Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010

Svar Álftnesings við sleggjudómum og moldviðri

KG

Kristinn Guðmundsson skrifar: 

Það eru bæði gömul sannindi og ný á Fróni að „Jón er ekki sama og séra Jón". Illu heilli eru alltaf einstaklingar sem þykir við hæfi að snúa blindu auga við því sem þeir vilja ekki sjá, en eru fljótir til að ata óþverra upp á aðra. Því miður eru bloggheimar vettvangur margra slíkra - eiturnaðra - svo málefnaleg umræða fellur í skugga. En, það má ekki láta þetta yfirskyggja allt annað.

Slæm staða bæjarsjóðs og ósáttur talsmaður D-lista

Það kom réttilega fram í athugasemd við frétt af fundi Álftaneshreyfingarinnar á mbl.is þann 25. mars, að útlit varðandi rekstur bæjarsjóðs á Álftanesi var ekki gott er Á-listinn tók þar við forystuhlutverki í bæjarstjórn, en viðkomandi virðist ekki, eða vill ekki, átta sig á að Álftaneshreyfingin var og er tilbúin til að bretta upp ermarnar. Hann og félagar hans hafa enn ekki getað fyrirgefið sér fyrir það að vanmeta þá áætlun sem Álftaneshreyfingin kynnti til úrbóta fyrir síðustu sveitastjórnarkosningar, 2006. Álftnesingar völdu þá framtíðarsýn og stefnumál Á-lista. Aðgerðaáætlunin sem fulltrúar Á-listans settu fram, þ.e. heildstæð áætlun um hvernig hægt væri að snúa vonleysislegri vörn fyrri meirihluta í sókn, er skýr. Þar kom líka fram að ef ekkert yrði að gert þá stefndi sveitasjóður í þrot, því innan sveitarfélagsins var og er enn nánast enginn annar atvinnurekstur en sá sem sveitarfélagið stendur fyrir til þjónustu við íbúana. Það hefur aldrei verið beinlínis til þess fallið að auka tekjur sveitarsjóðs, en það vantar tekjur til að gefa svigrúm til uppbyggingar á þjónustuaðstöðu fyrir íbúa sveitarfélagsins, s.s. skóla og íþróttamannvirki, og safna í sjóð sem er megnugur til að mæta áföllum og óvæntum útgjöldum. Það var alveg ljóst að enginn kostur var né er á slíku við óbreyttar aðstæður. Það var umtalað að fjárhagslegt svigrúm til breytinga var lítið sem ekkert er Á-listinn hófst handa, enda hafði forysta Sjálfstæðisfélagins lengi látið reka á reiðum, selt eignir og framkvæmt án þess að innistæða væri fyrir því. Til dæmis um það má nefna að eitt af fyrstu verkum nýrrar bæjarstjórnar, sumarið eftir kosningarnar 2006, var að taka lán til að greiða upp fyrir byggingu nýs leikskóla og stækkun íþróttahúss. Lánatakan, hátt í hálfur milljarður, féll þannig í skaut fulltrúa Á-listans. Nú þykir áróðursriturum D-lista sjálfsagt að telja þessi útgjöld með er þeir úthúða andstæðinga sína fyrir óráðsíu. Málefnaleg afstaða og umræða hefur ekki verið áberandi úr þeirra ranni og árásum hefur ekki linnt síðan þeim varð ljóst að í stað gæðinga þeirra var komið lið sem vildi vinna fyrir samfélagið. Sjálfsdekrið og vinagreiðasambandið var liðin tíð. Ég hefði ekki trúað því að óreyndu að bæjarfulltrúar væru ófúsir til að styðja sameiginleg hagsmunamál sveitunga sinna, ár eftir ár, bara vegna þess að aðrir voru valdir til forystuhlutverksins. En, það hefur bæði skort vilja til samstöðu um góð málefni og óvönduðum meðulum verið beitt til að brjóta samstöðu meirihlutans. Hverju veldur ætla ég ekki að vera með getgátur um hér, en vil trúa því áfram að Álftnesingar sjái í gegnum leikaraskapinn, því moldviðri gengur alltaf niður á endanum.

Fé til ráðstöfunar, umfram hefðbundinn rekstur, var engu meira árin 2005 og 2006 en það var árið 2007 og 2008. Áætlun Á-lista miðaði að því að hefja rekstur sveitarsjóðs úr þeim sporum sem mörkuð höfðu verið allar götur frá því að byggingarbanni var aflétt af Álftanesi 1971, þ.e. að stuðla einvörðungu að uppbyggingu íbúðabyggðar á svæðum sem voru í einkaeigu. Slík framvinda er eins jafn gæfuleg og eltingaleikur hunda við skottið á sjálfum sér. Að endingu verður ekki eftir pláss fyrir fleiri íbúðarhús og allt annað er við það sama. Til fyrirhugaðara breytinga þurfti lánsfé og það er ekki nýlunda á Íslandi að taka lán út á góðar viðskiptahugmyndir, sér í lagi ef horfur eru á að þar með skapist atvinna.

Vilji til að breyta, í stað sjálfsdekurs

Ein af grundvallar ákvörðunum Álftaneshreyfingarinnar var og er að skilgreina fullbyggt sveitarfélag á Álftanesi, með tæplega fjögur þúsund íbúum, í samræmi við gildandi aðalskipulag. Jafnframt var kynnt áætlun um hvernig undirbúa megi jarðveg fyrir atvinnurekstur á nesinu, starfsemi sem tekur mið af sérstöðu Álftaness á höfuðborgarsvæðinu. Fjármagn var tekið að láni, að yfirlögðu ráði, eftir að virtar og mikið notaðar ráðgjafaþjónustur höfðu yfirfarið áætlanirnar og fagaðilar þeirra metið áformin líkleg til að skila tilætluðum árangri. Hver einasta framkvæmd var samþykkt í bæjarstjórn, eins og lög gera ráð fyrir. Mikið var reynt til að tillögurnar fengju samþykki allra bæjarfulltrúanna, eins og náðist t.d. fyrir framkvæmdasamkeppni arkitekta um tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir miðsvæðið, byggingu nýrrar sundlaugar, svo eitthvað sé nefnt. Nú er verkin úthrópuð og kölluð óráðsía, en voru í reynd tilraun til að styrkja stoðir undir rekstur bæjarsjóðs, áform samþykkt af meirihluta Álftnesinga. Hvorki kjósendur né fulltrúar Á-listans gerðu sér grein fyrir þeim hremmingum sem settu allt þjóðarbúið úr skorðum haustið 2008. Á þeim tímapunkti var sveitarfélagið með allt of mikið af skuldum útistandandi, eins og ungar fjölskyldur sem voru að koma sér fyrir, eða athafnamenn sem trúðu á góða hugmynd. Nánast allir fengu lán, oft aðeins út á framtíðarmöguleika. Sveitarfélag, og fjölskyldur, geta ekki velt skuldum sínum yfir á aðra, samkvæmt leikreglunum, með því að skipta um kennitölu. Tilvera þeirra heldur áfram og engin undankomuleið í boði frá skuldbindingunum. Að auki eru auknar birgðir lagðar á þá sem uppi standa, vegna afskrifta í bankakerfinu og lánakrafa umfram raunverulegs veðs. Ef þessir aðilar kikna virðist eiga að meðhöndla þá eins og ómaga. Atvinnurekendur og fjárfestar, hins vegar, sem fengu að veðja með lánsfé, hirða bókfærðan gróða úr svikamillum af mikilli útjónarsemi, þurfa enga persónulega ábyrgð að bera. Eina krafan er hvítþvottur, ný kennitala og drífa sig í bankann til að sækja meira. Rökstuðningurinn er ofar en ekki að það þurfi að halda hjólum atvinnulífsins gangandi. Eru þetta sanngjarnar leikreglur? Það er með ólíkindum að slíkar reglur hafi hlotið samþykki og stuðning með landslögum og fordæmisgefandi dómsúrskurðum.

Ný staða kallar á ný úrræði

Ég fullyrði að ef ákveðið hefði verið, árið 2006, að gera ekki neitt, þá hefði endinn orði hinn sami - tómur bæjarsjóður - og þá eini skynsamlegi kosturinn að reyna samningaviðræður. Áform Álftaneshreyfingarinnar eru góð og vænleg til árangurs, en voru slegin út af borðinu á versta tíma, með ófyrirséðum forsendubresti. Nú er skortur á lausafé alger og ljóst að bið verður á að lóðir á deiliskipulögðu miðsvæðinu seljist og greiða megi skuldir. Eins og nú hefur rækilega verið bent á, þá gengur rekstur samfélagsins á Álftanesi ekki upp við núverandi aðstæður og verður einingin verður ekki fjárhagslega sjálfstæð án breytinga, t.d. með því að afla tekna með þjónustu við ferðamenn, menningar- og náttúrutengda starfsemi. Krafan um að sameina Álftanes öðru sveitarfélagi á höfuðborgarsvæðinu breytir engu um þá staðreynd og ef ekki á að hafa minni þjónustu við íbúana á Álftanesi en gerist og gengur á höfuðborgarsvæðinu, þá verður afleiðingin sú að í stað greiðslna úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á landsvísu, þá þarf sveitarfélagið sem tekur við rekstrinum að blæða úr sínum sjóði.

Á-listinn sótti sitt umboð til forystu árið 2006 og kjörnir fulltrúar listans helltu sér út í að leysa verkefnin eins og þeir höfðu lofað. Tímasetning bankahrunsins gat vart komið á óheppilegri tíma og Sveitarfélagið Álftanes varð skotspónn óánæguradda, enda fyrsta sveitarfélagið sem varð gjaldþrota. Ekki bætti úr skák að ráðuneyti sveitastjórnamála vill hrinda af stað sameiningarferli og dæmið um Álftanes hentar vel til að sýna að stefnan eigi líka við um höfuðborgarsvæðið. Því miður þjónar það engum tilgangi öðrum að leiða Álftnesinga nauðuga í sameiningarferli, vandi höfuðborgarsvæðisins verður aðeins leystur með sameiningu á öllu svæðinu. En við viljum og höfum ótrauð leitað leiða til að breyta á ný slæmri stöðu til betri vegar, eins og vænta má af þeim sem gefa kost á sér til starfa fyrir samfélagið. Tillögur fulltrúa Á-listans hafa því tekið mið af lausnum í erfiðri stöðu, eins og krafan um endurskoðun á reglum Jöfnunarsjóðsins, tillaga um sölu hlutabréfa í Fasteign ehf og lóðum til að lækka skuldir eru dæmi um. En nýr, og að eigin áliti „starfhæfur meirihluti", hefur fellt allar slíkar tillögur jafnharðan, lagt árar í bát og að því virðist beðið þess sem verða vill.

Pólitísk ábyrgð

Álftaneshreyfingin stendur heil bak við sínar gerðir, fyrir utan þá sem ákváðu að „starfa sjálfstætt" að eigin markmiðum, án endurnýjunar síns umboðs. Það getur verið erfitt að greina þá sem eiga eftir að bregðast trausti áður en á reynir. Á fundi Álftaneshreyfingarinnar var einróma ákveðið að stilla núverandi bæjarfulltrúum aftur fram í forystu á Á-lista í kosningunum 29. maí og erum ánægð með að þau gáfu kost á sér. Þannig tökum við óneitanlega pólitíska ábyrgð á okkar stefnu. Jafnframt erum við þakklát fyrir að nýir einstaklingar hafa fyllt í skörðin sem hinir sjáflstætt starfandi bæjarfulltrúar skildu eftir sig og vonum að kjósendur sjái að þar höfum við fengi valinn mann í hvert sæti. Framtíðarsýn okkar er óbreytt, með áherslum á mannvænt samfélag og náttúruvernd, og við viljum leggja okkar af mörkum til að tryggja að Álftanes verði áfram aðlaðandi og aðgengileg útivistarperla innan höfuðborgarsvæðisins, en lögum okkar baráttu að breyttum aðstæðum. Sömu tækifærin eru enn til staðar á Álftanesi, óspillt. Slæm staða í fjármálum hefur ekki breytt því, en markmiðin hafa fjarlægst og okkar möguleikar til ákvarðana minnkað. Það sem er erfiðast að svara fyrir er sú staða sem íbúar á Álftanesi er boðið upp á og skiljanlegt að íbúar taki því illa að bæði þjónusta og gjöld hafi hækkað á Álftanesi, umfram það sem er í nágrannabyggðarlögunum.

Sleggjudómar

Í annarri athugasemd við nefnda frétt á mbl.is er dæmigerður stuttur sleggjudómur. Í tilefni af því vil ég aðeins benda á að það er frekar ólíklegt að þeir sem standa að Álftaneshreyfingunni komi til með að óska eftir að Reykvíkingar, eða aðrir, taki við sínu oki. Við erum tilbúin til að axla það sem okkur ber, en líka að krefjast þess að verða ekki afhent sem ómagar á silfurfati. Reyndar eru skuldir Álftnesinga miðað við höfðatölu engu meiri en annarra Íslendinga, ef rétt er með farið. Vandinn er gjaldþrot og þá er öllu lokað og snúið á versta veg.

Við munum áfram fara fram á að okkar staða verði metinn með sanngjörnum hætti og tillögur Álftnesinga og framtíðarsýn verði metin að verðleikum og ákvarðanir aðeins teknar út frá sameiginlegum hagsmunum og að vel athuguðu máli. Álftanes hefur hlutverki að gegna ef Íslendingar ætla að uppfylla alþjóðasamþykkt sem Alþingi hefur samþykkt um verndun búsvæða fyrir margæs og rauðbrysting. Þess utan er nesið sérlega tengt sögu þjóðarinnar frá þjóðveldi til lýðveldis, þar sem nú er aðsetur forsetans. Jafnfram er nesið vannýtt, en kjörið til útivistar og útikennslu fyrir allt höfuðborgarsvæðið. Álftanesið hefur mikið verndargildi, en ótrúlega margir sjái aðeins möguleika til að reisa þar fleiri hús eða leggja nesið undir flugvöll til að rýma fyrir framkvæmdum og leysa klúður í skipulagi t.d. í Vatnsmýrinni. Sömu aðilar taka gjarnan með í reikninginn sparnaðinn sem nemur uppfyllingu samsvarandi svæðis í sjó og þegar nesið er byggt þá er eins víst að næst verði ráðist til atlögu við Heiðmörkina. Hamarinn gerði betur með að beita sér fyrir sameiningu alls höfuðborgarsvæðisins og skynsamlegu lausnum í skipulagi og nýtingu svæðisins. Það er kominn tími til að við hættum þrasi og metningi út frá þröngu sjónarhorni einkahagsmuna. Álftnes verður ekki tekið eins og nýlenda án andspyrnu - ekki frekar en illilega veðsett fiskiauðlind Íslendinga verður afhent Evrópubandalaginu, eftir að gengið frá nauðasamningum um greiðslur skuldbindinga vegna IceSave.

Kristinn Guðmundsson er fulltrúi Á-lista í skipulags- og byggingarnefnd


mbl.is Álftaneshreyfingin vill ræða við Reykjavík um sameiningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samþykktir frá fundi Álftaneshreyfingarinnar, þann 24. mars

Á fundi Álftaneshreyfingarainnar, 24. maí s.l., var borin upp tillaga um áherslur í vinnu við fjárhagslega endurskipulagningu í Sveitarfélaginu Álftanes og varðandi þær sameiningarviðræður, við önnur sveitarfélög, sem samningur við eftirlitsnefnd og síðar fjárhaldsstjórn á vegum Samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytisins gerir ráð fyrir.

Áliktanirnar, sem fundurinn samþykkti, eru:

Að fjárhagslegri endurskipulagningu, sem miðar að því aðsveitarfélagið verði rekstrarhæft, verði hraðað og að horfið verði frá fyrirhuguðum stórfelldum niðurskurði í sumar og haust og felld niður auka skattlagning um áramót. Niðurgreiðslur, styrkir og þjónustugjöld verði í samræmi við það sem gerist áhöfuðborgarsvæðinu, sem er eitt atvinnu- og þjónustusvæði. 

Að teknar verði upp könnunarviðræður um sameiningu við Reykjavík og með þeim sleginn tónn um stærri og frekari sameiningu áhöfuðborgarsvæðinu öllu.

Helsta samningsmarkmið, í viðræðum við Reykjavík, verði að Álftnesingar njóti góðrar nærþjónustu, svo sem í skóla-, æskulýðs-, félags- og menningarmálum og að áfram verði unnið að uppbyggingu „Græns miðbæjar" og vistvæns atvinnusvæðis og fylgt eftir áherslum Álftaneshreyfingarinnar í umhverfismálum og um verndun strandsvæða. 


Framboðslisti Álftaneshreyfingarinnar

Á fundi Álftaneshreygingarinnar, miðvikudagskvöldið 24. mars, var einróma samþykktur eftirfarandi listi frambjóðenda, og röðun á Á-listann, fyrir sveitastjórnarkosningarnar 29. maí n.k.:

  1) Sigurður Magnússon  myndlistamaður og fv bæjarstjóri 

  2) Kristín Fjóla Bergþórsdóttir  kennari og bæjarfulltrúi 

  3) Rannveig Guicharnaud  jarðvegsfræðingur og lektor í LBHÍ 

  4) Tryggvi M. Baldvinsson  tónskáld og adjunkt í LHÍ

  5) Margrét S Ólafsdóttir  fulltrúi

  6) Kristinn Guðmundsson  sjávarlíffræðingur

  7) Elsa Bára Traustadóttir  sálfræðingur

  8) Ásta Óla Halldórsdóttir  skrifstofu- og leiðsögumaður

  9) Eiríkur Á. Guðjónsson  fornbókasali

10) Hrafnkell Tumi Kolbeinsson  framhaldsskólakennari

11) Brynja Valsdóttir  menntaskólakennari

12) Bergur Sigfússon  jarðfræðingur

13) Elfar Berg Sigurðsson  kaupmaður og hljómlistamaður

14) Ólafur Proppé  fv rektor 

 

Sömuleiðis var kynntur eftirfarandi listi yfir þá sem hafa gefið kost á sér til starfa í fagnefndum fyrir Álftaneshreyfinguna og hann einróma samþykktur. Nafnalistanum er raðað í stafrófsröð innan fagnefnda, en ákvarðanir um forgangsröðun verður gerðar síðar.

Atvinnu- og ferðamálanefnd:

  Anna Marín Kristjánsdóttir hundaþjálfi

  Ari Sigurðsson verktaki og tæknistjóri

  Ásta Óla Halldórsdóttir skrifstofu- og leiðsögumaður

  Skúli Guðbjarnarson náttúrufræðingur og kennari

Félagsmálanefnd:

  Eiríkur Ágúst Guðjónsson fornbóksali

  Guðfinna Sigurbjörnsdóttir verslunar- og forstöðukona

  Hrafnkell Tumi Kolbeinsson kennari

  Sjöfn Ágústsdóttir sálfræðingur

  Svandís Tryggvadóttir sjúkraliði og nemi

  Svana Stefánsdóttir efnafræðingur

Framkvæmdanefnd:

  Bergur Sigfússon jarðfræðingur

  Elsa Bjartmarz hússtjórnunarkennari

  Iðunn Thors myndlistamaður og menntaskólakennari

  Þorsteinn Hannesson efnafræðingur og deildarstjóri 

Íþrótta- og tómstundanefnd:

  Ásgrímur Helgi Einarsson íþróttaþjálfari

  Jóhanna Aradóttir nemi

  Sigurður Brynjólfsson íþróttamaður og fyrirliði í meistaraflokki UMFÁ

Menningarnefnd:

  Jakob Hagedorn Olsen tónlistamaður og gítarkennari

  Jóna Finnsdóttir framkvæmdast LHÍ

  Pétrún Pétursdóttir fv framkvæmdastjóri

Skipulags- og byggingarnefnd:

  Anna Ólafsdóttir Björnsson sagnfræðingur

  Bergur Sigfússon jarðfræðingur

  Elfar Berg Sigurðsson verslunar- og tónlistamaður

  Guðmundur Örn Böðvarsson verktaki og húsasmiður

  Kári Kristjánsson landvörður

  Örn Steinar Sigurðsson verkfræðingur 

Skólanefnd:

  Júlíus K. Björnsson sálfræðingur

  Kristín Norðdahl lektor HÍ

  Margrét Ólafsdóttir fulltrúi

  Ólafur Proppé fv rektor

Tónlistaskólanefnd:

  KarólínaEiríksdóttir tónskáld

  Margrét B. Sigurbjörnsdóttir tónlistakennari

  Tryggvi M. Baldvinsson tónskáld

  Þórlaug Bjarnadóttir efnafræðingur og undirleikari

Umhverfisnefnd:

  Bjartey Sigurðardóttir hugbúnaðarþróun

  Brynja Valsdóttir kennari

  Kristinn Guðmundsson sjávarlíffræðingur

  Rannveig Guicharnaud jarðvegsfræðingur

 

 


Óskað liðsinnis Guðmundar Andra

SM andlitsmynd

Sigurður Magnússon skrifar:

Guðmundur Andri á við bæjarstjóra Á-lista, sem „þriðja bæjarstjórann", í skrifum sínum s.l. fimmtudag í Fréttablaðinu, bæjarstjórann sem ákvað að bregðast við óskum íbúanna við Blikastíg og Fálkastíg, um betra leiksvæði.  Tveir fyrri bæjarstjórar höfðu skellt skollaeyrum við óskum þeirra. Þetta er rétt, bæjarstjóri Á-lista  fól framkvæmdadeild bæjarins að gera þarna umbætur og horfa til þess sem vel hefði tekist í öðrum hverfum s.s. við Miðskóga . Ef að ekki hefur tekist vel til, eins og að var stefnt, skrifast það á misskilning sem stjórnsýsla bæjarins  þarf að leiðrétta. Í tilefni þessara skrifa vil ég þó fullyrða að aldrei hefur áður verðið gert jafn mikið til að bæta aðstöðu og umhverfi barna og unglinga á Álftanesi eins og í tíð Á-lista.  Framvæmdir við skóla- og íþróttasvæði  vitna um þessar áherslur í starfinu  og ekki síður margvíslegar umbætur í umferðaröryggismálum.

Skoðanir Guðmundar Andra og forystu Á-lista, fara saman, um að ekki sé grundvöllur fyrir rekstri sjálfstæðs sveitarfélags á Álftanesi  við núverandi fjárhagslegar forsendur. Hann talar fyrir sameiningu, en Á-listinn hefur  lagt áherslu á að treysta tekjustofna bæjarsjóðs, s.s. með uppbyggingu atvinnulífs sem falli að viðkvæma umhverfi Álftaness og um leiðréttingu á greiðslum frá Jöfnunarsjóði. Á miðsvæðinu lét Á-listinn skipuleggja atvinnubyggð fyrir ferða- og menningartengda þjónustu og nærþjónustu fyrir íbúana. Með uppbyggingu vildi Á-listinn breyta svefnbæ í sjálfbært samfélag. Bygging glæsilegrar sundlaugar  sem glatt hefur  börn og fullorðna á Álftanesi og hefur  dregið að sér áttatíu og fimmþúsund  gesti, var m.a. liður í þessum áformum. Hópur, skipaður starfsmönnum á sviði íþrótta- og æskulýðsmála, starfaði með hönnuðum við undirbúningi  sundmiðstöðvarinnar. Hönnun og val á búnaði hefur í flestum efnum tekist vel þótt einstök atriði kunni að vera álitaefni. Vatnsrennibrautin vinsæla sem blasir við frá Álftanesvegi er áberandi í umhverfinu, en mun hverfa úr sjónlínu frá veginum þegar  Þjónustuhús Búmanna á miðsvæðinu rís en framkvæmdir  við það eru hafnar. Gula litinn, val arkitekts hússins, má svo mála yfir ef þurfa þykir og fella hann að umhverfislitum. Sumir halda því fram að fjárhagsvandi Álftaness stafi af byggingu nýju laugarinnar, en horfa þá framhjá tjóni sveitarfélagsins í bankahruninu  vegna lána og skuldbindinga, sem er meira en byggingarkostnaður hinnar nýju laugar. Þótt framkvæmdin hafi verið stór væri rekstur laugarinnar ekki ofviða sveitarfélaginu við efnahagslegar aðstæður sem horft var til við ákvarðanatökuna 2006.

Guðmundur Andri þekkir líka vel markmið Á-listans og framkvæmdir, og þar með virkann stuðning við hugsjónir umhverfisverndarfólks á Álftanesi , sem vill varðveita einstaka náttúru, fjölbreytileika lífríkisins og sýna sögu og menningu ræktarsemi. Stórt skref í þessa átt var stigð 8. apríl 2009 þegar bæjarstjóri undirritaði viljayfirlýsingu við ráðherra umhverfismála og menntamála um samvinnu Álftanesbæjar og ríkisins um rekstur menningar- og náttúrufræðiseturs og gestastofu vegna verndunar Skerjafjarðar. Því miður hafa þessi góðu áform verið sett á hliðarlínuna. Áfram verður þó barist fyrir verndun á einstakri náttúru á Álftanesi fyrir komandi kynslóðir, fjörum, sjávartjörnum og votlendi og að menningarsögu svæðisins verði sómi sýndur. Í baráttu fyrir þeim málstað verður áfram óskað liðsinnis Guðmundar Andra.

Sigurður Magnússon, bæjarfulltrúi Á-lista og fyrrverandi bæjarstjóri á Álftanesi

Ótímabær skoðanakönnun - tæpur helmingur íbúanna samþykkir sameiningu

Skoðanakönnunin var ótímabær, þar sem ekki er lokið fjárhagslegri endurskipulagningu bæjarsjóðs, en markmið með endurskipulagningunni er að gera Álftanes rekstrarfært á ný eftir mikið áfall í efnahagshruninu. Óánægja var með framkvæmd könnunarinnar og kann það að skýra slaka þátttöku, en aðeins rúmlega 60% kosningabærra íbúa svöruðu spurningunum, -en kosningaþátttaka á Álftanesi er að jafnaði um 90%. Meirihluti bæjarstjórnar felldi tillögu Á-lista um að í spurningavagninum gæfist íbúunum kostur á að merkja við „sjálfstætt sveitarfélag á Álftanesi eftir fjárhagslega endurskipulagningu“, þegar búið væri að létta af íþyngjandi  álögum.  Margir Álftnesingar hljóta að undrast þessa óbilgjörnu afstöðu meirihlutans sem ekki verður skýrð öðruvísi en að þau hafi verið að reyna að „hanna“ niðurstöðuna fyrirfram.

Nú liggur fyrir að 48% íbúanna, eða minnihluti kosningabærra Álftensingar hefur svarað sameiningu játandi við þessar sérkennilegu aðstæður. Engum ætti að koma það á óvart þegar íbúarnir búa við íþyngjandi skattaálögur og niðurskurð sem bæjaryfirvöld settu á um áramót. Það sem er helst fréttnæmt við könnunina er að nærri því sami fjöldi svarenda telur Reykjavík álitlegar sameiningarkost, eins og Garðabæ, þrátt fyrir það að D-listinn hafi undanfarið leint og ljóst verið að undirbúa semeiningu Álftaness við Garðabæ.

 


mbl.is Flestir Álftnesinga vilja sameinast Garðabæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spurt um sameiningu við íþyngjandi aðstæður

500 íbúar sem hefðbundið mæta á kjörstað sniðgengu skoðanakönnun

Nú liggur fyrir að 48%, eða tæpur helmingur kosningabærra íbúa Álftaness,  svaraði því játandi, í skoðanakönnun um sameiningarmál, að sameinast öðru sveitarfélagi. Tvennt vekur athygli í könnuninni, -slök þátttaka, en aðeins um 60 % svöruðu spurningum í könnuninni, eða rúmlega 1100 kjósendur af 1777 á kjörskrá. Hefð er fyrir kosningaþátttöku á Álftanesi  u.þ.b. 90% og skakkar hér því miklu, eða um 500 atkvæðum. Margir töldu könnunina ótímabæra við þær aðstæður sem nú eru á Álftanesi, þegar íbúarnir búa við íþyngjandi skatta og niðurskurð sem meirihlutinn setti á um áramót. Óánægja var líka með að íbúunum gæfist ekki kostur á að merkja við valkostinn, „sjálfstætt Álftanes eftir fjárhagslega endurskipulagningu og afnám sérskatta og niðurskurðar“. Meirihluti bæjarstjórnar felldi tillögu um að þessi kostur yrði í könnuninni og dregur það úr gildi hennar. Álftnesingar hljóta að velta því fyrir sér hversvegna meirihlutinn vildi ekki gefa íbúunum þennan valkost! Í fyrri skoðanakönnunum um afstöðu Álftnesinga til sameiningar, hafa u.þ.b. 60% íbúanna alltaf valið sjálfstætt sveitarfélag. Telja má víst að margir hefðu valið þennan kost nú hefði könnunin boðið upp á þann valmöguleika.

Lítill munur á  Reykjavík eða Garðabæ þegar valið er milli sameiningarkosta

Hitt sem vekur athygli í könnuninni er að nær jafnmargir þátttakenda velja Reykjavík og Garðabæ sem sameiningarkost eða 34% Reykjavík, en 44% Garðabæ, -munurinn er aðeins rúm 100 atkvæði. Við fyrri sameiningarumræður hefur alltaf verið rætt um sameiningu Álftaness og Garðabæjar, enda liggja stjórnsýslumörk bæjanna saman og í aðdraganda sameiningaumræðna nú hefur meirihluti D-lista lagt sig fram um að beina sameiningarferlinu inn í Garðabæ. Bæjarfulltrúar Á-lista höfðu fyrir könnunina gagnrýnt tímasetningu hennar, þar sem ekki er lokið fjárhagslegri endurskipulagningu bæjarsjóðs. Fjárhaldsstjórn skipuð af ráðuneyti sveitastjórnamála vinnur að þessari endurskipulagningu með bæjarfulltrúum. Markmið þeirrar vinnu er að gera sveitarfélagið rekstrarfært að nýju og aflétta íþyngjandi ákvörðunum D-listans.  

Meirihlutinn neitað íbúunum um valkostinn „sjálfstætt sveitarfélag, eftir fjárhagslega endurskipulagning

Eftir að bæjarstjórn hafði ákveðið skoðanakönnunina við þessar íþyngjandi aðstæður, sérskatta og niðurskurðar,  lagði Á-listi til að í könnuninni gætu íbúar merkt við sjálfstætt Álftanes, eftir fjárhagslega endurskipulagningu. Tillaga Á-listans um þetta var felld. Álftnesingar hljóta að undrast að meirihlutinn skuli þannig hafa útilokað að íbúunum gæfist þessi sjálfsagði valkostur úr því að ekki var fallist á að fresta könnuninni. Á-listinn gagnrýndi líka að velja þyrfti milli sveitarfélaga án þess að upplýsingar lægju fyrir um hugsanlega aðkomu ólíkra sveitarfélaga að nærþjónustu á Álftanesi eftir sameiningu.  Að ókönnuðu máli töldu þó bæjarfulltrúar Á-lista, að vegna fjarlægðar við Reykjavík væri líklegra að betur yrði staðið að nærþjónustu með sameiningu við Reykjavík en t.d. Garðabæ eða Hafnarfjörð. Könnunin sýnir að þetta sjónarmið bæjarfulltrúa Á-lista hefur mikinn stuðning íbúanna.

Íbúakannanir gott stjórntæki, en gæta þarf hlutleysis í framsetningu og vali spurninga

Bæjarfulltrúar Á-lista leggja áherslu á að nú verði hraðað vinnu við fjárhagslega endurskipulagningu, en þar veltur mest á að leiðrétting fáist á jöfnunargreiðslum og að lán og skuldbindingar verði endurskipulagðar með aðkomu ríkisvalds, en beint fjárhagstjón Álftaness í efnahagshruninu er yfir 1000 milljónir. Komi til sameiningaviðræðna eftir þá endurskipulagningu dugar ekki að ræða við Garðabæ, heldur þarf jafnframt að taka upp viðræður við Reykjavík. Þegar  tekið er tillit til slakrar  þátttöku, íþyngjandi aðstæðna, ónógum valmöguleikum spurninga og því að 25% þátttakenda svara ekki spurningunni um sameiningu játandi, er ljóst að niðurstöður skoðanakönnunarinnar um vilja til sameiningar eru ómarktækar. Bæjarfulltrúar Á-lista  vilja þó undirstrika að skoðanakannanir og íbúakosningar séu mikilvægt stjórntæki til að leita eftir sjónarmiðum íbúa í stórum málum. En þá þurfi að gæta hlutleysis í framsetningu spurninga og tryggja að þær kalli fram sem flest sjónarmið.

 

Kristín Fjóla Bergþórsdóttir og Sigurður Magnússon,

bæjarfulltrúar Á-lista á Álftanesi

Sjálfstæðisflokkurinn á Álftanesi

Vedísk stjörnuspekiÁsta Óla skrifar:

Frá árinu 1995 höfum við hjónin búið á Álftanesi og líkað það vel. Við erum bæði launþegar svo skattar og gjöld eru greidd samviskusamlega af öllum okkar launum, líka til bæjarfélagsins hér á Álftanesi. Þrátt fyrir að vera aðeins tvö í heimili og hafa hvorki þörf fyrir barnagæslu, skóla, heimilishjálp eða annað það sem hér er í boði þá þýðir það ekki að við séum ekki tilbúin til að leggja eitthvað af mörkum til samfélagsins.

Fyrir tveimur árum hélt ég námskeið fyrir lítinn hóp fólks og fékk Haukshús lánað endurgjaldslaust í nokkur skifti til þess. Á þeim tíma var mér tjáð að íbúar Álftaness gætu fengið Haukshús lánað endurgjaldslaust fyrir námskeið en leiga væri rukkuð ef beðið væri um húsið fyrir veisluhöld. Þetta virtist gott fyrirkomulag og í húsinu hefur verið yogakennsla 2svar í viku um árabil.

Nú á haustdögum 2009 tóku Sjálfstæðismenn aftur við stjórn hér á Álftanesi. Það gerðist á svipuðum tíma og ég fékk úr prentun bók sem ég hafði dundað við að skrifa í frístundum mínum um vedíska stjörnuspeki. Þrátt fyrir að vedísk stjörnuspeki sé ævaforn þá hefur fram að þessu engin bók komið áður út á íslensku um efnið. Af þeim sökum ákvað ég eftir áramótin að fylgja bókinni svolítið eftir með frírri kynningu/námskeiði um efnið.

Ég sótti um afnot af Haukshúsi í 4 klukkustundir á laugardegi, eða frá kl. 13-17 þann 30.janúar 2010. Svar barst frá bæjarskrifstofunni á þá leið að ég gæti fengið húsið leigt fyrir 10.000 kr. sem þýddi í raun 2.500 kr. á tímann. Þetta var svo fáránlegt að ég leitaði í næsta bæjarfélag og fékk þar fínan sal, til frírra afnota og var húsfyllir á kynningunni. Reyndar var ég fegin svona eftir á,  því allt þetta fólk hefði aldrei komist fyrir í Haukshúsi sem er lítill, gamall sumarbústaður. Eftir þessa kynningu hafa þó nokkrir haft samband við mig og spurt um framhald. Ég leitaði aftur eftir húsnæði hér á Álftanesi, í þetta sinn bað ég um afnot af Vallarhúsinu en fékk sama svar. Húsið væri ekki lánað, bara leigt. (hefur reyndar aldrei verið leigt út mér vitandi, heldur stendur autt öll kvöld og allar helgar)

Hvað eru Sjálfstæðismenn að hugsa? Er það vilji Sjálfstæðismanna að hrekja burt þá sem vilja miðla þekkingu sinni eða er það vina og vandamannastefnan sem ræður ríkjum eina ferðina enn? Það kemur að minnsta kosti upp í hugann hvað varðar yogakennsluna í Haukshúsi, því þrátt fyrir að yogakennarinn sé búsettur í öðru bæjarfélagi og borgi engin gjöld til Álftaness, þá hefur kennarinn frí afnot af Haukshúsi. Er ástæðan sú að einhverjar Sjálfstæðiskonur sækja yogatíma? Eða er kennarinn félagsbundin í Sjálfstæðisflokknum? Hvar er jafnréttið? Það ríkti þó jafnrétti hér á Álftanesi í tíð Álftaneshreyfingarinnar. Er það virkilegt að Sjálfstæðismenn telji að það sé betra að láta húsnæði í hreppnum standa autt á kvöldin og um helgar ef ekki fáist peningar í kassann fyrir afnot, fremur en að fólk búsett hér í hreppnum fái að njóta þess að nota sameiginlegt húsnæði undir fjölbreytt námskeið fyrir alla þá sem vilja auka þekkingu sína. Það verður held ég Sjálfstæðisflokknum ekki til frama að rukka hátt gjald fyrir aðstöðu vegna kvöldnámskeiða en ef Sjálfstæðismenn trúa því að það skifti öllu máli fyrir afkomu Álftaness að rukka háa leigu vegna námskeiðahalds, þá eru þeir greinilega í allt annarri vídd en fólkið sem hér býr.

Ásta Óla er leiðsögumaður ferðamanna


Krafa um sanngirni - í stað sleggjudóma og ráðaleysis

KG

Kristinn Guðmundsson skrifar:

Skoðanakönnun

Bæjarstjórinn boðar Álftnesinga til skoðanakönnunar um sameiningarmál á Álftanesi, samhliða þjóðaratkvæðagreiðslu um ICESAVE samninginn, laugardaginn 6. mars. Eins og lesa má annars staðar hér ávefsíðunni, er margt athugavert við framkvæmdina og framsetningu spurninganna, en ég vil undirstrika að það er viss hætta á að niðurstaðna úr könnuninni verði notuð til annars og meira en að fá hugmynd um afstöðu Álftnesinga til sameiningar og hvaða sveitarfélag þeim hugnast best að sameinast. Þetta segi égaf því að ráðherra samgöngumála hefur lagaheimild, meðan fjárhaldsnefnd er skipuð yfir sveitafélaginu, til að ákveða einhliða að sameina Álftanes við annað sveitarfélag, svo fremi það samþykki að taka við rekstrinum. Ekki er víst að allir viti þetta, enda ekki haldið á lofti af meirihluta bæjarstjórnar - frekar en öðru bitastæðu er varðar sameiningarferli. Ætla má að slík ákvörðun, réttlætt með tilvísun í niðurstöðu skoðanakönnunarinnar, kæmi í bakið á mörgum Álftnesingum.

Um sameiningu eða innlimun

Það er rétt að byrja á því að segja að ég hef verið talsmaður sameiningar sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Núverandi stjórnarskipulag er ófullnægjandi og stendur í vegi fyrir ýmsum góðum framfaramálum. Fjárhagsleg hagræðing yrði án efa ávinningur - lóð á vogarskálina við mat á sameiningaráformum fyrir sveitarfélögin áhöfuðborgarsvæðinu, - en ekki aðal hvati breytinga.  

Framangreind skoðun breytir því ekki að ég tel ótímabært að innlima samfélagið á Álftanesi í nágrannasamfélag. Slík ákvörðun lagar ekki stöðuna í ofangreindu samhengi og það ætti að vera forgangsatriði að vinna samkvæmt áætlun um styrkingu tekjustofna, með uppbyggingu á atvinnustarfsemi innan sveitarfélagsins, í stað þess að fela vandann. Sameining án breytingar gerir samfélagið á Álftanesi ekki að fjárhagslega sjálfbærri einingu og leiðir aðeins til þess að Álftnesingar verða háðir fyrirgreiðslu og fjárstreymi frá einum sveitarsjóði, í stað nauðsynlegrar jöfnunar á aðstöðumun úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á landsvísu. Að óbreyttu yrði því sameining hæpin hagræðing og varla æskileg fyrir nágrannana sem tækju við rekstrinum og öllu sem út af ber.

Auk framangreinds er óásættanlegt fyrir Álftnesinga annað en að fá fyrst réttmæta afgreiðslu á framlagðri kröfu um leiðréttingu vegna vanmats á greiðslum úr Jöfnunarsjóðnum á undangengnum árum. Krafan, sem var kynnt fyrir hart nær ári síðan, var vandlega rökstudd eins og sjá má í skýrslu sem fylgir annarri færslu hér á  bloggsíðunni, sem dagsett er 26. febrúar s.l. Fulltrúar Á-listans hafa endurtekið vakið athygli á þessu á fundum bæjarstjórnar og bæjarráðs, og í blaðagreinum, eins og sjá má á hér á síðunni og í fundargerðum. Samkvæmt ofangreindri skýrslu má ætla að reikniregla Jöfnunarsjóðsins uppfylli ekki markmið sjóðsins, þ.e. að jafna aðstöðumun sveitarfélaga til þjónustu við íbúa landsins, né heldur að framfylgja stjórnarskábundinni og lögvarinni skyldu ríkisins til að jafna aðstöðumun varðandi lögboðna þjónustu, m.a. grunnskólamenntun barna í sveitarfélögum landsins. Þegar afgreiðslu kröfunnar er lokið geta Álftnesingar verið með í sameiningarviðræðum, sem byggja á skynsemi og bitastæðum rökum.

Stöðumat

Lengi var eins og Álftnesingar væru lamaðir af öllu því sem á hefur gengið í vetur, eða vildu bara þegjandi láta aðra taka við okinu. Þögnin í sveitinni var óhugnanleg, meðan stanslaust var hamrað á sleggjudómum í fjölmiðlunum og vitanað í ósanngjarnar yfirlýsingar margra ráðamanna. Því varð ég þeirri stundu fegnastur er upp risu Hagsmunasamtök íbúa á Álftanesi sem ætla að verjast niðurskurði og óverðskulduðum hækkunum gjalda. Framtakið vakti á ný trú mína um að rödd Álftnesinga muni heyrast og sanngjarnar kröfur eigi eftir að ná til viðeigandi aðila, svo eftir verði tekið.

Álftnesingar eiga sér fallega drauma umframtíð samfélagsins á nesinu og sérstöðu þess. Ef einhvern tíman er ástæða til að standa vörð um þá sýn er það nú, meðan umbrotatímar eru að ganga yfir. Á ríður að spilla ekki framtíðardraumunum meira en orðið er og varast yfirgang. Minnumst þess að á Álftanesi eru vannýttir möguleikar, sem felast í hæfileikaríku og virku fólki og sérstöðu hvað varðar fallega náttúru og spennandi söguminjar, verðmæti sem bæði Álftnesingar og aðrir íbúar áhöfuðborgarsvæðinu ættu að sjá sér hag af að vernda. Það er ekki sjálfgefið að treysta öðrum fyrir þessu fjöreggi, á það er ég minntur í hverri ferð minni umÁlftanesveginn.

Kristinn Guðmundsson, fulltrúi Álftaneslistansí skipulags- og byggingarnefnd


Ótímabær skoðanakönnun

SM andlitsmynd

Sigurður Magnússon skrifar:

Álftaneshreyfingin hefur gagnrýnt skoðanakönnun sem fram á að fara um sameiningarmálin á laugardag og telur hana ótímabæra þar sem fjárhagslegri endurskipulagningu er ekki lokið.

En þar sem ákveðið var að framkvæma könnunina er lámarkskrafa að íbúarnir geti merkt við sjálfstætt, sjálfbært sveitarfélag ef fjárhagsendurskipulagningin og samningar um leiðréttingu á jöfnunargreiðslum tækjust við ríkisvaldið, í stað þess að reikna ekki með þeim möguleika. Markmið Fjárhaldsstjórnarinnar er að gera samfélagið rekstrarhæft, ekki að sameina það öðru sveitarfélagi. Þessari  tillögu Á-lista, að íbúarnir ættu framangreindan valkost var hafnað af meirihlutanum.

Það er svo athygli vert að með sýnishorni af kjörseðli  þar sem íbúum er boðið að merkja við það sveitarfélag sem það kýs helst að sameinast, fylgja engar upplýsingar um skýra  valkosti s.s. hvernig einstök önnur sveitarfélög vildu reka nærþjónustu á Álftanesi.

Mun í sameinuðu sveitarfélagi t.d. verða nýtt mötuneyti fyrir Álftanesskóla, byggður gervigrasvöllur, þjónustumiðstöð fyrir aldraða, og munu  Álftnesingar fá matvörubúð, bakarí, lyfjabúð og atvinnusvæði, eða þurfa þeir áfram að sækja nær alla nærþjónustu í nágrannabæi? Engar upplýsingar eru um þetta, sem hljóta þó fyrst og fremst að ráða vali um sameiningu og hvaða annað sveitarfélag er valið sem kostur til sameiningarviðræðna.

Athygli vekur að tafla yfir þjónustugjöld fylgir sýnishorni af kjörseðli, ruglingsleg og illa marktæk. Reyndar skiptir það litlu máli, enda breyta viðkomandi bæjarstjórnir þjónustugjöldum einu sinni til tvisvar á ári, s.s. um áramót og á haustin. Hver er tilgangurinn? Þykir viðeigandi að velja miðað við gjöld í dag sem geta t.d. verðið allt önnur næsta haust? Skammsýni meirihlutans er sláandi, sem dæmi um hvað framsetmningin er ruglingsleg má lesa;

  • að Frístundargjöld séu lægst í Hafnarfirði,
  • að leikskólagjöld séu lægst í Reykjavík og líka skólamáltíðir lægstar í Reykjavík,
  • að heimagreiðslur séu hæstar í Kópavogi og Reykjavík,
  • að útsvar og fasteignagjöld séu lægst á Seltjarnarnesi
  • að fasteignagjöldin séu í öðru sæti í Reykjavík,
  • að daggæslu niðurgreiðslur, íþróttastyrkir og sorpgjöld séu hliðstæð í sveitarfélögunum.

Fyrir efnahagshrunið sem valdið hefur Álftanesi stórfelldu tjóni voru þjónustugjöld tengd börnum og skólastarfi með því lægsta á Álftanesi og ættu ef fjárhagsendurskipulagningin nær árangri að geta orðið hliðstæð og í nágrannasveitarfélögunum.

Sigurður Magnússon, bæjarfulltrúi Á-lista 


Til umhugsunar!

Í gærkvöldi barst inn um póstlúgur Álftnesinga kynningarblað um skoðanakönnun á afstöðu þeirra til sameiningarmála.   Álftaneshreyfingin hefur gert alvarlegar athugasemdir við þessa skoðanakönnun og telur hana með öllu ótímabæra.

Hver svo sem afstaða íbúa til sameiningarmála kann að vera er umrædd könnun ennfremur það viðvaningslega fram sett að aldrei verður hægt að taka mark á niðurstöðunum, hverjar sem þær kunna að vera.

Nr 1 „Ég er hlynnt/ur því að Sveitarfélagið Álftanes sameinist öðru sveitarfélagi:“

Þessi „spurning“ í könnuninni er mjög gölluð og fyrir utan að vera vægast sagt leiðandi staðhæfing eru svarmöguleikarnir ófullnægjandi.  Álftaneshreyfingin hefur margsinnis krafist þess að íbúar sveitarfélagsins fái einnig tækifæri til að merkja við eftirfarandi valmöguleika:

Sjálfstætt sveitarfélag - Að því gefnu að fjárhagsleg endurskipulagning leiði til þeirrar niðurstöðu að hægt verði að reka sveitarfélagið á sjálfbæran hátt án þess að leggja á íbúana auknar fjárhagslegar byrðar.

Engu máli skiptir hvar í flokki menn standa, eða hvort að þeir telji þetta raunhæfa niðurstöðu endurskipulagningarinnar eður ei.   Ef spurning þessa efnis er ekki með í könnuninni verður hún algerlega marklaus.   Þessari kröfu Álftaneshreyingarinnar hefur alltaf verið hafnað, nú síðast á bæjarráðsfundi á fimmtudag, líkt og ætlun meirihlutans sé aðeins sú að fá niðurstöðu sem hægt verður að túlka sameiningu í hag.   Eins og málin standa hefði núverandi spurning allt eins geta hljóðað: „Ég er hlynntur því að allar aukaálögur sem hafa verið lagðar á íbúana verði felldar niður“.   Allir vita hvert svarið við þeirri spurningu yrði.

Nr 2 „Ef til sameiningar kæmi tel ég ákjósanlegast að sameinast:“

Ef íbúar eiga að geta myndað sér upplýsta skoðun á sameiningarmálum verða þeir að hafa einhverja hugmynd um hvað er í boði. Er eitthvert sveitarfélaganna líklegra en annað til þess að byggja hér upp nærþjónustu af einhverju tagi; matvöruverslun, bakarí, reka þjónustumiðstöð fyrir eldri borgara, byggja gerfigrasvöll, byggja nýtt mötuneyti fyrir Álftanesskóla?

Engar upplýsingar af þessum toga liggja fyrir, en hljóta þó að skipta máli þegar hakað er við nafn einhvers sveitarfélags í könnuninni. Með áðurnefndu kynningarefni um skoðanakönnunina fylgdi listi yfir þjónustugjöld nágrannasveitarfélaganna, gjöld sem eru stöðugum breytingum háð og eru hér aðeins til þess fallin að rugla lesandann í ríminu.

Ekkert nágrannasveitarfélaganna sker sig sérstaklega frá hinum, það sem er ódýrt á einum stað er dýrara á öðrum og eins og áður kom fram, að í haust er allt eins líklegt að þessar tölur breytist.

Þessi óvissuatriði undirstrika það álit Álftaneshreyfingarinnar að þessi skoðanakönnun sé með öllu ótímabær og ætti ekki að fara fram fyrr en fjárhagslegri endurskoðun á málefnum sveitarfélagsins er lokið.

Við biðjum Álftnesinga að hafa ofangreind atriði í huga þegar þeir ákveða hvort, eða hvernig þeir svara skoðanakönnun um sameiningu á morgun.

Samráðshópur bæjarmálaráðs Álftaneshreyfingarinnar 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband