var, eins og áður sagði, eigendum spildunnar gert ljóst að ekki er vilji til að samþykkja að íbúðarhús rísi á fjörukambinum og er sú afstaða rökstudd með skírskotun til gildandi aðalskipulags og stefnu sveitarfélagsins Álftaness um náttúruvernd. Frekari ákvarðanir um byggingu á spildunni verða vart teknar meðan kæran liggur fyrir og beðið er niðurstöðu úrskurðarnefndar skipulagsmála - niðurstöðu sem hlýtur að byggja á rökstuddu áliti um það hvort fyrrnefnd deiliskipulagstillaga frá 1981, þar sem gert er ráð fyrir hinni umdeildu byggingarlóð, hefur ígildi samþykkts deiliskipulags í heild sinni eður ei.
Bæjarfulltrúum Á-lista ætlað að eiga þátt í árás á eigendur landspildunnar
Nú nýverið fullyrða eigendur landspildunnar, í landsfjölmiðlum og með dreifiblaði í öll hús á Álftanesi, að bréf með árásum á þau sem birtist á umræðuvef sveitarfélagsins í nóvember, hafi verið skrifað og sent af bæjarskrifstofum Álftaness, af bæjarfulltrúum Á-lista. Þetta verður að teljast hámark ósvífni og algjörlega óásættanlegt fyrir okkur að sitja undir.
Hið rétta er að við fjórir undirritaðir bæjarfulltrúar Á-lista höfðum aldrei séð umrætt bréf eða heyrt af því fyrr en það hafði verið fjarlægt af vef sveitarfélagsins strax eftir að skrifstofustjóra og bæjarstjóra var kunnugt um tilurð þess. Eins aðstoðuðu bæjaryfirvöld lögreglu við að rekja uppruna bréfsins.
Síðar þegar grunsemdir komu fram um að sending bréfsins kynni að tengjast forseta bæjarstjórnar óskuðum við bæjarfulltrúar Á- lista eftir því að hann stigi til hliðar, sem hann hefur gert með afsögn úr embætti forseta bæjarstjórnar og með því að hverfa úr bæjarstjórn.
Ábyrgð stjórnsýslu Álftaness á umræddu bréfi afmarkast aðeins við þá almennu ábyrgð sem hún ber á birtingum bréfa á umræðuvef sveitarfélagsins. Við hörmum öll skrif af þessu tagi, en nokkuð hefur því miður borið á slíkum skrifum undandarið, sem nú hefur leitt til þess að vefnum hefur verið lokað. Við vonumst til að framvegis verði gætt háttsemi í skrifum um málefni sveitarfélagsins á hvaða vettvangi sem þau kunna að vera.
Eigendur Miðskóga 8 reyna að þvinga fram óhóflegar fébætur
Ljóst er að framkoma eigenda Miðskóga 8 miðar öll að því að þvinga bæjaryfirvöld til að greiða þeim óhóflegar bætur og að þau telja að þeim leyfist að brjóta lög og reglur um háttsemi til að ná fram þeim tilgangi sínum. Það má furðu sæta að við þessi vinnubrögð njóta þau stuðnings forystu sjálfstæðisfélagsins á Álftanesi og hefur oddviti D-listans Guðmundur G. Gunnarsson m.a. aðstoðað einkahlutafélag eigendanna, Hald ehf., við að afla gagna vegna málatilbúnaðar í fyrrgreindum málaferlum fyrir Hæstarétti og hann þannig unnið gróflega gegn hagsmunum sveitarfélagsins.
Hér höfum við, eins og kostur er, gert grein fyrir stöðu málsins og væntum þess að þurfa ekki að svara frekari ásökunum og rangfærslum um þetta mál í framtíðinni.
Kristín Fjóla Bergþórsdóttir, bæjarfulltrúi Á-lista og forseti bæjarstjórnar
Margrét Jónsdóttir, bæjarfulltrúi Á-lista og formaður bæjarráðs
Sigurður Magnússon, bæjarfulltrúi Á-lista, og bæjarstjóri
Sigurbjörn Rafn Úlfarsson, bæjarfulltrúi Á-lista
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)