Að vera læs - á staðreyndir

Kristinn  Kristinn Guðmundsson skrifar.

Í Morgunblaðsgrein 22. maí kynnir Jón Gunnar Gunnlaugsson ósk sína um að Álftaneshreyfingin dragi framboð sitt til baka. Hann segir að Álftaneshreyfingin hefði betur gert að setja annan fremstan á framboðslista sinn en oddvita hreyfingarinnar og fyrrverandi bæjarstjóra á Álftanesi. Allt annað sem hann skrifaði er ómálefnalegt og samanstendur af samhengislausum tilvísunum, sem líklega eiga að gefa málflutningi hans trúverðugan blæ. Stíllinn er sviplíkur öðrum árásum á Á-listann úr sömu átt, lágkúra sem dæmir sig sjálf. Í sjálfu sér er ekki vert að rekja skrif Jóns, en það má nota tilefnið til að draga fram forvitnilegar staðreyndir sem segja aðra sögu en þá sem Jón vill koma á framfæri.

 

Fyrst má vísa á forsíðu Morgunblaðsins þennan sama dag því þar var fjallað um skrif starfsmanns Ríkisskattstjóra, Páls Kolbeinssonar, um samanteknar skuldir fyrirtækja í landinu og versnandi eiginfjárstöðu frá árinu 2005. Breytingin á eiginfjárstöðu einkarekinna fyrirtækja á landsvísu er sláandi lík þeirri sem sýnd hefur verið fyrir sveitarsjóð Álftaness og höfð til marks um óráðsíu Á-lista á yfirstandandi kjörtímabili. Það vefst þó ekki fyrir viðskiptafræðingnum að reyna að gera fulltrúa Á-listans tortryggilega og hafna skýringum þeirra á afleiðinum bankahrunsins á sveitarsjóð. 

 

Ekki ætla ég að gagnrýna hér einkarekin fyrirtæki landsins þau eru eins misjöfn og þau eru mörg. Þess í stað ætla ég að gagnrýna sjónarmið Jóns um að sveitarstjórnendur sem stóðu sig ekki betur en forstjórar fyrirtækja eigi að skammast sín og draga sig í hlé. Fulltrúar Á-listans störfuðu samkvæmt þeim stefnumálum sem þeir voru kosnir til af kjósendum til að vinna. Unnið var samkvæmt lögum og farið að ráðum virtra fagaðila þegar stórar ákvarðanir voru teknar. Öll gögn staðfesta þetta, engin óráðsía var viðhöfð af hálfu meirihlutans. Þvert á móti var gætt aðhalds í fjármálum og unnið af stakri fagmennsku með yfirlýst stefnumál Álftaneshreyfingarinnar fyrir kosningarnar 2006 að leiðarljósi. Ef þau verkefni voru óráðsía þá var það vilji kjósenda og reyndar þó síst meiri en ef farið hefði verið eftir því sem lofað var af hálfu D-lista. Stefnumál beggja framboðanna árið 2006 má lesa á viðkomandi vefsíðum. Á alftaneshreyfingin.blog.is má líka lesa ítarlegar skýringar á þeim óheillavænlegu breytingum sem hafa orðið á efnahagi sveitarfélagsins á undanförnum árum. Búið sem Á-listinn tók við í byrjun sumars 2006, eftir langt stjórnarskeið Sjálfstæðisfélagsins á Álftanesi var orðið niðurnítt og engin áform sett fram af þeirra hálfu til að leysa vandann.

 

Fullyrðing Jóns um að sjálfstætt sveitarfélag á Álftanesi sé eitthvað sambærilegt við þúsund ára ríki stenst heldur ekki sögulega skoðun og hann ætti að vita betur eða lesa bókina Álftanessögu. Á unga aldri læra flestir Íslendingar að lengst af var þjóðfélagið og ekki síst samfélagið á Álftanesi undir hæl danskra embættismanna á Bessastöðum og aðrir íbúar fengu þá litlu að ráða um sína framtíð. Ég efast ekki um að hallæri hafi dunið yfir þá ekki síður en nú en það er annað mál. Síðar, þegar árabátaútgerðin lagðist af fyrir rúmri öld síðan þá sóru stóreignabændur og landeigendur af sér þá sem fluttu á mölina við Hafnarfjörð. Fólk sem flosnaði upp í kjölfar breytinga í útgerð á Íslandi flutti á mölina og vann við fiskverkun. Vinnan var vertíðabundin og stopul en vistin þó skárri en í kotum á nesinu og svo losnaði verkafólkið undan ofríki jarðeigenda. Þegar engin vinna fékkst var veitt lögbundin félagsleg aðstoð úr sveitarsjóði. Bændur á Álftanesi voru ósáttir við fyrirkomulagið og sveitamörkin í Álftaneshreppi hinum forna voru endurskoðuð og sýna á hvaða bæjum bændur kusu þannig að leysa sig undan fyrrnefndum félagslegum kvöðum.

 

Á sjöunda áratugi liðinnar aldar urðu enn á ný umbreytingar í atvinnulífi á Álftanesi. Búskapur dróst saman er fjósarekstur lagðist af á Bessastöðum. Að þessu sinni hófu landeigendur að selja skika úr jörðum sínum sem lóðir undir íbúðarhús. Fyrst voru þetta stakar dreifðar lóðir en seinna tóku verktakar og athafnamenn til við að byggja heilu göturnar en sveitafélagið sá um frágang og uppbyggingu þjónustu eftir þörfum. Illu heilli komst aldrei á það fyrirkomulag sem tíðkast víða annars staðar að sveitarsjóður kaupi fyrst landið og skipuleggi síðan landnotkun þar. Er landlausum íbúum fjölgaði fór að bera á togstreitu, bæði milli landeigenda og nýaðfluttra og sömuleiðis milli þeirra sem áttu land sem hentaði best sem byggingarland og þeirra sem áttu land sem átti aðeins að nota til útsýnis - eins og sagt er. Þeir sem seldu spildurnar vildu helst fá allan ágóðann af sölunni og því mikilvægt að geta haldið í taumana og ráða því hvernig sveitin þróaðist. Landeigendur hafa í gegnum tíðina sótt fast að hafa ítök í sveitarstjórn - þannig mátti tryggja að skipulagið yrði mótað samkvæmt þeirra þörfum og skipulagið á nesinu ber þess ýmis merki.

 

Það kallast að slá um sig þegar máltæki eru misnotuð til að undirstrika hæpnar fullyrðingar og á  við um Jón er hann heldur því fram að Á-listinn leggist lágt og vilji kenna bankahruni og börnum um sínar ófarir. Hann líkir þessu við að „árinni kennir illur ræðari". Eins og komið hefur fram tekur Jón undir með þeim sem segja slæma stöðu sveitarsjóðs á Álftansi vera afleiðingu lélegs rekstrar á árunum 2006 - 2008. Þar lítur viðskiptafræðingurinn framhjá staðreyndum. Maður skyldi ætla að Jón kunni að lesa rétt úr árlegu uppgjöri sveitarsjóðs. En tölur á blaði segja ekki alla söguna og því hafa fulltrúar Á-listans kynnt viðhlítandi skýringar sem eru byggðar á staðreyndum. Á Álftanesi er óvenju hátt hlutfall barna á grunnskólaaldri af heildar íbúafjölda og það hefur auðvitað afgerandi áhrif á rekstur sveitarsjóðs ekkert síður en bankahrunið sem kom hart niður á sveitarsjóði Álftaness því sveitarfélagið hafði frá því að rekstur grunnskóla var yfirfærður á sveitarfélögin árið 1996 selt nánast allar seljanlegar eignir og þess utan tekið stór lán til að kosta uppbyggingu á aðstöðu til þjónustu við íbúana.

 

Rétt er að ítreka það að Álftaneshreyfingin kynnti stefnuskrá sína og vann markvisst að þeim áformum sem boðuð voru fyrir kosningarnar 2006 og þar á meðal átti að undirbúa jarðveg fyrir atvinnurekstur í sveitarfélaginu. Margt gott ávannst og sömu markmiðin eru enn eina raunhæfa framtíðarstefnan sem lögð hefur verið fram um að gera samfélagið á nesinu að fjárhagslega sjálfbærri rekstrareiningu. Því miður náðist ekki að fullnusta áformin, m.a. vegna ómálefnalegrar andstöðu fulltrúa D-listans í bæjarstjórn. Vel má vera að sameining við eitthvað nágrannasveitafélagið eða sameining allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sé eina raunhæfa leiðin. Það breytir þó engu um fyrrnefnda fullyrðingu um rekstrareininguna á Álftanesi.

Á það hefur verið bent áður að Álftaneshreyfingin vill að ríkið uppfylli lagalega skyldu sína til jöfnunar á aðstöðumun til fræðslumála, en með sameiningu yrði það misvægi sótt í sjóð þeirra sem samþykkja sameiningu í stað Jöfnunarsjóðs sem á að gegna umræddu hlutverki á landsvísu.

Eftir sem áður er full þörf á að vinna markvisst að fjárhagslegri framtíð byggðarlagsins  og þá vonandi í sátt við sérstöðu Álftaness í sögulegu samhengi og út frá sjónarmiðum umhverfisverndar.

Niðurstaða mín er sú að stefna Álftaneshreyfingarinnar eins og Á-listinn kynnti hana fyrir kosningarnar 2006 var bæði þörf og góð á þeim tíma. Auðvitað þarf að endurskoða áformin nú í ljósi breyttrar stöðu, bæði á Íslandi og á Álftanesi en markmiðin eiga við áfram þó leiðin verði lengri. Þetta viðhorf endurspeglast í stefnumörkun Álftaneshreyfingarinnar fyrir kosningarnar í ár. Þeir sem enn sitja í forystu á Á-listanum brugðust hvergi í vinnu sinni að því sem að var stefnt og eiga því hrós skilið fyrir sín störf. Það er ekki stórmannlegt að álasa duglegum einstaklingum fyrir það sem þeir höfðu engin tök á að ráða við svo sem ófyrirsjáanlegan forsendubrest. Því var rökrétt ákvörðun að tefla fram sömu forystu í nýju framboði Álftaneshreyfingarinnar. Það eina sem erfitt er að svara fyrir varðandi yfirstandandi kjörtímabil af hálfu Álftaneshreyfingarinnar er að tveir einstaklingar sem voru kjörnir til forystuhlutverka fyrir Á-listann 2006  brugðust trausti og létu annað ráða sínum gerðum en stefnumál hreyfingarinnar. Hvorugur er á nýjum framboðslista Álftaneshreyfingarinnar.

 

PS. Það má vel vera að Sjálfstæðisfélagið hafi af klókindum valið að stilla fram sínum oddvita í sérframboði og gefa þannig kjósendum kost á að velja milli gömlu hörðu línunnar og nýrrar ásýndar. Þannig gefst kjósendum tækifæri til að refsa fyrir ljótan leik á yfirstandandi kjörtímabili, eða hylla leiðtogann til margra ára. Aðrar eins flækjur hafa verið dregnar fram í dagsljósið eftir bankahrunið. Engu að síður virðist Jón banginn við kraftinn í Álftaneshreyfingunni og lítur það illu auga. Að afstöðnum kosningum má svo alltaf sameina hjörðina á ný. Það vefst varla fyrir þeim því lítill sem enginn munur er á metnaðarlausum markmiðum framboðanna og aðal atriðið að samfélagið á Álftanesi verði sameinað  við eitthvað nágrannasveitarfélagið - bara ef einhver vill taka við okinu. - Engar kröfur hafa verið kynntar, t.d. um framtíð í samræmi við nýlega samþykkt aðalskipulag. Í þessa veru sker Á-listinn sig úr og það dylst engum sem vill vita að núverandi forysta hefur lagt sig fram og krafist þess að Álftnesingar fái sanngjarna meðferð hjá ríkisvaldinu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Það merkir á mannamáli að Ríkið geri upp fyrir vanmat á greiðslum til leiðréttingar á aðstöðumun til fræðslumála í sveitafélaginu og að sanngjarnar tillögur til endurskipulags á fjárhagi sveitarfélagsins verði gerðar fyrir Álftnesinga, en ekki til að greiða með Álftnesingum í tengslum við illa ígrundaða innlimun íbúa á Álftanesi í samfélag betur stæðra nágranna - og þá án undangenginna samninga um framtíðaráform og þróun í byggðarlaginu.

 

Jón, ég er stoltur af að hafa tekið þátt í starfinu með fulltrúum Á-listans og kvíði því í engu dómi kjósenda. Ég treysti á að kjósendur séu upp til hópa læsir á staðreyndir og við sjáum svo bara til hverjir verða valdir til forystu - „Jón, eða séra Jón".

 

Kristinn Guðmundsson er fulltrúi Álftaneshreyfingar í skipulagsnefnd

og skipar 6. sæti á Á-lista fyrir komandi sveitastjórnakosningar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband