Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010

80% af áætluðum niðurskurði bitnar á börnum og unglingum

KFB

Kristín Fjóla skrifar:

Á Álftanesi búa um 2.500 íbúar. 33% þeirra - eða um 830 eru börn og unglingar. Frá því efnahagshrunið skall yfir íslendinga síðari hluta árs 2008 hafa ráðamenn ríkis og sveitarfélaga allir talað sem einn um mikilvægi velferðar barna og unglinga og haldið því á lofti að gæta beri þess að afleiðingar hrunsins bitni ekki á þeim. 

Þann 12. janúar sl. barst stjórnsýslu Álftaness tölvubréf frá umboðsmanni barna, Margréti Maríu Sigurðardóttur, þar sem hún minnir á 3. gr. Barnasáttmála Sameinuðuþjóðanna, en sú grein felur í sér; að það sem barni sé fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem þau varða. Segir umboðsmaður barna í bréfi sínu, að af ákvæðinu leiði m.a. það, að skylt sé að leita annarra leiða við niðurskurð, áður en þjónusta við börn sé skert með einum eða öðrum hætti.

Á Álftanesi búa börn og unglingar við annan veruleika. Þann 27. janúar sl. kynnti meirihluti bæjarstjórnar Álftaness tillögur sínar að niðurskurði vegna fjárhagsvanda sveitarfélagsins upp á um 180 milljónir, -þar af snúa um 140 milljónir með einhverjum hætti að starfi með, -og fyrir, börn og unglinga. Þessar tillögur hafa nú verið samþykktar af meirihluta bæjarstjórnar.

Í beinu framhaldi af þeim forsendubresti sem varð við efnahagshrunið á Íslandi haustið 2008 stendur Sveitarfélagið Álftanes nú frammi fyrirfjárhagsvanda sem finna þarf lausn á. Vissulega er, við þær aðstæður, eðlilegt að hagræða í rekstri og þrengja að, þar sem hægt er. Það þarf sjálfsagt hvert heimili í landinu að gera um þessar mundir, - en allt hefur sín takmörk.  

Þær tillögur sem nú hafa verið samþykktar af meirihluta bæjarstjórnar eru óásættanlegar fyrir íbúa sveitarfélagsins og það sem alvarlegast er við þær, er sú staðreynd að 80% af niðurskurðinum bitnar á barna- og unglingastarfi. Ég óttast að þessi stórfelldi niðurskurður muni stórskaða samfélag á Álftanesi með ófyrirséðum afleiðingum.

Með tillögum sínum hefur meirihluti bæjarstjórnar samþykkt: 

  • að leggja niður vinnuskóla unglinga í sumar
  • að skerða fjárframlög til tónlistarkennslu um 55% og setja framkvæmd hennar í hættu
  • að leggja niður stöðu íþrótta- og tómstundafulltrúa
  • að leggja niður stöðu leikskólafulltrúa
  • að leggja niður stöðu félagsmálastjórna
  • að leggja niður stöðu fræðslustjóra
  • að leggja niður stöðu forstöðumanns íþrótta- og sundmiðstöðvar
  • að fella niður íþrótta- og tómstundastyrki til barna og unglinga
  • að skerða mjög styrki til félaga eins og UMFÁ og skátafélgsins Svana, sem halda uppi starfi fyrir börn og unglinga
  • að hætta niðurgreiðslu hádegismáltíða fyrir grunnskólabörn
  • að hætta heimgreiðslum til foreldra ungra barna að loknu fæðingarorlofi
  • að fækka starfsmönnum Frístundar, -sem er vistun grunnskólabarna eftir að skóladegi lýkur
  • að fjölga börnum á leikskóladeildum
  • að draga úr aðkeyptri þjónustu sérfræðinga í leik- og grunnskóla
  • að skerða fjárframlög til grunnskólans um tugi milljóna
  • að lækka styrki til allra almennra félagasamtaka íbúanna
  • að hækka öll þjónustugjöld
  • að hækka fasteignaskatta og útsvar
  • að leggja niður stöðu skipulags- og byggingarfulltrúa 

Að lokum hefur verið samþykkt að stytta opnunartíma sundlaugar! Sundlaugarinnar sem kostaði svo mikið að hún er af sumum sögð hafa, - ein ogsér, sett sveitarfélagið á hausinn. Til viðbótar ákvörðunar um styttri opnunartíma bættist svo við, - á fundi bæjarstjórnar í gærkvöldi, að segja uppforstöðumanni sundlaugarinnar og sameina starf hans starfi íþrótta- og tómstundafulltrúa, - sem áður átti að leggja niður! Áætlað er að þessi breyting taki gildi á miðju sumri, þ.e. á háannatíma sundlaugarinnar, en til glöggvunar um umfang hennar, þá hafa rúmlega 84.000 gestir borgað sig ofan í laugina frá opnun hennar fyrir 9 mánuðum, 12.600 komur eru í Nautilus og um 9.000 komur í skólasund.

- Það er skrýtið að eiga mjólkurkýr,

borga ofan í hana fóðrið,

en hella svo niðurmjólkinni!

Allt að 84% skatttekna sveitarfélagsinsfara til uppeldis- og fræðslumála

Álftanes er á ýmsan hátt frábrugðið öðrum sveitarfélögum. Eitt af því semer óvenjulegt, - og um leið óheppilegt við Álftanes, er það að hér er ekkert atvinnulíf, - vegna þess að hér hefur aldrei verið hugsað fyrir því að koma því upp. Þótti ekki taka því, - það væri svo litlar tekjur af því að hafa!

Bygging þessarar eftirsóttu sundlaugar var m.a. einn hlekkur í þeirri keðju að byggja hér upp atvinnulíf með áherslu á menningartengda ferðaþjónustu. Aðsóknartölur sundlaugarinnar sýna að sá hlekkur var sterkur. 

Á sama tíma og meirihluti bæjarstjórnar Álftaness samþykkir samning við Eftirlitsnefnd sveitarfélaga um að leggja hér á aukna skatta og óbærilegan niðurskurð hefur hann ekki krafist, - og þá meina ég krafist, svara frá ríkinu, sem ber ábyrgð á starfsemi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, um það hvort leiðrétta eigi greiðslur til sveitarfélagsins Álftaness, en sýnt hefur verið fram á að þær séu of lágar. Það er óumdeilt hlutverk sjóðsins að honum beri að jafna aðstöðumun sveitarfélaga, og sá aðstöðumunur getur verið af ýmsum toga.

Á Álftanesi stafar hann fyrst og fremst af þeim óvenjulegu forsendum að hér er fjöldi barna um 40% meiri en að meðaltali í flestum öðrum sveitarfélögum og að sveitarfélagið hefur engar tekjur af atvinnulífi. Úthlutunarreglur sjóðsins virðast ekki ná að dekka þessar tvær breytur nægilega vel,  - en eins og áður sagði, eru þær báðar óvenjulegar. Ef það reynist rétt að þær reglur sem sjóðurinn úthlutar eftir í dag ná ekki aðjafna þann aðstöðumun sem Álftanes býr við þarf að breyta þeim reglum, - til aðrétt sé gefið.

Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafa ályktað um þetta efni til stuðnings Álftanesi, en ráðherra sveitarstjórnarmála og forysta sveitarfélaganna á landsvísu forðast efnislega umfjöllun um málið, - væntanlega af ótta við það aðkomi í ljós að kröfur Álftaness séu réttar, muni það skerða greiðslur til dreifbýlissveitarfélaga, þar sem sjóðurinn hefur einungis ákveðna upphæð til umráða. 

Ekki á ég þá ósk að við leiðréttingu okkar mála þurfi önnur sveitarfélög að taka á sig óréttmæta skerðingu, heldur krefst ég þess að rétt sé gefið. Það sem til þarf að koma, samhliða breyttum reglum, er aukið fé til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga svo hann geti, eins og honum ber skylda til, jafnað aðstöðumun ALLRA sveitarfélaga í landinu á sanngjarnan hátt.

Bæjarfulltrúar Á-lista hafa, allt frá árinu 2007, barist fyrir þessari leiðréttingu og fylgt málinu eftir af bestu getu og er farið að lengja eftir niðurstöðu. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hefur núverandi meirihluti bæjarstjórnar hinsvegar ekki viljað leggja þann kraft sem til þarf í að fylgja kröfunni eftir. Það er ótrúlegt að við, fulltrúar minnihluta í bæjarstjórn, skulum vera í því hlutverki að herja á ríkið um þessa leiðréttingu á meðan fulltrúar meirihlutans sitja hljóð hjá, bíða þess sem verða vill og ganga til samninga við  Eftirlitsnefnd sveitarfélaga um að leggja aukna skatta og óbærilegan niðurskurð á íbúana ánþess að krefja ríkið svara við þessari sanngjörnu og rökstuddu kröfu Álftaness. Hvað er það sem þau óttast?

Ég skora á nýstofnuð Hagsmunasamtök íbúa á Álftanesi að gera það að forgangskröfu sinni að fá þessar greiðslur leiðréttar. Það er krafan sem skiptir mestu máli fyrir fjárhag sveitarfélagsins, - þó að fleira þurfi að koma til.

Það er von mín, að sú Fjárhaldsstjórn sem nú hefur verið skipuð sveitarfélaginu sjái að ekki er hægt að ganga svo nærri samfélagi á Álftanesi sem meirihluti bæjarstjórnar hefur lagt til og samþykkt, og aðstoði okkur við að finna aðrar og ásættanlegri leiðir.

Kristín Fjóla Bergþórsdóttir er bæjarfulltrúi Á-lista

 

Bent er á umfjöllun Kristínar Fjólu á 79. fundi bæjarstjórnar, þann 27. janúar sl.  Slóðin er  http://www.alftanes.is/stjornsysla/fundargerdir/nr/13559/   og með því að stilla tímabendilinn á 4:39:10 komið þið beint að umfjöllun hennar.

 


Skýrslan, sem afhent var Jöfnunarsjóði sveitarfélaga fyrir tæpu ári

KGKristinn Guðmundsson skrifar:

Hér neðanmáls má nálgast skýrsluna sem svo oft hefur verið vitnað til í greinum og ræðum undanfarið um þann ójöfnuð sem Álftnesingar hafa búið við, alla vega frá aldamótum. Skýrslan, sem unnin var af starfsmönnum Sveitarfélagsins Álftanes í byrjun árs 2009, er ítarleg og gagnmerk úttekt á hlutfallslegum útgjöldum til fræðslumála á Álftanesi miðað við önnur sveitafélög. Það hefur verið fundið að skýrslunni að víða er komið við í samanburðinum, en það gerir jafnframt samanburðinn sterkari og styður við þá niðurstöðu að reiknireglur Jöfnunarsjóðsins ná ekki að taka tillit til aðstæðna á Álftanesi með sanngjörnum hætti. - Núgildandi úthlutunarreglur Jöfnunarsjóðsins miða við að leiðrétta þann aðstöðumun sem skapast út á landsbyggðinni þegar tekjur dragast saman vegna brottflutnings íbúa og hækkandi meðalaldurs. Það er því kaldhæðnislegt að reglurnar ná ekki utan um þann vanda sem getur skapast í litlu ört vaxandi samfélagi eins og á Álftanesi, aðlaðandi byggð sem ungar barnafjölskyldur utan að landi velja gjarnan til búsetu í nágrenni við fjölbreytt atvinnutækifæri á höfuðborgarsvæðinu. Andvaraleysi sveitarstjórnarmanna á Álftanesi hefur fyrst og fremst verið það að tryggja ekki að byggja upp atvinnurekstur í byggðinni og fjölga þannig tekjustofnum, því það hefur verið vitað allar götur frá því að fræðsla skólabarna var færð á hendur sveitarsjóða að útsvar og fasteignaskattar duga ekki til reksturs og uppbyggingar aðstöðu til að gegna skyldunni. Það er hins vegar stjórnarskrárbundin og lögvarin skylda ríkisins að þessi skylda skuli innt af hendi og fyrir hana greitt.

Það var á stefnuskrá Á-listans fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar að beita sér fyrir því að koma rekstri sveitarfélagsins upp úr þeim hjólförum sem fylgt hafði verið frá því að landbúnaður var aðalatvinna íbúa á Álftanesi. Staðan var orðin afar þröng, búið að selja nær allar eigur sem sveitarfélagið gat selt og lán tekin fyrir því sem upp á vantaði til þeirrar uppbyggingar sem hafði átt sér stað.  Því var ljóst, og þótti ekki gagnrýni vert þá, að til að skapa aðstæður fyrir atvinnurekstri sem gæti síðar styrkt stöðu sveitarsjóðsins þyrfti að auka skuldabyrgðina tímabunið. Forsendur þessarra ákvarðana breyttust, eins og allir skilja sem vilja, með bankahruninu. 

Skýrslan, sem hér er gerð aðgengileg, var kynnt á viðeigandi aðilum vorið 2009. Krafa Álftnesinga nú er að það þurfi að breyta reiknireglum Jöfnunarsjóðs og leiðrétta þann ójöfnuð sem þeir hafa þurft að búa við. Það ætti að vera forgangsverkefni að svara þessari vel undirbyggðu og sanngjörnu kröfu, því fyrr en það hefur verið gert er ekki viðeigandi að ráðskast með sjálfstæði sveitarfélagsins og deila á ákvarðanir um að byggja upp af myndarskap viðeigandi aðstöðu í samfélaginu til að sinna þjónustuhlutverki sínu og viðleitni til að skapa atvinnurekstur á Álftanesi, atvinnu sem samrýmist gildandi aðalskipulagi fyrir Álftanes og framtíðarsýn íbúanna um vernd nærumhverfis og fjölbreyttrar náttúru.

Kristinn er fulltrúi Á-listans í skipulags- og byggingarnefnd


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Úthlutunarreglur endurskoðaðar

SM andlitsmyndSigurður Magnússon skrifar um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, í Fréttablaðinu 26. febrúar 2010

Í fréttaskýringu í Fréttablaðinu í gær er fjallað um að fjárhagsreglur sveitarfélaganna séu til endurskoðunar hjá samgönguráðuneytinu, m.a. reglur um leyfilega skuldsetningu sveitarfélaga og færslu skuldbindinga. Eðlilegt er að gera umbætur á þessu sviði og ég hvet til aukinnar samvinnu ríkis og sveitarfélaga varðandi hagstjórn. Í fréttinni er talað við Halldór Halldórsson, formann Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem nefnir að í lögum og reglum beri sveitarfélögunum að kalla eftir sérfræðiáliti áður en það ræðst í stórframkvæmdir sem nema meira en fjórðungi tekna þess. Í fréttinni er sérstaklega talað um Álftanes, enda hefur því nýlega verið skipuð fjárhaldsstjórn vegna rekstrarerfiðleika.

Fyrir þá sem ekki þekkja til gæti einhver lesið út úr fréttinni að við ákvarðanatöku á Álftanesi vegna stærri framkvæmda hafi ekki verið fylgt þeim reglum sem hér er getið um að framan. Af því tilefni vil ég upplýsa að áður en bæjarstjórn Álftaness samþykkti samhljóða framkvæmdir við nýja íþrótta- og sundmiðstöð haustið 2006, var í samræmi við lög kallað eftir sérfræðiáliti. Ráðið var virt ráðgjafafyrirtæki sem áður hafði unnið fyrir bæjaryfirvöld á Álftanesi og hafði reynslu af fjármálaráðgjöf fyrir sveitarfélögin. Fengið var sérfræðiálit um skuldþol sveitarfélagsins og hvort hagkvæmara væri að byggja fyrir eigin reikning eða leigja mannvirkin af EFF ehf. Bæjarstjórn fór í öllu eftir fyrrnefndum álitum. Ráðgjafafyrirtækið studdist við tvenns konar upplýsingar frá bæjarstjórn; íbúaspá, samkvæmt fyrirliggjandi langtímaáætlun sem var hliðstæð hjá báðum framboðsaðilum í bæjarstjórn, og áætlanir bæjaryfirvalda um sölu byggingarréttar á nýju þjónustu- og miðbæjarsvæði. Þar lágu fyrir nýir samningar og viljayfirlýsingar við trausta fjárfesta og framkvæmdaaðila sem hægt var að styðjast við. Ákvarðanataka á Álftanesi var því eins vönduð og best gerist. Álftnesingar sáu hins vegar ekki, fremur en aðrir, fyrir þær efnahagshamfarir sem þjóðarinnar biðu haustið 2008.

Ég geri líka athugasemd við það sem fram kemur í fréttaskýringu, að uppbygging þjónustumannvirkja sveitarfélaganna eigi að hafa einhvern sérstakan forgang þar sem verið er að reisa álverksmiðjur. Á Álftanesi ætluðu bæjaryfirvöld af miklum metnaði að skapa grundvöll fyrir atvinnulífi sem byggðist á menningartengdri ferðaþjónustu og var ný sundlaug hluti af slíkri framtíðarsýn. Nú níu mánuðum eftir opnun sundlaugarinnar hafa 85 þúsund gestir heimsótt laugina og stefnir í að árlegur gestafjöldi sé um 100 þúsund manns, eða langt umfram það sem áætlað var. Sundlaugin gefur því kost á frekari þróun ferðatengdrar atvinnustarfsemi eins og gert er ráð fyrir í skipulagi hins nýja miðsvæðis, m.a. til að treysta tekjustofna sveitarfélagsins.

En það er fleira en fjárhagsreglur sveitarfélaganna, vegna fjárfestinga, sem þarf að endurskoða. Endurskoða þarf úthlutunarreglur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna. Fyrir liggur að sjóðurinn nær ekki að jafna aðstöðumun sveitarfélaganna, þannig hefur t.d. Álftanes búið við allt of litlar greiðslur um langt árabil. Til að hafa sömu fjárhagsstöðu og önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu vantar 150-200 milljónir árlega í auknar jöfnunargreiðslur. Álftanes hefur sýnt fram á þetta í vandaðri skýrslu um málið og stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hefur samþykkt áskorun um að reglum svæðisins verði breytt og jafnað betur sérstaklega vegna sveitarfélaga með hátt hlutfall barna og veika tekjustofna, eins og Álftanes.

Það er hins vegar eftirtektarvert að Halldór Halldórsson, formaður SÍSF, hefur ekki lýst yfir stuðningi við þessa sjálfsögðu leiðréttingu til Álftaness, sem þó er forsenda þess að Álftnesingar geti endurskipulagt fjármál sín og rekið sjálfstætt sveitarfélag. Einhverjir kunna að halda að þetta áhugaleysi formannsins skýrist af því að hann er líka bæjarstjóri á Ísafirði. Fyrir liggur í opinberum gögnum að Ísafjarðarbær fær helmingi hærri greiðslur frá Jöfnunarsjóðnum en Álftanes þótt rekstrarforsendur í sveitarfélögunum, fyrir jöfnun, séu hliðstæðar. Ég bíð eftir að Halldór Halldórsson tjái sig um það óréttlæti sem Álftnesingar hafa mátt þola árum saman og vonast enn eftir stuðningi hans við að leiðrétta jöfnunargreiðslur til Álftaness. Áhugasamir blaðamenn um fjármál sveitarfélaganna ættu líka að kynna sér þessi mál Jöfnunarsjóðsins og þær upplýsingar sem Álftnesingar hafa tekið saman um þetta efni

Sigurður Magnússon er bæjarfulltrúi Á-lista og fyrrverandi bæjarstjór

Viðreisn og nýsköpun í stað uppgjafar

SM andlitsmynd

Sigurður Magnússon skrifar:

Nú þegar afleiðingar skatta hækkana og niðurskurðar blasavið á Álftanesi, láta almennir íbúar heyra í sér. Haldnir hafa verið íbúafundir m.a. til að mótmæla skatta- og niðurskurðarstefnu meirihluta D-listans og Margrétar Jónsdóttur. Þessi íbúavakning ætlar að láta Fjárhaldsstjórnina, sem nýlega var skipuð til að fara með málefni Álftaness, heyra rödd sína. Fagna ber þessari umræðu og frumkvæði íbúanna eins og allri umræðu um orsakir hrunsins og vanda Álftaness, sem tapaði 1000 milljónum í hruninu og hafði fyrir veikatekjustofna og erfiðan rekstur. Það er samhljómur með tillögum Á-listans og hins almenna íbúa og mikilvægt að á næstu vikum skapist öflugur þrýstingur umbreytta stefnu.  Fjárhaldsstjórnin þarf að hlusta á athugasemdir og tillögurbæjarfulltrúa Á-lista í bæjarstjórn og tillögur og hugmyndir íbúanna.  Fjárhaldsstjórnin þarf að hverfa frá hugmyndum meirihluta bæjarstjórnar og draga úr áformuðum niðurskurði þjónustu. Eins þarf Fjárhaldsstjórnin, fremur en að rifta samningum og stöðva framkvæmdir á miðsvæði sveitarfélagsins, að leita leiða til áframhaldandi uppbyggingar sem styrki framtíðartekjur bæjarsjóðs. Ákvarðanir um sameiningarmál, sem meirhlutinn telur einu lausn Álftnesinga eru ótímabærar. Fyrst þarf að ljúka fjárhagslegri endurskipulagningu bæjarsjóðs, því niðurstaða úr þeirri vinnu hlítur að ráða miklu um viðhorf íbúanna til sameiningar. Þegar því marki hefur verið náð eiga Álftnesingar eins og aðrir íbúar á höfuðborgarsvæðinu að ræða um aukna samvinnu eða sameiningu og koma jafnir að slíkri umræðu. Í þessu sambandi er mikilvægast að leiðrétta greiðslur frá Jöfnunarsjóði.

D-listinn boðar uppgjafarstefnu á Álftanesi

Við fyrri umræðu um fjárhagsáætlun Álftaness fyrir árið 2010 og þriggja ára áætlun 2011-2013 lagði meirihluti D-lista til stórfelldan niðurskurð á þjónustu og hækkun útsvars og fasteignaskatts. Tilögunum var ætlaðað ná fram hagræðingu, sem á ársgrundvelli væru 120 milljónir í viðbótarsköttum og 180 milljónir í niðurskurði á þjónustu, samtals 300 milljónir. Um 80% niðurskurðarins var á skóla og æskulýðsstarfi. D-listinn gerði ráð fyrir að sveitarfélagið hætti aðild að framkvæmdum með Búmönnum hsf. og Risi ehf. á miðsvæðinu og þessar framkvæmdir því settar í óvissu. Þessar framkvæmdir höfðu þó skilað bæjarsjóði400 milljón króna tekjum 2009. Framkvæmdirnar höfðu verið fjármagnaðar af Íbúðalánasjóði og viðskiptabanka. D-listinn gerði heldur ekki ráð fyrir því við fjárhagsáætlunagerðina að leiðrétting fengist frá Jöfnunarsjóði, þrátt fyrir að rökstudd skýrsla liggi fyrir um þá mismunun sem Álftanes hefur búið við í mörg ár. Eftir að meirihluti Á-lista féll í fyrra hefur þeirri kröfu heldur ekki verið fylgt eftir eins og búið var að undirbúa, m.a. með lögfræðiáliti. Meirihlutinn kynnti því við fjárhagsáætlanagerðina stefnu uppgjafar, eða stefnusem leiðir til sameiningar við annað sveitarfélag í stað þess að reyna að ná fram sjálfbærum rekstri. En sjálfbær rekstur næst ekki fram án leiðréttingar frá Jöfnunarsjóði og án uppbyggingar, á miðsvæðinu, með tilheyrandi nýjum framtíðartekjum. Það hlítur hinsvegar að koma íbúum Álftaness á óvart að Sjálfstæðismenn sem hafa verið á móti sköttum á Alþingi telja í lagi að auka skatta á Álftanesi og að Sjáfstæðismenn sem tala fyrir atvinnuuppbyggingu á Alþingi tala fyrir uppgjöf á Álftanesi.

Framtíðarsýn með fjárhagslegri endurskipulagningu

Bæjarfulltrúar Á-lista gagnrýndu þessar tillögur meirihluta D-listans og sögðu að þær myndu rústa samfélagi á Álftanesi, verðfella eignir og rýra tekjustofna. Bæjarfulltrúar Á-listinn kynntu við fyrri umræðuna fjárhagsáætlunar tvær ólíkar tillögur að fjárhagsáætlun, báðar með um 100 milljóna í árlegri hagræðingu og hægri uppbyggingu með hagvexti eftir 2010, líkt og ríkistjórnin hefur áætlað í sambandi við fjárlagagerð ríkisins. Slík uppbygging mun skila nýjum skatttekjum og óreglulegum tekjum sem nemur u.þ.b. 150 milljónum árlega. Í annarri tillögunni gerir Á-listinn síðan ráð fyrir 200 milljón króna árlegri leiðréttingu frá Jöfnunarsjóði og að langtímaskuldir verði endurskipulagðar. Í hinni tillögunni er einungis gert ráð fyrir um þriðjungs leiðréttingu frá Jöfnunarsjóði, en í staðinn gert ráð fyrirþví að ríkið kaupi hlutafé Sveitarfélagsins Álftanes í Fasteign ehf. og sömuleiðis lóð fyrir menningar- og náttúrufræðisetur. Andvirði eignasölunnar yrði síðan notað til að kaupa til baka, af Fasteign ehf., íþrótta- og sundmannvirkin og létta með þeim hætti á árlegum rekstri um 140 milljónir. Í bæjarráði hefur bæjarfulltrúi Á-lista síðan flutt tillögu um að í stað þess að hætta við framkvæmdir Búmanna hsf. um byggingu þjónustuhúss verði verkefnið eflt með því að auka þjónustu í húsinu og reka þar litla hjúkrunardeild. Samhliða væri leiguskuldbindingum létt, að hluta, af sveitarfélaginu með því að fjölga samstarfsaðilum um rekstur hússins. Í því sambandi er hvatt til að taka upp viðræður við t.d. Sjómannadagsráð, sem rekur dvalar-og hjúkrunarheimili í nágrenni sveitarfélagsins.

Meirihluti D-lista samþykkti frávísun í bæjarstjórn á tillögur Á-lista, um sölu hlutafjár í Fasteign ehf. og sölu lóða, og tók ekki undir hugmyndir um hæga uppbyggingu. Hann tók líka fálega hugmyndum um að kalla nýja þjónustuaðila að framkvæmdum á miðsvæðinu. Meirihluta D-listans skortir framtíðarsýn fyrir Álftnesinga og sér ekki önnur ráð en að sameina Álftanes, helst við Garðabæ.  Á næstu vikum er mikilvægt að íbúar Álftaness taki undir hugmyndir bæjarfulltrúa Á-lista um aðrar áherslur við þá fjárhagslegu endurskipulagningu sem unnið er að. Gera þarf kröfu um að tekið sé á málum meðbjartsýni fremur en vonleysi og viðreisn og nýsköpun í stað uppgjafar.

Sigurður Magnússon er bæjarfulltrúi Á-lista og fyrrverandi bæjarstjóri

 


Framtíðarsýn íbúa á Álftanesi - heyrist rödd þín?

Dreifblöðungi með hvatningu um að halda á lofti framtíðardraumi Álftnesinga, skoðunum íbúanna á íbúaþingum sem efnt var til við endurskoðun aðalskipulags fyrir Álftanes 2005 - 2024, var komið í fjöldapóst fimmtudaginn 11. febrúar og dreift í öll hús á Álftanesi. Skilaboðin eru líka aðgengileg hér í viðhengi, neðanmáls. Á bakhlið dreifblöðungsins var prentuð greinin "Vandinn 4 milljarðar en ekki 7", sem lesa má hér á bloggsíðunni.

Álftaneshreyfingin hvetur alla sem vilja beita sér fyrir góðri framtíð samfélags á Álftanesi og sérstöðu byggðarinnar á höfuðborgarsvæðinu að íhuga stefnumál samtakana og málefnalega vinnu til að ná þeim markmiðum sem sett voru fram fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2006. Samtökin, sem starfar án formlegra tengsla við hefðbundna stjórnmálaflokka, kalla eftir samstöðu þeirra sem vilja að fyrrnefnd framtíðarsýn verði varin og studd í gegnum þá umbrotatíma sem framundan eru.

Hafðu samband sem fyrst og við minnum á að hægt er að senda skilaboð á alftaneshreyfingin@gmail.com

Uppstillingarnefnd Álftaneshreyfingarinnar fyrir sveitastjórnarkosningar 2010 / kg

ATH!                                                                                                            Ákveðið hefur verið að framlengja uppgefinn frest til að senda inn óskir og ábendingar til uppstillinganefndarinnar, á alftaneshreyfingin@gmail.com, fram til miðvikudagsins 17. febrúar.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Meint vanhæfi EFS - stjórnsýslukæra

Bæjarfulltrúar Á-listans, Sigurður Magnússon og Kristín Fjóla Bergþórsdóttir, lögðu inn stjórnsýslukæru  vegna meints vanhæfis tveggja af þremur aðilum sem falið var að fara í saumana á fjármálum Sveitarfélagsins Álftanes (skoða má stjórnsýslukæruna í 1_ viðhengi hér neðar).

Svar barst frá samgönguráðuneytinu og kæran sögð byggð á misskilningi (2_skoða svar frá ráðuneytinu) og frestur gefin til að falla frá kærunni.

Þegar kæran var send var ekki vitað að náin tengsl fleiri aðila sem að málinu komu dreifðust víðar. Um það má lesa nánar í svari við bréfinu (3_svar bæjarfulltrúanna við bréfi frá ráðuneytinu).


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Einelti,vanhæfi, - „Jón er ekki sama og séra Jón“

SM andlitsmynd

Sigurður Magnússon skrifar:

Álftanes er lagt í einelti, varla er svo opnað fyrir fréttir að ekki sé talað um fjárhagsvandann sem hefur verið ýktur og málaður dekkstu litum. Sagt er að afskrifa þurfi  4-5 milljarða þó hluti þeirrar upphæðar séu skuldbindingar sem afla bæjarsjóði tekna. Enginn munur er gerður á hefðbundnum bankalánum og skuldbindingum sem færa bæjarsjóði tekjur s.s. hagnað vegna sölu byggingaréttar sem er auk þess grunnur framtíðartekna. Tillögur vegna vandans eru refsiskattar á Álftnesinga og hótanir um stórfelldan niðurskurð sem meirihluti D-lista og Margrétar Jónsdóttur hefur ákveðið í samráði við Eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaganna. Á sama tíma líðst ríkisvaldinu að afgreiða ekki kröfur Álftnesinga um leiðréttingar frá Jöfnunarsjóði. Ríkisvaldið  beitir aflsmunum og nýtur aðstoðar taumþægrar bæjarforystu sem hefur gefist upp. Sjálfstæðismenn hafna sköttum á Alþingi en samþykkja þá á Álftanesi ofan á ríkisskatta. Hvar er trúverðuleikinn!

Halldór Halldórsson í felum

Eineltis umræðunni stýra stjórnmálamenn og embættismenn sem ætla með öllum ráðum að sameina Álftanes Garðabæ og á Garðatorgi bíða menn átekta. Stjórnmálamenn og embættismenn ætla að losna  undan ábyrgða að leiðrétta við Álftnesinga margra ára mismununun í greiðslum frá Jöfnunarsjóði. Framreiknaðar eru þessar greiðslur yfir  1000 milljónir. Forystumenn Samtaka  íslenskra sveitarfélaga, sem bera, að hluta, ábyrgð á gölluðu regluverki sjóðsins kjósa að aðhafast ekkert. Formaður þeirra, Halldór Haldórsson, fer í felur þegar málið er rætt opinberlega.  Ísafjörður, þar sem Halldór er bæjarstjóri, fær u.þ.b. 30% skatttekna sinna úr Jöfnunarsjóði meðan,  Álftanes fær u.þ.b. 15% sinna skatttekna frá sjóðnum. Bæði  eru sveitarfélögin þó eins sett rekstrarlega fyrir jöfnun. Til að jafnræði væri með þeim vantar árlega 150 milljónir til Álftaness.

Tveir út á land og einn á höfuðborgarsvæðið

Fjárhaldsstjórnin sem nú hefur verið skipuð hlýtur að benda ráðherra á mikilvægi þess að leiðrétta þetta misvægi og leiðrétta aftur í tímann. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa þó ályktað með Álftanesi, en það dugar ekki vegna dreifbýlishagsmuna í landssambandi sveitarfélaganna, sem ráðherra sveitastjórnarmála ver með afli sínu. Hér gilda greinilega sömu leikreglur eins og í fjárveitingum til vegamála, tveir út á land og einn á höfuðborgarsvæðið.

Afskrifað á Tónlistahús eins og á útrásarvíkinga

Meðan Álftanes er þannig lagt í einelti eru skuldir fyrir milljarða afskrifaðar á Tónlistahúsið með sama hætti og hjá útrásarvíkingunum. Harpan er líka samstarfsverkefni útrásarvíkinga og borgaryfirvalda,- vonandi verða þær afskriftir ekki til þess að hækka vexti borgarinnar! Maður þorir nú ekki að nefna hinar stóru afskriftir tengdar Samskipum og Högum og öðrum þeim sem skulduðu hundruði milljarða. Vandi fjölmargra sveitarfélaga er mikill, vegna skulda hafna og fráveitu- eða orkufyrirtækja sem gætu kollvarpað fjárhag viðkomandi sveitarfélaga, enda þessi rekstur inni í samstæðureikningum þeirra. En þegar talað er um þennan vanda er hann sagður hluti af gengishruninu meðan vandi Álftaness er sagður stafa af ákvörðun bæjarstjórnar að byggja glæsilega sundlaug, þar sem engin var fyrir. Álftaneslaugin glæsilega og vinsæla kostaði minna en sem nemur tjóni Álftaness vegna bankahrunsins. Að tala um hana sem bruðl eða að Álftnesingar hefðu getað sótt laugar í nágrannabæjum er óréttmæt gagnrýni, þótt líklega hefði verið reynt að áfangaskipta framkvæmdinni ef bæjarfulltrúar hefðu séð hrunið fyrir 2006. Sérkenni Álftaneslaugarinnar sem oft eru nefnd í fréttum, vatnaleiktæki og öldulaugin sem kostuðu aðeins fáar milljónir, laða hinsvegar að sér tugþúsundir gesta, og þannig skilar fjárfestingin sér til baka í auknum aðgangseyri.  Um þessa eineltis umræðu gildir orðtakið „Jón er ekki sama og séra Jón".

Stjórnsýslukæra vegna vanhæfis embættismanna

Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaganna ber mesta ábyrgð á þeirri ýktu umræðu sem skapast hefur um fjárhagsvanda Álftaness. Það eru ýkjur að ræða um  7-8 milljarða þegar verkefnið er miklu fremur að endurskipuleggja u.þ.b. 4 milljarða skuldir og skuldbindingar. Verkefni að endurskipuleggja 4 milljarða er viðráðanlegt með leiðréttingum á málum Álftaness, meðan 7 milljarðar eru rökstuðningur fyrir tillögum um sameiningu. Bæjarfulltrúar Á-lista hafa sent stjórnsýslukæru vegna vanhæfis tveggja af þremur fulltrúum í Eftirlitsnefndinni, en þessir fulltrúar hafa annaðhvort haft náin tengsl við stjórnsýslu Garðabæjar eða hafa áður talað opinberlega fyrir sameiningu sveitarfélaganna. Af þessum ástæðum geta þeir ekki með hlutlausum hætti fjallað um mál sem varðar sjálfstæði Álftaness. Ráðuneyti sveitastjórnamála telur kæruna vera byggða á misskilningi og vill forðast úrskurð eða efnislega umfjöllun. Þannig segir í svari frá ráðuneytið að  nefndin fjalli ekki á sjálfstæðan hátt um sameiningu, en horfir fram hjá því að nefndin knúði sveitastjórn til viðræðna um sameiningu. Auk þess stýrði nefndin fjárhagsúttekt sem telja má hlutlæga. Til að kóróna þessi vinnubrögð réði D-listinn á Álftanesi sér utanaðkomandi aðstoð til að móta niðurskurðartillögur og sérskatta á íbúa  Álftaness. Og hver var ráðinn til verksins, án útboðs þrátt fyrir reglur bæjarstjórnar, jú, það var endurskoðandi Garðabæjar!

Óásættanlegir sérskattar og niðurskurður grunnþjónustu

Fjárhagsvandi Álftaness er mikill og krefst lausna. Ástæður vandans eru fyrst og fremst þrjár. Í fyrsta lagi, veikir og einhæfir tekjustofnar, ekkert atvinnulíf færir skatta í bæjarsjóð. Í öðru lagi gríðarlega hátt kostnaðarhlutfall vegna fræðslu- og uppeldismála, en  börn og unglingar eru 40% hærra hlutfall íbúa en algengast er í öðrum sveitarfélögum. Þessir erfiðu rekstrarþættir hafa ekki fengist jafnaðir frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaganna vegna gallaðs regluverks  sjóðsins.

Í þriðja lagi er það svo efnahagshrunið og  gengisfall krónunnar sem hækkaði lán sveitarfélagsin um u.þ.b. 1000 milljónir. Afleiðing efnahagshrunsins eru  fordæmalausar aðstæður, sem ollu miklu tjóni og hægja á áformum um uppbyggingu miðsvæðis sem átti að bæta fjárhagsstöðu Álftaness. Við þessar aðstæður er eðlilegt að ríkisvaldið komi til aðstoðar litlu sveitarfélagi. Óásættanlegt er að leysa  vandan með sérsköttum á íbúana og niðurskurði grunnþjónustu.

Sigurður Magnússon er bæjarfulltrúi Á-lista og fyrrverandi bæjarstjóri á Álftanesi

Þriðjungur fundarmanna stappaði niður fótum á íbúafundi

 Mynd Ómars Óskarssonar frá íbúafundinum, á MBL

Kristinn Guðmundsson skrifar:

Mælikvarði á fylgi D-lista á Álftanesi?

Haldinn var íbúafundur 17. desember til að kynna Álftnesingum fjárhagsstöðu Sveitarfélagsins Álftanes. Undirbúningur fundarins og dagskráin var ákveðin án nokkurs samráðs við minnihluta bæjarstjórnar. Eðlilegt hefði verið að bæjarstjórn stæði saman að kynningunni. Fyrrum bæjarstjóri Sigurður Magnússon fór fram á það við fundarstjóra að hann fengi 10 mínútur til að kynna athugasemdir minnihlutans á eftir kynningu bæjaryfirvalda og fulltrúa Eftirlitsnefndar sveitarfélaganna, en síðarnefndir aðilar tóku sér klukkustund í upphafi fundarins. Þetta samþykkti fundarstjórinn, en viðbrögð stórs hóps sjálfstæðismanna í salnum voru að standa þá upp og ganga til dyra með háreistum og stappa þar niður fótum. Þetta kom í sjálfu sér ekki á óvart. Þessir aðilar ekki verið þekktir fyrir kurteisi í gagnrýni sinni á bæjarfulltrúa Á-lista, sem tóku af þeim völdin með naumum meirihluta í síðustu sveitarstjórnakosningum. Frá þeim tíma hefur Á-listinn unnið að krafi að þeim markmiðum sem kynnt voru í upphafi, þ.e. að búa í haginn fyrir atvinnurekstur á nesinu sem fellur að sérstöðu sveitarfélagsins. Þessi þróun hefur mælst vel fyrir í samfélaginu, en virðist ekki höfða til hóps íhaldsmanna sem kannski sjá ofsjónum að í þessu er boltanum ekki bara varpað til einkareksturs og beðið eftir því sem verða vill. Þeim hlýtur þó að vera ljóst að það þarf að koma fleira til en útsvar og fasteignagjöld til að sveitarsjóður geti staðið undir þjónustu við íbúana eins og er almennt í boði í nágrannasveitarfélögunum og uppbyggingu á viðeigandi aðstöðu sem fjölgun íbúa krefst.

Eftir nefndan íbúafund var á forsíðu Morgunblaðsins greint frá fundinum og réttilega sagt að þessi órólegi hópur sjálfstæðismanna var um þriðjungur fundarmanna. Væntanlega gefur atburðurinn góða vísbendingu um fylgi D-listans í komandi sveitarstjórnarkosningum.

 Kristinn Guðmundsson er fulltrúi Álftaneshreyfingarinnar í skipulags- og byggingarnefnd


Vandinn 4 milljarðar en ekki 7

Kristín Fjóla Bergþórsdóttir og Sigurður Magnússon skrifa:

Þessa dagana er mikil umræða um fjárhagsvanda Álftaness og í öllum fréttum er talað um að skuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins séu um 7 milljarðar samkvæmt skýrslu sem Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga lét gera og hinn nýji „starfhæfi meirihluti" D-listans hefur ekki séð ástæðu til að gagnrýna, -enda úttektin unnin í nánu samráði við bæjaryfirvöld og þannig lituð af skoðunum meirihlutans, sem skortir trú á framtíð Álftaness. Nú hefur Eftirlitsnefndin í framhaldi samstarfs við meirhlutann um tillögugerð þar sem áhersla er lögð á skattahækkanir, stórfelldan niðurskurð þjónustu, gert tillögu um að sveitarfélaginu verði skipuð fjárhaldsstjórn. Af því tilefni þykir okkur rétt að skýra okkar sjónarmið.

Við viljum ekki gera lítið úr vanda Álftaness, en teljum rangt að mála aðstæðurnar dekkri litum en ástæða er til. Það auðveldar ekki lausn mála og við höfum gert athugasemdir við þessa framsetningu.

Bæði að þær skuldir og skuldbindingar sem þarf að glíma við og endurskipuleggja séu sagðar um 7 milljarðar, þegar réttara er að þær séu rúmir 4, -á þessu er megin munur. Hærri talan knýr á um sameiningu við annað sveitarfélag á meðan lægri upphæðin er viðráðanleg ef Álftanes fær réttláta leiðréttingu sinna mála.

Varðandi þá skoðun okkar að réttara sé að tala um vanda upp á 4 milljarða fremur en 7 eru það einkum þrjú atrið sem við teljum að hefði átt að setja fram á annan hátt, og ekki látið nægja að horfa á skuldir og skuldbindingar einar sér, heldur að meta fremur peningalega stöðu. Þannig verður myndin af vandanum skýrari.

1. Samningar við Búmenn hsf. og Ris ehf. vegna framkvæmda í grænum miðbæ sem fóru af stað á liðnu sumri, upp á 1.2 milljarða eru taldir með skuldum og skuldbindingum, -án allra útskýringa.
Áður en bæjarstjórn tók ákvörðun um þessar framkvæmdir var kallað eftir sérfræðiáliti um áhrif þeirra á bæjarsjóð. Þar segir að samhliða skuldbindingunni fái bæjarsjóður nýjar tekjur af mannvirkjum og nýjum íbúum.
Vegna þjónustumiðstöðvar aldraðra, sem er hluti af framkvæmdinni, fær bæjarsjóður líka styrk frá Framkvæmdasjóði aldraðra, auk þess sem hluti leiguskuldbindingarinnar verði yfirfærður á þriðja aðila.
Í niðurstöðum þessa sérfræðiálits kemur fram að hagnaður og hagræði bæjarsjóðs af skuldbindingunni sé hærri en skuldbindingin sjálf og því muni þessi ákvörðun styrkja stöðu bæjarsjóðs. Í fjárhagsúttekt Eftirlitsnefndarinnar er þessara staðreynda hvergi getið og núverandi bæjaryfirvöld hafa ekki séð ástæðu til að leiðrétta, -enda virðast þau stefna á það eitt að stöðva framkvæmdir á miðsvæðinu, valda bæjarsjóði milljóna tjóni og henda frá sér framtíðar tekjum.

2. Skammtímaskuldir eru sagðar tæpir 1.4 milljarðar, en þess er ekki getið að bæjarsjóður á rúmar 600 milljónir í skammtímskröfum til að mæta þessu. Því er réttara að segja að skammtímaskuldir séu 800 milljónir.

3. Skuldbinding vegna leigu íþróttamannvirkja af Fasteign ehf. eru sagðir 3 milljarðar og er þá miðað við núvirta leiguskuldbindingu til 30 ára. Þessir útreikningar miðast við leigukjör á árinu 2009, en ekki við þá staðreynd að leigan lækkaði um síðustu áramót. Búið var að samþykkja í bæjarstjórn Álftaness og stjórn Fasteignar breygingu á leigusamningi vegna lóðar íþróttamannvirkjanna, en þessi breyting fól í sér 12% lækkun leigunnar út leigutímann. Stjórn Fasteignar hafði jafnframt ákveðið 28.3% lækkun leigunnar um síðustu áramót til Álftaness, eins og annarra leigutaka sinna. Það lá því fyrir, þegar skýrslan var gerð, að leiga myndi lækka um rúm 40% um áramót. Væri tekið tillit til þessa, sem ekki er gert í skýrslunni, lækkar núvirt leiguskuldbinding úr 3 milljörðum í 1.8. Rétt er að geta þess að ákvörðun stjórnar Fasteignar um 28.3% lækkun leigunnar er ákveðin til 12 mánaða og á þá að endurskoðast. Lækkunin er fyrst og fremst vegna þess að það tókst að semja um lægri millibankavexti fyrir hluta af lánasafni Fasteignar. Framkvæmdastjóri Fasteignar hefur látið hafa eftir sér að hann vonist til þess að þessi lækkaða leiga geti að 12 mánuðum liðnum verið framlengd og leigusamningum breytt í samræmi við það. Hann hefur sagt að vissulega kunni millibankavextir að hækka eitthvað aftur, en á móti komi áætluð hægfara styrking krónunnar sem mæti þá slíkri hækkun.

Við mat á fjárhag Álftaness kýs Eftirlitsnefndin að mála aðstæður dekkstu litum og gera ekki ráð fyrir hægum efnahagsbata í þjóðfélaginu þrátt fyrir það að landsstjórnin í áætlunum sínum fyrir þjóðarbúið geri ráð fyrir slíkum hægum bata. Þetta mat nefndarinnar er í takt við áherslur nýs meirihluta D-lista á Álftanesi. Þetta viðhorf einkennir mat þeirra á framkvæmdum í miðbæ Álftaness og mat þeirra á öðrum framtíðarskuldbindingum sveitarfélagsins.

Við erum ósammála þessu viðhorfi. Það stangast á við þær áætlanir ríkisvaldsins að eftir 2010, -jafnvel síðla þess árs taki við nýtt ferli hægs efnahagsbata og hagvaxtar. Við teljum eðlilegt að sveitarfélögin fylgi hliðstæðri áætlunargerð. Aldrei hefur verið brýnna en nú að þjóðin efli með sér trú og kjark í stað bölmóðs og svartsýni.
Meirihluta Á-lista tókst á liðnu sumri, -þegar nágrannasveitarfélögin þurftu að taka á móti lóðaskilum, að selja byggingarrétt fyrir rúmar 400 milljónir. Nýr meirihluti hyggst nú skila þessu fé og stöðva framkvæmdir með tilheyrandi kostnaði og skaðabótakröfum framkvæmdaaðila. Þau hafa því valið leið uppgjafar í stað viðreisnar og nýsköpunar.

Þær tillögur að niðurskurði og skattaálögum sem bæjarstjórn hefur ákveðið að fara og sett fram í samningum við Efitirlitsnefndina eru að okkar mati ófær leið og mun á skömmum tíma eyðileggja samfélag á Álftanesi. Viðbótar skattaálögur munu því ekki skila sér í bæjarsjóð eins og D-listinn er að áætla, því þeir sem geta munu eflaust flýja þessar aðstæður og þannig munu tekjustofnar rýrna.

Vissulega er vandinn mikill og erfiður viðfangs, en þrátt fyrir það teljum við að til séu aðrar leiðir, sem hlífa grunnþjónustu í samfélaginu, og höfum við því til rökstuðnings lagt fram tillögur okkar að fjárhagsáætlun í bæjarstjórn. Tillögur okkar gera ráð fyrir u.þ.b. 100 milljón króna hagræðingu í stað 300 milljónum hjá meirihlutanum, leiðréttingu á jöfnunargreiðslum, hægri uppbyggingu og endurskipulagningu lánasafns. Tillögur okkar eru vandaðar og vel rökstuddar. Þær hafna óhóflegum niðurskurði, sérsköttun á íbúana og byggjast á framtíðarsýn.

Kristín Fjóla Bergþórsdóttir er bæjarfulltrúi Á-lista og Sigurður Magnússon er bæjarfulltrúi Á-lista og fyrrverandi bæjarstjóri.


Athugasemd við yfirklór Halldórs Halldórssonar

SM Sigurður Magnússon skrifar:

Í gær skrifaði ég pistil visi.is í tilefni af fréttaviðtali við Halldór Halldórsson, formann Sambands íslenskra sveitarfélaga og bæjarstjóra á Ísafirði.

Í viðtalinu sem fjallaði um fjárhagsvanda Álftaness sagði hann að ríkið yrði að koma að málum, en ekki endilega með fjárstuðningi. Þetta sagði formaður Samtaka íslenskra sveitarfélaga þótt honum væri kunnugt um greinargerð Álftaness til Jöfnunarsjóðsins þar sem rökstudd er krafa um leiðréttingu á jöfnunargreiðslum. Í grein minni sýndi ég fram á að greiðslur til Ísafjarðar eru miklu hærri en til Álftaness og taldi það sanna að regluverk sjóðsins þyrfti endurskoðunar við. Til að sveitarfélögin væru jafnsett þyrftu árlegar greiðslur til Álftaness að hækka um 150 milljónir.

Á fréttavef www.bb.is er haft eftir Halldóri að samanburður minn sé rangur af því að sveitarfélögin tvö séu ekki samanburðarhæf, m.a. vegna þess að aðstæður séu ólíkar t.d. séu fleiri skólar á Ísafirði . Þetta er yfirklór hjá formanninum. Að sjálfsögðu eru þessi tvö sveitarfélög ólík um margt t.d. eru 60% fleirri leikskólabörn á Álftanesi og 20% fleiri grunnskólabörn og margt annað mætti nefna, s.s. að nær ekkert atvinnulíf er á Álftanesi sem færir tekjur í bæjarsjóð.

En þetta er ekki kjarni málsins heldur sú staðreynd sem ég nefni í grein minni að fjárhagsaðstæður,- áður en greitt er úr Jöfnunarsjóði eru sambærilegar í báðum sveitarfélögunum, þ.e.a.s., tekjur deilt á íbúa þær sömu og eins rekstrarkostnaður. Því þarf að spyrja af hverju fær annað sveitarfélagið þ.e.a.s Ísafjörður miklu hærri greiðslur frá Jöfnunarsjóði og styrkir þannig rekstur sinn umfram Álftanes? Af hverju mælir reiknivél sjóðsins aðstæður á Ísafirði umfram aðstæður á Álftanesi, Ísafirði til tekna, og vanmetur séraðstæður á Álftanesi s.s. hátt hlutfall barna og skort á tekjum frá atvinnulífi? Er ekki Halldór, formaður Sambandsins, sammála því að mikilvægt sé að styðja við barna- og æskulýðsstarf sveitarfélaganna og að hlúa beri sérstaklega vel að samfélagi með hátt hlutfall barna og unglinga?

Hvers vegna þá að hafa Álftanes afskipt sem er með um 40% hærra hlutfall barna og unglinga en landsmeðaltal?

Formaður Sambands íslensksra sveitarfélaga getur ekki, þótt hann sé bæjarstjóri á Ísafirði og vilji verja tekjur sinnar heimabyggðar, skautað yfir þessar staðreyndir og reynt að þagga umræðuna um þá mismunun sem Álftanes hefur verið beitt árum saman. Hann má ekki rugla saman hlutverki sínu sem bæjarstjóri og skyldum sínum sem formaður íslenskra sveitarfélaga.

Sigurður Magnússon, bæjarfulltrúi og fyrrverandi bæjarstjóri á Álftanesi.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband