Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010

Kynningarefni Á-lista fyrir sveitastjórnakosningarnar 2010

Fyrsta kynningarrit nýs framboðslista Álftaneshreyfingarinnar var dreift í hús á Álftanesi í apríl (eins og sjá má hér neðanmáls).

Næst á dagskrá er fjölskyldudagur, með skemmtilegri og fjölbreyttri dagskrá og útiveru. Nánari upplýsingar verða kynntar í dreifblöðungi, sem mun berast í hús fyrir helgi og gerðar aðgengilegar hér á vefsíðunni.

Fylgist með,

Á-listinn

- fyrir fólkið og umhverfið


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Nokkrar staðreyndir um sundlaug Álftaness

RannveigRannveig Anna Guicharnaud skrifar: 

Sundlaug okkar Álftnesinga hefur verið gerð að táknmynd fjárhagsvandræða líkt og tómur glerturninn á Höfðatorgi, í jaðri fjármálahverfis Reykjavíkurborgar, er oft tengdur við offjárfestingu í byggingariðnaði. Heyrst hafa eftirfarandi fullyrðingar:

„Sveitarfélagið Álftanes fór á hausinn vegna sundlaugarmannvirkja"

Nei, gríðarlega hröð fólksfjölgun, án uppbyggingar tekjustofna, gerði sveitarfélaginu mjög erfitt að standa við skuldbindingar sínar. Á tímabilinu 2000 til 2008 jókst íbúafjöldi um 960 manns , eða rúm 60%. Sveitarfélögum ber skylda að sjá börnum fyrir menntun hvernig sem þau eru í stakk búin til þess enda notar sveitarfélagið 84% af föstum skatttekjum sínum í skólamál samanborið við t.d. 56% í Reykjavík. Hlutfallslega mikil útgjöld Álftaness til skólamála eru eðlileg þar sem börn og unglingar eru 18,6 % íbúa samanborið við 11-12% á höfuðborgarsvæðinu. Börn og unglingar eru ekki  útsvarsgreiðendur þrátt fyrir að velferð þeirra kalli á langstærstan hluta útgjalda sveitarfélagsins. Ekkert sveitarfélag á landinu, af sambærilegri stærð hefur nánast enga atvinnustarfsemi, en með henni skapast t.d. viðbótar fasteignagjöld og aðstöðugjöld sem hjálpa til við rekstur sveitarfélags.

 „Álftnesingar eru bruðlarar og gráðugir að vilja fá sundlaug í sínu sveitarfélagi á meðan nóg er til af sundlaugum í nágrannasveitarfélögum"

Nei, samkvæmt námsskrá er skylda að kenna börnum á grunnskólaaldri sund. Á því tæpa ári sem sundlaugin hefur verið í notkun eru skólasundheimsóknir  orðnar um 6400. Þessar heimsóknir jafngilda 128 fulllestuðum 50 manna rútuferðum í eitthvert nágrannasveitarfélagið með tilheyrandi umstangi, eldsneytisnotkun, óþarfa útblæstri og útgjöldum vegna leigu á sundaðstöðu. Álftnesingur sem fer eftir vinnu eða um helgar með börnin sín í sund á nesinu í stað þess að heimsækja nágrannasveitarfélag sparar að jafnaði um 1300 krónur á hverri sundferð(m.v. einingaverð ríkisskattstjóra og 14 km bíltúr).

 „Svo toppuðu þeir allt með því að byggja landsins stærstu rennibraut og öldulaug í ofanálag"

Nei, öldulaugarbúnaðurinn kostaði um 19 milljónir með uppsetningu og einhver kostnaður var til viðbótar við að steypa laugina og að fullgera aðstöðuna. Vatnsrennibrautin kostaði 35 milljón krónur með uppsetningu auk kostnaðar við kerið sem tekur við krakkaskaranum. 60  milljónir eru miklir peningar, en þó ekki nema 2,5% af heildarskuldum sveitarfélagsins. Þessar viðbætur við laugina hafa eflaust átt sinn þátt í því að þann 1. apríl sl. höfðu 90.886 manns heimsótt laugina frá opnun hennar þann 23. maí 2009. Margir sundgestanna eru ekki Álftnesingar, en einn tilgangurinn með glæsilegum sundlaugarmannvirkjum var einmitt sá að draga hingað fólk sem gæti nýtt sér þjónustu á Álftanesi. Sundlaugin átti þannig að vera fyrsti hornsteinninn í þeirri þjónustu sem byggð verður upp í framtíðinni. Ef gert er ráð fyrir að 15% gesta, komi í laugina vegna sérstöðu hennar, má áætla að viðbótartekjur vegna þeirra séu nú þegar tæplega tvær milljónir króna sem koma til móts við rekstrarkostnað sundlaugarinnar.  

Að lokum

Lífsgæði á Íslandi hafa talist með þeim bestu sem gerast í heiminum. Hluti af þessum lífsgæðum er greiður aðgangur að heitu vatni sem við íslendingar höfum kosið að nota m.a í almenningssundlaugar. Í laugum og íþróttamannvirkjum hittist fólk, hreyfir sig og sína og altalað er hvernig íþróttamannvirki í ýmsum sveitarfélögum geta stuðlað að öflugu félagslífi og samkennd meðal íbúa.

Rannveig Anna Guicharnaud er á 3. sæti Á-listans fyrir sveitastjórnarkosningarnar 29. maí.


Af eignarhaldi íþróttamannvirkja

Bergur Sigfússon skrifar: 

Á síðasta íbúafundi sem bæjarstjóri hélt í íþróttahúsinu spunnust nokkrar umræður á eignarhaldi á íþróttamannvirkjum. Spurt var hvort sveitarfélagið myndi eiga íþróttamannvirkin að loknum 30 ára leigutíma. Sigurður Magnússon, svaraði því játandi þannig að sveitarfélagið ætti íþróttamannvirkin í gegnum eignarhald sitt í Eignarhaldsfélaginu Fasteign (EFF). Mátti heyra á sumum fundarmönnum að þeim fyndist bæjarstjórinn fyrrverandi vera með útúrsnúning þarna og væri að villa um fyrir fólki. Þessi skýring Sigurðar, að sveitarfélagið eigi laugina að leigutíma loknum er í samræmi við skilgreiningu EFF sbr. texta sem kom fram í kynningarbæklingi frá EFF og fylgir ljósrit úr honum hér að neðan:

fasteign

Það má svo benda á að samkvæmt leigusamningi hefur sveitarfélagið heimild til að kaupa íþróttamannvirkin á fimm ára fresti og jafnframt hafa bæjarfulltrúar Á-listans flutt tillögur á bæjarstjórnarfundum um að taka upp samningaviðræður við Ríkið um sölu hlut Álftaness í EFF og nota andvirðið til að kaupa upp íþróttamannvirkin. Þessari tillögu vísaði D-listi frá í bæjarstjórn en vonandi mun þó ríkisvaldið sjá ástæðu til að gaumgæfa þessa tillögu Á-listans.

Bergur Sigfússon, skipar 12. sæti á lista Álftaneshreyfingarinnar.


Á-listinn vill könnunarviðræður við Reykjavík

Ánægjulegt að Dagur er jákvæður að fara í viðræður við Álftanes og aukna samvinnu á höfuðborgarsvæðinu öllu. Á-listinn á Álftanesi hefur lagt til í bæjarstjórn þar að teknar verði upp könnunarviðræður við Reykjavík um sameiningu meðan að sjálfstæðismenn á Álftanesi vilja láta viðræður við pólutíska samherja sína, sem alltaf hafa stjórnað Garðabæ, vera í forgangi. Rök Á-listans fyrir því að könnunarviðræður við Reykjavík eigi að hafa forgang eru þau að miklu líklegra sé að Reykvíkingar komi jákvæðir að uppbyggingu nærþjónustu á Álftanesi en Garðbæingar. Líklegt er að ef Á-listinn fær gott brautargengi í komandi kosningum, að könnunarviðræður við Reykjavík fari af stað strax í júní. SK
mbl.is Álftanes óskar eftir sameiningarviðræðum við Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband